150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:45]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil aðeins fara yfir athyglisverða grein sem fyrrum þingmaður, Frosti Sigurjónsson, skrifaði. Hann hefur kynnt sér borgarlínuverkefnið mjög vel og hefur margt athyglisvert fram að færa varðandi það. Borgarstjóri og bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu hafa komið á framfæri í ræðu og riti að þeir telji að borgarlína sé hagkvæm og vistvæn og til þess fallin að stórauka flutningsgetu samgöngukerfisins, bæta lífsgæði íbúa, stytta ferðatíma, draga úr slysum og lækka byggingarkostnað.

Allt eru þetta fögur orð og fögur fyrirheit um borgarlínu en við nánari skoðun kemur í ljós hve ólíklegt það er að borgarlínan geti uppfyllt þessar miklu væntingar. „Verkefnið er samt á miklu skriði“, segir Frosti. Og það er alveg rétt. Það er meira að segja búið að ráða starfsmenn á vegum Reykjavíkurborgar sem eru undir svokölluðu borgarlínuverkefni. Samt sem áður er Alþingi ekki búið að samþykkja að ríkissjóður skuldbindi sig í verkefnið. Engu að síður er farið af stað og verkefnið gæti kostað hvert einasta heimili á höfuðborgarsvæðinu 1–2 milljónir.

Undir fyrirsögninni: Það stenst ekki að borgarlína sé hagkvæm samgöngubót, segir Frosti: „Stofnkostnaður við borgarlínu er áætlaður 70–150 milljarðar en fyrir þvílíka upphæð væri hægt að gera margt annað og áhrifaríkara til að bæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.“

Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að þetta er náttúrlega alveg ótrúlega stór og mikil fjárfesting sem mun hafa slæm áhrif á afkomu íbúanna á svæðinu. Kostnaðurinn er gríðarlegur.

Áfram segir: „Sé fjárhæðinni deilt á þau 85 þúsund heimili sem eru á svæðinu leggjast 0,8–1,8 milljónir króna á hvert heimili. Þá er ekki meðtalinn sá fórnarkostnaður sem felst í því að akreinar sem búið er að fjárfesta verulega í á liðnum árum verða færðar undir borgarlínu auk þess sem bílastæðum og grænum svæðum verður fórnað.“

Maður spyr sig, herra forseti: Er þetta virkilega það sem íbúar á höfuðborgarsvæðinu vilja? Hér hefur oft verið rætt um Keldnalandið, mjög verðmætt land sem er í eigu ríkissjóðs, og ríkissjóður ætlar að leggja fé í þetta verkefni verði það að veruleika.

Áfram segir: „Borgarlínan mun t.d. leggjast þvert yfir Keldnaholtið sem nú er grænt svæði.“

Það er verið að fórna miklu fyrir þetta verkefni og það má heldur ekki gleyma þeirri miklu röskun á umferð sem fylgir slíkum framkvæmdum við umferðaræðar og mun standa í 10–15 ár. Hugsið ykkur. Þetta er alveg ótrúlega langur tími sem verður undirlagður í framkvæmdum sem enginn veit í raun og veru hvaða árangri mun skila. Forsendan fyrir rekstri borgarlínunnar er að áhugi almennings á að ferðast með almenningssamgöngum, ferðast með strætó, þrefaldist frá því sem nú er, þrefaldist. Hvaða tryggingu hafa menn fyrir því? Nú eru aðeins 4% ferða á höfuðborgarsvæðinu farnar með strætó en hlutfallið þarf að ná 12% svo dæmið gangi upp.

Ef þessi forsenda gengur ekki upp gæti rekstrartap borgarlínunnar numið milljörðum árlega. Á sama tíma skuldar Reykjavíkurborg 116 milljarða, samstaðan öll 340 milljarða og halli ríkissjóðs er kominn í 300 milljarða vegna veirufaraldursins. Og þá á að skuldbinda ríki og sveitarfélög langt fram í tímann vegna einhvers sem enginn veit í raun og veru hvort skilar þeim árangri sem menn halda það að muni skila.

Ég verð að segja það, herra forseti, af því að tíminn er að verða búinn, (Forseti hringir.) að það er með ólíkindum að mönnum skuli detta í hug að fara í þessa vegferð (Forseti hringir.) á þessum tímum. Ég óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.