150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég vona að þér hafið heyrt síðustu tvær ræður mínar þar sem ég fjallaði um bréf sem við erum með undir höndum úr tilteknu ráðuneyti. Það bréf er sent frá Reykjavíkurborg, sent af embætti borgarlögmanns, til ráðherra þar sem borgin er að útskýra fyrir samgönguráðherra hvaða lög ríkið og við á Alþingi eigum að setja til að borgin geti aukið skattpíningu á borgurum Reykjavíkur. Það er ekki látið nægja að biðja um slíka breytingu heldur sendir borgin ríkinu drög að nýjum lögum með mismunandi greinum og meira að segja greinargerð. Ríkið fær þó að velja á milli tveggja leiða en borgin er í báðum tilvikum búin að skrifa greinarnar og greinargerðina.

Hæstv. forseti. Þetta er nú eiginlega mál fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og ég velti fyrir mér hvort hæstv. forseti geti komið því til formanns nefndarinnar að þetta mál verði tekið fyrir. Hér er borgin í raun farin að stýra ríkinu. Það er það sem er einkennandi fyrir þetta mál að borgin stýrir aðkomu ríkisvaldsins að því alla leið, alveg frá því að leggja línurnar um fjármögnun, og ríkið fer að skrapa saman með því að selja Keldnalandið og hugsanlega Íslandsbanka og leggja nýjar álögur á borgarana, að lagasetningu til að borgin geti einnig lagt nýjar álögur á borgarana til þess að ráðast í borgarlínu.

Ég var búinn að rekja hér fyrri tillöguna í stuttu máli og nefna greinargerðina sem henni fylgdi og var byrjaður að fara yfir tillögu tvö frá borginni til ríkisins, eða tilmæli, um hvaða lög ætti að setja. Þar leggur borgin til að gerð verði breyting á lögum um gatnagerðargjald og þar segir:

„Lagt er til að bætt verði við ákvæði í 5. mgr. 3. gr. laganna sem fjallar um gjaldstofn gatnagerðargjalds. Ákvæðið verði svohljóðandi: Gatnagerðargjald skal innheimt þegar staðfest deiliskipulag heimilar byggingu almenningssamgangna sem leiðir til verðmætaaukningar fasteignar og/eða til þess að heimilaðar verða auknar byggingarheimildir á hlutaðeigandi lóð.“

Hér ætlar borgin greinilega, þegar ríkið verður búið að setja þessi lög, að leyfa sér að túlka hvaða deiliskipulag sem heimilar byggingu almenningssamgangna leiði til verðmætaaukningar fasteignar og svo á að nota það sem tilefni til að rukka þá sem eru að koma sér upp íbúð eða atvinnuhúsnæði. Við getum rétt ímyndað okkur hvort borgin kæmist ekki alltaf að þeirri niðurstöðu að lóð sem væri einhvers staðar í grennd við borgarlínu yrði verðmætari fyrir vikið og þar af leiðandi réttlætanlegt að leggja aukið gjald á þá sem þar byggja.

Þessar tvær leiðir liggja hér fyrir og þetta bréf sem sýnir, svo að ekki verður um villst, hverjir hafa tögl og hagldir í þessu máli. Það er Reykjavíkurborg, hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu trítla á eftir hafandi sætt sig við lausnargjaldið og ríkisstjórnin eltir þar á eftir. Hvað eftir annað platar borgin ráðherra samgöngumála til að undirrita nýja og nýja samninga og svo útskýrir borgarstjórinn í fréttum daginn eftir eða sama dag hvað ráðherrann hafi verið að skrifa undir.

Herra forseti. Ég á nánast alveg eftir að ræða Sundabraut og bið um að verða settur á mælendaskrá.