150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:46]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla að vitna í athugasemdir Markaðsstofu Norðurlands við drög að flugstefnu Íslands, með leyfi hæstv. forseta:

„Markaðsstofa Norðurlands (MN) sendi inn ítarlegar athugasemdir við grænbók um flugstefnu sem birt var á samráðsgáttinni í lok júlí sl. Svo virðist sem ekki hafi verið tekið mikið tillit til þeirra athugasemda og enn eru meginskilaboð flugstefnunnar að ekki eigi að byggja neitt upp á Akureyrarflugvelli. Athugasemdir MN við grænbókina má finna í viðhengi við þessa umsögn.

Það er í flugstefnunni talað um að stuðla að reglubundnu millilandaflugi um fleiri alþjóðaflugvelli en Keflavíkurflugvöll, en í næstu hendingu að innviðauppbygging eigi að miðast við varaflugvallarhlutverk fremur en farþegaþjónustu og áhersla sé þar sett á Egilsstaðaflugvöll. Reglulegt millilandaflug krefst farþegaþjónustu og t.d. á Akureyrarflugvelli er afar brýnt að stækka flugstöðina.

Helstu athugasemdir MN við drög að flugstefnu Íslands eru eftirfarandi:

Markaðsstofa Norðurlands gerir kröfu á að haldið verði áfram með þróun á Akureyrarflugvelli sem alþjóðaflugvelli og farið verði í heildstæða uppbyggingu þannig að hann uppfylli þær þarfir sem alþjóðaflugvelli ber að gera og mögulegt sé að byggja þar upp aukið millilandaflug.

Tryggja þarf samkeppnishæfni Akureyrarflugvallar m.a. með jöfnun á flutningskostnaði á flugvélaeldsneyti, uppbyggingu flugstöðvar og flughlaðs.

Öflugur alþjóðaflugvöllur hefur mikil jákvæð áhrif á atvinnulíf og samfélag og styður við jákvæða byggðaþróun á viðkomandi svæði. Því ætti að leggja meiri áherslu á að byggja upp alþjóðaflugvelli í fullri starfsemi en bara varaflugvelli.

Aðrar athugasemdir um einstaka liði flugstefnunnar:

Lykilviðfangsefni.

6. Skilvirkt kerfi alþjóðaflugvalla hér á landi sem er samþætt og á einni hendi. Stutt við möguleika á fleiri hliðum inn til landsins til að fjölga svæðum sem geta notið góðs af ferðaþjónustu.“

Þetta hefur verið margoft rætt, en lítið mjakast.

„Akureyrarflugvöllur er að flestu leyti vel í stakk búinn til að taka við meiri umferð millilandaflugs, unnið hefur verið að markaðssetningu flugvallarins fyrir millilandaflug og þar hefur náðst árangur. Það sem vantar á Akureyrarflugvelli er stærri flugstöð svo hægt sé að þjónusta þá farþega sem þangað koma með sóma og í framhaldinu að byggja ofan á þann árangur sem náðst hefur. Á næstu árum eru allar forsendur fyrir því að stórauka umferð millilandaflugs um flugvöllinn en það mun ekki gerast nema þar verði byggt upp og stærri flugstöð er brýnasta verkefnið. Því verður að setja fjármuni í það verkefni strax á næsta ári. Í framhaldinu þarf einnig að stækka flughlaðið til þess að völlurinn geti betur sinnt hlutverki sínu sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll. […]

Á Norðurlandi erum við með áfangastað sem vantar uppbyggingu á innviðum til að geta nýtt þau tækifæri sem eru til staðar í auknum fjölda ferðamanna beint inn á svæðið. Árið 2018 jókst umferð um Akureyrarflugvöll um 80% miðað við árið á undan. Innviðir flugvalla þurfa að vera þannig að þeir geti tekið á móti þeirri umferð sem ætlað er að koma inn á svæðið og þjónustað farþega t.d. varðandi bílaleigubíla, rútur o.fl.

Beinar tekjur af flugferðum Super Break til Akureyrar frá Bretlandi síðustu tvo vetur eru metnar á um 750 milljónir króna, en til viðbótar er önnur neysla sem metin er á um 450 milljónir. Samtals hefur starfsemi Super Break aukið veltu ferðaþjónustu á Norðurlandi um 1,2 milljarða.“

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að vera settur aftur á mælendaskrá.