150. löggjafarþing — 122. fundur,  23. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[00:10]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég hef verið að fara aðeins yfir athyglisverða greiningu Frosta Sigurjónssonar, fyrrverandi alþingismanns, um borgarlínu. Hann segir í grein sinni — og greinilegt að hann hefur lagt töluverða vinnu í það að greina þetta verkefni — með leyfi forseta:

„Það er rangt að borgarlína „stórauki flutningsgetu samgöngukerfisins.“

Það er sáralítil eftirspurn eftir þeirri tegund flutningsgetu sem borgarlínan býður. Það er lítið gagn í því að hálftómir borgarlínuvagnar hringli um leiðakerfið. Hins vegar er öruggt að sú tegund flutningsgetu sem nú er mjög eftirsótt mun skerðast verulega þegar akreinar sem nú nýtast fólksbílum verða helgaðar borgarlínu. Borgarlínan mun því auka umferðarteppu á álagstímum en ekki draga úr henni.“

Þetta er mjög athyglisvert og fleiri hafa bent á þetta. Þannig hefur prófessor í skipulagsfræði við Háskóla Íslands, Trausti Valsson, bent á þetta og þeir sem auk þess þekkja vel til í umferðarmálum. Það er því nokkuð ljóst að það verði þá að skerða umferðarmannvirki fyrir einkabifreiðina, fjölskyldubílinn, á kostnað borgarlínukerfisins. Það er að sjálfsögðu eitthvað sem okkur í Miðflokknum hugnast ekki vegna þess að þarna er verið að stýra því með hvaða hætti almenningur á að ferðast um borgina. Það er verið að ýta fólki út í þetta almenningssamgöngukerfi þó að borgaryfirvöld hafi sagt sem svo að þetta sé valkvætt. Það er bara alveg augljóst, herra forseti, að það mun ekki standast.

Danskt ráðgjafarfyrirtæki sem heitir COWI hefur skoðað þetta verkefni og sagt um borgarlínuna að staðfest sé sú skoðun að eftirspurn eftir borgarlínu muni ekki verða nægileg. Því þurfi að grípa til sérstakra aðgerða til að efla eftirspurnina. Þá spyr maður: Hvers vegna er verið að fara af stað þegar bæði sérfræðingar hér heima og þekkt ráðgjafarfyrirtæki erlendis frá eru öll á sömu línunni um það að ekki verði nægileg eftirspurn eftir þessari borgarlínu? Við sjáum það í dag að eftirspurnin eftir strætó, þ.e. að taka strætó, er allt of lítil. Hún er ekki nema u.þ.b. 4% og reynt hefur verið að hækka þá tölu en gengið mjög brösuglega, með miklum tilkostnaði. Og svo höfum við þessi ráðgjafarfyrirtæki sérfræðinga sem segja að eftirspurnin verði ekki nægileg.

Engu að síður er haldið áfram með þetta verkefni þrátt fyrir það sem menn sjá að verði vandamál. Vandamálið verður það bara að allt of fáir nýta þetta samgöngumannvirki, þetta kerfi. Og það þýðir náttúrlega að tap verður af rekstrinum endalaust. Og hver á að greiða það? Verður það ekki bara þannig á endanum að ríkissjóður þarf að koma inn í það verkefni að greiða það? Sveitarfélögin hafa ekki nokkra burði til að standa í því að greiða með þessu og hvað þá yfir höfuð að leggjast í slíka framkvæmd í ljósi stöðu sveitarfélaganna, stöðu Reykjavíkurborgar, m.a. vegna veirufaraldursins. Það verður að segjast eins og er, forseti, að það er mjög sérstakt að menn skuli leggja í þessa vegferð vitandi það eftir að hafa fengið ráðgjafarfyrirtæki, sérfræðiálit o.s.frv. um að ekki verði næg eftirspurn eftir verkefninu. Verkefnið er allt of dýrt. Ekki liggur fyrir rekstraráætlun og þá spyr maður: Hvers vegna er verið að standa í þessu? Hvaða sjónarmið liggja þarna að baki? Er þetta eitthvert gæluverkefni stjórnarmeirihlutans hjá Reykjavíkurborg? Hvað liggur þarna að baki?

Herra forseti. Ég sé að tími minn er liðinn, mun koma nánar inn á þetta í næstu ræðu ef forseti vildi vinsamlega setja mig aftur á mælendaskrá.