150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:01]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla mér að halda áfram með almenningssamgöngur milli byggða og er í kaflanum um greiðari almenningssamgöngur. Þar er miðað við að vinna að eftirfarandi áherslum til að bæta þjónustu almenningssamgangna og gera þær aðgengilegri og meira aðlaðandi fyrir notendur. Ég ætla að lesa upp þessa fjóra áherslupunkta, með leyfi forseta:

„1. Heildstætt leiðakerfi almenningssamgangna milli byggða verði skilgreint með tilliti til samræmdra þjónustuviðmiða og samvirkni leiða.

2. Heildstætt leiðakerfi sé rýnt reglulega með tilliti til notkunar og vilja íbúa. Mikilvægt er að kanna hvernig fólk hagar ferðum sínum svo hægt sé að bregðast við og aðlaga þjónustu ef aðstæður breytast.

3. Vinna að því að koma á fót gagnvirkri upplýsingaveitu um heildstætt almenningssamgöngukerfi á landi, lofti og legi.

4. Auka skal áherslu á markaðssetningu þjónustunnar. Leita skal leiða til þess að tryggja að aðgengi fatlaðs fólks og hreyfihamlaðs að almenningssamgöngum milli byggða verði eins og best verður á kosið.“

Þessar áherslur eiga það allar sameiginlegt að stuðla að bættu og auðvelda aðgengi að þjónustunni. Þar sem þetta snýst um upplýsingaveitur og að auðvelda fólki að ná í þær upplýsingar sem það vill og þarf að fá til að geta nýtt sér almenningssamgöngur er tryggt að það sé líka aðlaðandi fyrir þá sem jafnaði nota ekki almenningssamgöngur. Það er líka ljóst að fjölga þarf þeim sem nýta sér almenningssamgöngur á milli byggðarlaga af því að það hefur jákvæð þjóðhagsleg áhrif.

Næsti kafli fjallar um öruggar samgöngur og það er með mikilvægari köflum í þessu skjali. Það er aðalatriði að minnka slys á fólki og með því að bjóða upp á öruggar samgöngur verður það líka til þess að fólk treystir betur því að fara með t.d. strætó. Hér eru ákveðnir mælikvarðar líkt og var í fyrri kafla. Það er tekið til að 2018 hafi einn látist í almenningssamgöngum og að æskileg staða 2024 sé að það sé enginn. Hlutfall biðstöðva sem standast hönnunar- og öryggiskröfur voru ekki þekktar árið 2018 og æskileg staða hvað það varðar er 90%. Í báðum þessum atriðum er talað um ábyrgðaraðila, annars vegar Samgöngustofu og hins vegar Vegagerðina og Isavia í sambandi við biðstöðvarnar.

Eins og ég nefndi eru öruggar almenningssamgöngur lykilatriði í trausti almennings og helstu áherslur til að vinna að framgangi markmiðsins eru að tryggja að þau heildstæðu almenningssamgöngukerfi séu örugg og að öryggisbúnaður sé alltaf nýr og í fremstu röð.

Hér er líka fjallað um að greina leiðir til að auka gæði og öryggi og að á helstu skiptisstöðvum kerfisins ætti að tryggja aukna þjónustu og upplýsingagjöf. Miða skal að því að þeir innviðir sem sinna leiðakerfinu séu í forgangi þegar kemur að vetrarþjónustu og að við allar framkvæmdir og viðhald sé sérstaklega tekið tillit til þjónustunnar og auðvitað leitað leiða til að hún truflist nú sem minnst.

Ég bið hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.