150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Í þessari ræðu langar mig að fara yfir kafla í nefndaráliti 2. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Ég greip aðeins niður í þennan kafla í fyrri ræðum en langar að gera betur grein fyrir því sem 2. minni hluti segir um samgöngusáttmálann og borgarlínuna. Ég ætla að lesa upp úr kaflanum, með leyfi forseta:

„Annar minni hluti gerir alvarlegar athugasemdir við áætlanir um þau framlög til samgöngusáttmálans sem snúa að borgarlínu. Þrátt fyrir að vilja greiða fyrir fjölbreyttum samgönguháttum, þar á meðal almenningssamgöngum, telur 2. minni hluti ekki verjandi að ætla áformum um borgarlínu svo mikilvægan sess að ríki og sveitarfélög verji tæplega 50 milljörðum kr. fram til ársins 2033 til borgarlínu. Ekki hefur verið sýnt fram á að ekki sé unnt að ná þeim markmiðum sem að er stefnt með borgarlínu með hagkvæmari hætti en að verja til þess 50 milljörðum kr. á umræddu tímabili. Engin haldbær kostnaðaráætlun liggur fyrir um framkvæmdir vegna borgarlínu auk þess sem arðsemismat og rekstraráætlun liggja ekki fyrir, og óljóst hver á að bera kostnað af rekstrinum að framkvæmdum loknum. Ætla má að framlög, bæði ríkis og sveitarfélaga, verði miklum mun hærri en gert er ráð fyrir, enda um fjölda óvissuþátta að tefla í framkvæmdinni allri. Má þar nefna að það er með öllu óljóst hver mun eiga eða eftir atvikum hafa tekjur af því rými sem myndast ef Miklabraut verður sett í stokk að hluta. Enginn veit hvort það verður Reykjavíkurborg eða hlutafélagið, verði það stofnað, sem ætlað er að halda á fjárfestingum og rekstri tengdum samgöngusáttmálanum. Þá ríkir fullkomin óvissa um rekstrarlegar forsendur borgarlínu eftir að hún er orðin að veruleika og hætt við að rekstur hennar verði klafi á sveitarfélögunum um langa framtíð.“

Það er gríðarlega mikilvægt að hafa þennan kafla í huga, herra forseti, og það sem þar stendur. Þarna eru reifaðir nokkrir af þeim fjölmörgu óvissuþáttum sem um þetta verkefni gilda. Það er alveg ljóst að mörgum spurningum sem hér hafa verið lagðar fram er enn ósvarað. Þeim vangaveltum og spurningum sem við höfum lagt fram, og lúta m.a. að því sem 2. minni hluti gerir grein fyrir í nefndaráliti sínu, hefur ekki verið svarað. Það hlýtur að vera eðlilegt að fjallað sé um hvort það er hlutafélagið eða Reykjavíkurborg sem fær þann ábata sem kann að hljótast af þessari framkvæmd, t.d. af lóðasölu eða leigutekjum og öðru slíku, ef Miklabraut verður lögð í stokk eins og hér er nefnt. Það eru svona þættir sem er nauðsynlegt að skýra, herra forseti, og í raun ómögulegt að hafa það óklárt áður en við höldum áfram með málið. Samt eru miklu stærri þættir sem skipta jafnvel meira máli en akkúrat þetta. Það er sú óvissa sem ríkir um hver á að bera endanlegan kostnað verði framúrkeyrsla. Hvernig á hún að skiptast? Hvernig er rekstrinum háttað á verkefninu öllu saman o.s.frv.?

Ég vek líka athygli á því, herra forseti, að samkvæmt áætlunum er gert ráð fyrir að á þrettán árum renni 50 milljarðar kr. í þetta verkefni. Það eru töluvert miklir fjármunir og ef við horfum á þau framlög sem ríkið hefur úr að spila til samgangna og samgöngubóta eru þetta gríðarlega háar tölur sem þarna á að festa. Jafnvel þótt það takist að fjármagna þennan hluta með sölu eigna og slíkt verður líka að hafa í huga að sú eignasala verður ekki bæði notuð til þess að greiða niður hlut ríkisins í þessu verkefni og til annarra framkvæmda, t.d. á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni. Þeir fjármunir sem verið er að binda í þetta verkefni, sama hvaðan þeir koma, verða ekki nýttir annars staðar. Það verður því um að ræða takmörkun, ef ekki hreinlega beina lækkun, á fjármunum til vegaframkvæmda þegar upp er staðið.

Síðan þyrfti að ræða hvort hægt væri að fjármagna hluta af viðbótarkostnaðinum með einhvers konar notkunargjöldum. En það er bara allt önnur umræða. Það er umræða sem við þurfum að taka síðar því að það gengur vitanlega ekki, herra forseti, líkt og bent er á í nefndaráliti 2. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar, að viðbótargjöld sem kunna að verða innheimt af notendum gatnanna á höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar verði hrein viðbót við annan kostnað sem bíleigendur þurfa að greiða á hverju ári. Það getur ekki verið hrein viðbót.