150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:22]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Hvað varðar rekstraráætlun borgarlínu gengur rannsóknin afskaplega hægt. Ég rakst á það á vefsíðu íbúasamtaka Vesturbæjarins að þar voru menn að spyrja um þetta sama atriði. Það virðast fleiri vera í sömu rannsóknarhugleiðingum, þ.e. að finna rekstraráætlun. Ef til vill ber sú leit árangur áður en langt um líður. Ég á satt að segja von á því að hún hljóti að vera til. Menn geta varla verið að fara í slíkan leiðangur, sem kostar tugi milljarða, 80 milljarða, án þess að fyrir liggi nein rekstraráætlun. En eins og allir vita hafa almenningssamgöngur verið niðurgreiddar af sveitarfélögunum og að einhverju leyti einnig af ríkisvaldinu um langt árabil þannig að ég á ekki von á því að rekstraráætlun, hvernig sem hún er reiknuð, sýni hagnað, alls ekki.

Það sem okkur leikur forvitni á að vita er hversu þungur baggi á sveitarfélaginu rekstrarkostnaður borgarlínu verður. Það er ekki nóg að reikna bara borgarlínuna inn í dæmið heldur verður einnig að taka almenningsvagnana með í reikninginn en þeir verða áfram starfandi. Verkefni strætisvagna sem nú eru í umferð, eftir að borgarlína verður að veruleika, verður áfram að flytja fólk úr hverfum að borgarlínunni. Fólk þarf að taka sinn vagn í sínu hverfi, aka með honum einhvern spöl að næstu línu borgarlínunnar, og þaðan tekur viðkomandi draumavagninn á áfangastað, eða nálægt sínum áfangastað og tekur svo annan vagn þaðan, venjulegan strætó, að sínum vinnustað ef svo ber undir. Það er ekki eins og öll vandamál leysist og fólk komist með einföldum hætti á milli staða. Það er alls ekki svo. Áfram mun fólk þurfa að berjast áfram í öllum veðrum á milli stoppustöðva eða áfangastaða, bæði borgarlínu og almenningsvagna. Þarna er verið að byggja annað kerfi ofan á þar sem nú er.

Ég var ekki búinn með ræðu hv. þm. Sigríðar Á. Andersen. Ég var kominn að forsendubrestinum. Hún nefndi það í ræðu sinni að henni fyndist vera lítið um hann fjallað í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, þegar tekið er mið af efnahagsástandinu sem hefur verið vegna veirufaraldursins. Hún segir að hún sakni þess að ekki sé meira fjallað um þann forsendubrest sem verið hefur í fjármögnuninni. Hún segir, eftir að hún er búin að segja að menn þurfi að horfast í augu við þann raunveruleika, að það skipti mjög miklu máli að það takmarkaða fé sem er til staðar komi til Reykjavíkur — hún er auðvitað þingmaður Reykvíkinga. Hún leggur áherslu á það að til að bæta úr því ófremdarástandi sem hér er í samgöngumálum eigi að veita þessu fé í skynsamlegan farveg og hagkvæman. Hv. þingmaður er að tala um að þessu fé sem verið er að veita í borgarlínu eigi að sjálfsögðu að veita í hagkvæmar og skynsamlegar fjárfestingar í samgöngumálum Reykvíkinga.

Segjum að þetta fé yrði veitt í að fjölga akreinum, gera fleiri mislæg gatnamót, sem kostar bara brot af því sem borgarlínan kostar, þá myndi rými að sjálfsögðu aukast og ekki bara fyrir fjölskyldubílinn heldur einnig fyrir þá almenningsvagna sem nú þegar eru stopp í samgöngukerfi borgarinnar. Maður nær ekki alveg upp í það að frekar eigi að fara þá leið að þrengja enn frekar að fjölskyldubílnum til að koma borgarlínu á koppinn.