150. löggjafarþing — 122. fundur,  23. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[00:04]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Mér var falið það verkefni að rannsaka það og gera leit að rekstraráætlun borgarlínu. Ég er búinn að vera, þess á milli sem ég flyt ræður, að leita að henni og ég fór hér á heimasíðu borgarlínunnar, borgaralinan.is. Þar stendur: Borgarlínan beinustu leið til framtíðar. Þarna eru fréttir. Og hvað er borgarlínan? Borgarlína er hraðvagnakerfi á hjólum sem ekur á sérrými með forgangi á gatnamótum. Þetta er svolítið athyglisvert. Öll önnur umferð á sem sagt að bíða á meðan þessir vagnar, hraðvagnar, fara yfir gatnamót. Ekki mun það auka umferðarflæði á meðan þeir spana þar í gegn. Tíðni ferða verður mikil, þeir koma oft. Stöðvar verða yfirbyggðar, aðlaðandi og þægilegar með góðu aðgengi beint inn í vagnana. Þetta er fallegt. Þetta lítur fallega út.

Af hverju borgarlína? Ég ætla að renna yfir það. Ég er að leita að rekstraráætluninni. Sérrými borgarlínu, uppbygging sérrýma borgarlínu og strætós. Hversu lengi þarf að bíða? Samgöngu- og þróunarás. Ekkert þarna á forsíðunni um rekstraráætlun. Þá er eitthvað sem heitir Verkefnastofa. Ég fer í það. Þar er ekkert um rekstur. Þarna er mynd af þeim sem sjá um þetta, afskaplega fallegt, prúðbúið fólk og stýrihópur eigenda og mikið og stórt skipurit yfir hvernig þetta á að vinnast. Fullt af nöfnum og teymum og verkefnastjórnin í algleymingi.

Ég fer hérna í spurningar. Hérna er það: Útgefið efni. Herra forseti. Þar hlýtur þetta að vera: Drög að matsáætlun, skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu — ég les hér upp úr vefsíðu borgarlínu — svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins, uppbygging samgangna á höfuðborgarsvæðinu, samgöngusáttmáli ríkisins. Ég er búinn að fara yfir hann þannig að ekkert er þar að finna neitt um reksturinn. Skýrsla COWI um borgarlínu. Það er ekkert þarna. Ég verð nú að játa það samt að ég er ekki búinn að fara inn á alla afkima heimasíðunnar en rekstraráætlun er ekki þarna að finna. Í fljótheitum, ef ég væri borgari sem vildi afla mér upplýsinga um borgarlínu, finn ég ekki neina rekstraráætlun á heimasíðu um borgarlínu. Við erum reyndar búin að spyrja að þessu lengi svo að ég geri ekki ráð fyrir að leitin verði auðveld, en ég mun að sjálfsögðu halda áfram að leita.

Ég tala hér fyrir hönd minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar, fyrir mig og hv. þm. Bergþór Ólason sem skiluðum séráliti. Ein helsta ástæða þess að við vorum ekki með á meirihlutaálitinu, þær voru nokkrar, var sú að við gátum ekki fellt okkur við það fjármagn sem stjórnvöld ætla að leggja í þetta verkefni á þeim forsendum að verkefnið væri illa skilgreint, lítt útfært og svo vantaði þarna ýmislegt, framkvæmdaáætlun og rekstraráætlun o.fl.

Ég ætlaði að lesa aðeins upp úr álitinu um helstu forsendur varðandi borgarlínu.

„Ekki hefur verið sýnt fram á að ekki sé unnt að ná þeim markmiðum sem að er stefnt með borgarlínu með hagkvæmari hætti …“

Þetta er nú mergurinn málsins, herra forseti. Er ekki hægt að gera þetta eitthvað ódýrar? Er ekki hægt að gera fleiri mislæg gatnamót, stækka stofnbrautir og fjölga akreinum þannig að strætisvagnar sem nú eru á ferðinni komist greiðar leiðar sinnar en nú er? Það gefur augaleið, það hlýtur að vera ódýrara, og þá verður önnur umferð greiðari í leiðinni. Þau komast leiðar sinnar líka, þau sem eru á fjölskyldubílnum. Þetta er helsta forsenda þess að við gátum ekki samþykkt meirihlutaálitið auk þess sem við tiltökum nokkur önnur atriði, m.a. útfærslu veggjalda sem við vorum ekki sáttir við.