150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:13]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég var byrjaður að fara yfir það áðan hvernig jafnvel þau verkefni samgöngusáttmálans sem eru ekki beinlínis merkt borgarlínu snúast mörg hver einmitt um hana, enda tengist þetta allt saman henni á einn eða annan hátt. Ég á eftir að fara betur yfir þessi verkefni og er bara hálfnaður með listann en ég ákvað hins vegar gera hlé á þeirri yfirferð og fara aðeins yfir skjal úr Stjórnarráðinu sem við Miðflokksmenn höfum undir höndum, svo maður noti nú fréttamannamál, og útskýrir ágætlega eða rennir stoðum undir svo margt sem við höfum verið að benda á.

Þetta er bréf frá embætti borgarlögmanns, dagsett 12. nóvember 2018, og ber yfirskriftina: Gjaldtökuheimildir vegna uppbyggingar almenningssamgangna. Þar segir í upphafi, með leyfi forseta:

„Vísað er til viljayfirlýsingar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, f.h. íslenska ríkisins, og stýrihóps SSH“ — það eru Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu — „um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu sem er dagsett 21. september 2018 og gerð var samhliða þinglegri meðferð samgönguáætlunar.“

Þegar verið var að vinna samgönguáætlun á sínum tíma funduðu fulltrúar borgarinnar, eða Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, og samgönguráðherra einu sinni sem oftar, illu heilli. Ég hugsa að ýmsir hafi verið búnir að gleyma því að samkomulagið sem vísað er til í samgönguáætlun núna, þessi sáttmáli sem maður á víst að kalla, átti sér forvera sem hér er vísað til. Svo segir áfram í texta bréfsins:

„Samkvæmt viljayfirlýsingunni eiga aðilar að vinna að áfangaskiptingu, útfærslu og samkomulagi um fjármögnun samgöngufjárfestinga og hágæðakerfis almenningssamgangna“ — hér verð ég að skjóta inn í, herra forseti, hágæðakerfi almenningssamgangna er hugtak sem var notað um borgarlínu áður en farið var styðjast við styttra nafn — „á höfuðborgarsvæðinu. Meðal þess sem aðilar urðu ásáttir um að tekið yrði til skoðunar er hvort setja skuli gjaldtökuheimildir í lög til að standa undir hlut sveitarfélaga í fyrirhuguðum samgöngufjárfestingum.

Í því skyni að gera sveitarfélögum kleift að ráðast í uppbyggingu kerfis almenningssamgangna leggur Reykjavíkurborg til að önnur hvor eftirfarandi tillagna um breytingu á lögum verði farin til að tryggja gjaldtökuheimildir til handa sveitarfélögum til að fjármagna þeirra hlut í fyrirhuguðum verkefnum.“

Hér er Reykjavíkurborg að segja ríkinu hvernig ríkið eigi að breyta lögum til að gera sveitarfélögunum kleift að leggja ný gjöld á almenning, í sveitarfélögum hér á höfuðborgarsvæðinu, til að standa straum af borgarlínu eða hágæðakerfi almenningssamgangna eins og það hét á sínum tíma. Og áður en ég fer yfir í hverju þessar tillögur, eða nánast tilmæli, borgarinnar til ríkisins fólust þá bendi ég á að við höfum rætt það talsvert að Reykjavíkurborg og félagar ætlist til þess að ríkið borgi megnið af þessu, af borgarlínunni m.a., sem er verkefni sem er á hendi sveitarfélaganna, viljum við ráðast í það, og að ríkið leggi ný gjöld á almenning og selji Keldnalandið og jafnvel Íslandsbanka. En svo sjáum við hér að sveitarfélögin, sem hafa ekki öll efni á að leggja til sinn hlut þótt hann sé tiltölulega lítill miðað við ríkið, vilja fá að fjármagna sinn hlut með nýrri gjaldtöku, sem sagt að (Forseti hringir.) ríkið leggi ný gjöld á og sveitarfélögin leggi ný gjöld á. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Nú verð ég að fá að fara aftur á mælendaskrá svo ég geti farið yfir í hverju tillögurnar fólust.