150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:51]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Frú forseti. Ég ætla að fjalla um hagfræðilega greiningu á borgarlínunni. Eins og ég rakti í síðustu ræðu er hér um að ræða BS-ritgerð í hagfræði við Háskóla Íslands sem ber heitið: Þjóðhagsleg hagkvæmni borgarlínu. Kostnaðar- og ábatagreining. Það er skemmst frá því að segja að niðurstaða þessarar ritgerðar er, með leyfi forseta, „að ekki sé þjóðhagslega hagkvæmt að starfrækja borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu.“ Þetta er niðurstaða á hagfræðilegri greiningu og þetta er framkvæmd sem ríkisstjórnin, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn fer með ríkisfjármálin, ætlar að setja í 50 milljarða.

Eins og hv. þm. Birgir Þórarinsson rakti áðan eiga Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög, einhver a.m.k., varla fyrir útgjöldum til lögbundinna verkefna og það er eins og hver önnur fásinna að við þessar aðstæður verði ráðist í þetta verkefni. Sveitarfélögin hafa enga burði til þess og ríkissjóður er kominn í alveg nýja og verri stöðu eftir að hafa þurft að glíma við afleiðingar veirufársins sem ekki sér fyrir endann á. Þegar af þeirri ástæðu, frú forseti, er náttúrlega ekki annað að gera en að hverfa frá þessum fyrirætlunum. Þær eru algjörlega óraunhæfar. Í fyrsta lagi leyfir efnahagsástandið þetta ekki og í öðru lagi ekki fjárhagsstaða ríkissjóðs eða sveitarfélaganna. Í þriðja lagi fellur þetta á prófum, hvort sem þau eru verkfræðileg eða hagfræðileg. Þetta stenst ekki skoðun sem hagkvæm framkvæmd í hagfræðilegu tilliti.

Við þingmenn Miðflokksins höfum rakið í ræðum ummæli verkfræðinga. Við höfum vísað til ummæla í grein í Kjarnanum eftir umferðarverkfræðing, sem heitir Þórarinn Hjaltason, þar sem hann segir og rökstyður það álit sitt að hægt sé að ná þeim markmiðum sem að er stefnt varðandi bættar almenningssamgöngur með því að verja nokkrum milljörðum til verkefnisins á meðan kostnaðaráætlun, þegar síðast spurðist til, er upp á 80 milljarða. Þar af á ríkissjóður að setja 50 milljarða og verðmæti Keldnalandsins.

Þetta er verkefni sem stenst enga skoðun, frú forseti, og væri sæmst að hverfa frá því. Það liggur ekki einu sinni fyrir skilgreining sem eitthvert samkomulag er um meðal fylgismanna verkefnisins, að því er best verður séð, um hvað borgarlína sé. Það er t.d. einn kafli í þessari BS-ritgerð sem heitir Hvað er borgarlínan? Þetta er kafli 2.2 á bls. 12. Þar segir að borgarlínu sé ætlað að verða hágæða almenningssamgöngukerfi og slíkt kerfi byggist í sinni einföldustu mynd, eins og það er orðað, á þremur þáttum; að það aki á sérakgreinum, afkasti miklu og hafi háa ferðatíðni. Þessar sérakreinar verða náttúrlega ekki til nema með því taka þær frá almennri umferð. Það er því alveg augljóst mál að borgarlínunni er ætlað að þrengja að þeirri umferð sem er fyrir, sem er þannig stödd að hér eru umferðarteppur þar sem fólk situr langdvölum í bílum sínum. Þetta spillir lífsgæðum og spillir öryggi.

Það þarf auðvitað að fjalla meira um þetta, frú forseti, og þess vegna bið ég um að vera settur öðru sinni á mælendaskrá.