150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þegar ég var að ræða tvöfalt, jafnvel þrefalt, kerfi í almenningssamgöngum þá gleymdi ég hafnarstrætó sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson minnti mig á. Svoleiðis að ekki er nóg með að það verði tvöfalt strætókerfi og hugsanlega lestarkerfi sem nú er farið að boða, bæði af borgarfulltrúum og þingmönnum, heldur myndi hafnarstrætó bætast þarna við. Fjórfalt kerfi í litlu Reykjavík. En þetta er auðvitað bara vegna þess að allar þessar hugmyndir eru algjörlega úr sambandi við raunveruleikann og eðli Reykjavíkur sem borgar.

Ég var byrjaður á að fara yfir skjal, stórmerkilegt skjal, sem er upplýsandi fyrir þessa umræðu, skjal sem við Miðflokksmenn höfum undir höndum úr ráðuneyti. Það ber yfirskriftina: Gjaldtökuheimildir vegna uppbyggingar almenningssamgangna. Þetta er bréf frá embætti borgarlögmanns, dagsett 12. nóvember 2018, þar sem Reykjavíkurborg fer fram á það af ríkinu að það breyti lögum til að gera borginni kleift að skattpína íbúana meira en nú er. Þar er útlistað með hvaða hætti menn myndu vilja gera þetta og þeir nefna til sögunnar tvær leiðir. Annars vegar leið eitt sem þeir kalla breytingu á skipulagslögum og þar segir, með leyfi forseta:

„Reykjavíkurborg leggur til að skipulagslögum, nr. 123/2010, verði breytt á þann veg að bætt verði við lögin ákvæði um heimild til handa sveitarfélögum til innheimtu innviðagjalds. Ákvæðið verði svohljóðandi:“

Svo koma hérna meira að segja fjórar greinar þessa ákvæðis. Borgin lætur ekki nægja að koma með tillögu um innviðagjald heldur tekur að sér að skrifa greinarnar í lögin fyrir ríkið. Hafi einhverjir haft efasemdir um hverjir leiða þessa óheillaþróun alla þá ættu menn ekki að velkjast í vafa um það eftir lestur þessa bréfs þar sem borgin er í rauninni að leggja ríkinu línurnar að því marki að hún er farin að skrifa lög fyrir ríkisvaldið, fyrir Alþingi. Þessum greinum fylgir meira að segja greinargerð. Þeir skrifa greinargerðina með frumvarpinu sem þeir ætla ríkinu að samþykkja. Þar segir m.a. um markmið þessa nýja lagaákvæðis sem borgin var að skrifa fyrir þingið, með leyfi forseta:

„Markmið þessa nýja lagaákvæðis er að tryggja þátttöku lóðarhafa í kostnaði við gerð innviða með innheimtu innviðagjalds, með sambærilegum hætti og landeigenda, þegar fyrirhugað deiliskipulag leiðir til þess að leigulóð verður gerð að byggingarlóð eða auknar byggingarheimildir verða heimilaðar á hlutaðeigandi lóð.“

Svo er þetta útskýrt nánar og hvað kemur á daginn? Jú, þeir ætla að innheimta þetta innviðagjald til að standa straum af borgarlínu. En þeir bjóða ríkinu upp á tvo valkosti um hvernig þessari auknu skattheimtu í Reykjavík verði háttað. Það var þessi fyrri tillaga sem ég fór yfir hér, breyting á skipulagslögum, og svo er tillaga tvö um breytingu á lögum um gatnagerðargjald, nr. 153/2006. Þar segir, með leyfi forseta:

„Reykjavíkurborg leggur til að sett verði ákvæði um nýjan gjaldstofn í lög nr. 153/2006, um gatnagerðargjald, þar sem heimilað verður að leggja á gatnagerðargjald vegna byggingar samgöngumannvirkis.“

Menn þekkja þessi hefðbundnu gatnagerðargjöld en þarna er verið að finna upp nýtt gatnagerðargjald sem á að réttlæta með vísan til byggingar samgöngumannvirkis.

„Lagt er til að bætt verði við ákvæði í 5. mgr. 3. gr. laganna sem fjallar um gjaldstofn gatnagerðargjalds. Ákvæðið verði svohljóðandi:

Gatnagerðargjald skal innheimt þegar staðfest deiliskipulag heimilar byggingu almenningssamgangna sem leiðir til verðmætaaukningar fasteignar og/eða til þess að heimilaðar verða auknar byggingarheimildir á hlutaðeigandi lóð.“ (Forseti hringir.)

Forseti. Ég verð víst að klára að lesa þessa setningu og útskýra hana í næstu ræðu og bið því hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.