150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:07]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég hef verið að hugleiða í sjálfu sér svipaðan hlut og sá þingmaður sem talaði á undan mér og ég er búinn að vera að hugsa í dálítinn tíma um það. Það virðist sem sú 50 milljarða tala sem ríkissjóði er ætlað að bera í þessari framkvæmd hafi siglt í gegnum fullt af stofnunum, fólki, án þess að nokkur reisi fána og segi: Ja, þetta er nú ansi mikill peningur. Eins og ég sagði áðan er þessi upphæð svona 60% af byggingarkostnaði Landspítala – háskólasjúkrahúss eins og hann var áætlaður fyrir einu og hálfu ári síðan. Þó að það sé kannski orðið minna hlutfall er þetta samt ærið fé. Þetta ætla menn að setja niður án þess að vera nokkuð vissir um hvernig nýtingin verður.

Ég er með hérna fyrir framan mig, herra forseti, tvær teikningar af fyrstu tveimur áföngunum í borgarlínulögninni. Ég var að segja áðan að af því að þetta á að vera hraðferð þá er mjög undarlegt að það skuli vera á 13 km kafla a.m.k. 20 stoppistöðvar í línu nr. 1 sem síðan á eftir að teygja sig upp í tvær stoppistöðvar í viðbót og enda uppi í Lindum en upphafspunkturinn hinum megin frá er Höfðinn. Þetta hringkeyrir borgina þannig að sá sem er á leið frá Lindum í Höfða mun örugglega reikna sér klukkutíma til að fara þetta. Eins og við höfum verið að ræða hér áður þá er þessu apparati ætlað að vera tímasparandi en það verður ekki séð við fyrstu sýn að svo verði.

Það er reyndar líka eiginlega alveg makalaust að það virðast ekki, alla vega ekki í þeim gögnum sem ég er búinn að sjá hér innan húss, fylgja þessari áætlun neinar forsendur. Menn segja: Við ætlum að koma fjölda þeirra sem nýta sér almenningssamgöngur úr 4% af þýðinu í 12%, ef ég man rétt. En það er ekkert fyrirliggjandi um hvernig menn ætla að gera þetta. Jú, menn ætla að bjóða upp á það að fólk geti farið frá Höfða í Hamraborg á 13 kílómetrum og stoppað 20 sinnum á leiðinni. Ég sem farþegi væri ekkert endilega til í að borga mikinn pening fyrir það því að ég sé ekki í hendi mér hvernig það á að vera fljótlegt. Fyrir utan það er þessi svokallaði rauði borði eða rauði dregill sem á að fylgja framkvæmdinni nánast ómögulegur á allri þessari leið, nema kannski í efstu leiðinni, vegna þess að eftir að í Skeifuna er komið fer leiðin gömlu Suðurlandsbrautina og síðan Hverfisgötu.

Herra forseti. Það er ekki hægt að búa til aukaakgrein á kolvitlausum stað. Það er ekki hægt. Þá segi ég: Bíddu, hvernig ætla menn þá að flýta för þessara vagna? Ég hef sagt áður að það er búið að gera tvær tilraunir með að stoppa umferð út af strætisvagni í Reykjavík á nýlegum árum, þ.e. í Borgartúni og nýjasta dæmið er stoppistöðin í miðju Hagatorginu sem er, eins og ég sagði áðan, ekki hringtorg heldur hringlaga akbraut samkvæmt því sem borgaryfirvöld segja.

Herra forseti. Þetta er nefnilega grafalvarlegt. Þótt þetta sé broslegt þá er það grafalvarlegt ef firringin er orðin svo mikil að menn leita sér að nýjum orðaleppum til að klína á það sem allir sjá að er ómögulegt. Þannig að það þarf— og ég verð að koma því að í næsta ræðu því að ég sé að tími minn er merkilegt nokk búinn. Ég verð að biðja hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá svo að ég geti haldið áfram.