150. löggjafarþing — 122. fundur,  23. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[00:15]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Það er ekki auðvelt að teikna nýjungar eins og almenningssamgöngutæki af þessari gerð inn í borgarskipulag sem er eldra og borgaruppbyggingu sem er eldri. Ég hef stundum tekið það til samanburðar, ég gerði það í upphafi þessarar umræðu og það er í lagi að ítreka það, að á sínum tíma, líklega í kringum 1910–1930, byggðist Manhattan í New York að mestu. Þá voru aðalsamgöngutækin þar hestvagnar og greið leið fyrir þá í báðar áttir á öllum þeim breiðstrætum sem þar eru. En síðan jókst umferðin og ekki var hægt að hafa þetta svona lengur. Þar var farin mjög einföld leið. Götunum var flestum breytt í einstefnuakstursgötur, þ.e. ein er uppeftir og önnur niðureftir. Þetta er hægt að gera í Reykjavík og á það hef ég bent og þetta er ódýrasta og fljótlegasta leiðin til að leysa þennan austur-vestur samgönguhnút í Reykjavík. Ég ætla að segja það enn einu sinni: Að gera Miklubraut – Hringbraut að einstefnuakstursgötu til austurs frá Njarðargötu að Elliðaám.

Herra forseti. Þarna yrðu aldrei minna en fjórar og alveg upp í sex akreinar, allar í sömu átt. Það myndi þýða að strætisvagn gæti auðveldlega tekið eina til tvær línur, alla vega eina, eins og hann gerir reyndar í dag, en hægt væri að gera það með miklu markvissari hætti með þessu móti. Á sama hátt væri hægt að gera Sæbrautina að einstefnuakstursgötu til vesturs frá sömu staðsetningu, þ.e. frá Ártúnsbrekku og niður í bæ. Samkvæmt fyrstu tillögum um fyrsta áfanga á borgarlínan að fara niður Hverfisgötu, eins og ég hef sagt áður, og Lækjargötu og Skothúsveginn. Fyrst þetta er hægt, herra forseti, þá er okkur ekkert að vanbúnaði að gera Sæbraut að akstursgötu alveg niður að Hörpu til vesturs. Ekkert að vanbúnaði. Þetta myndi þýða að þeir sem að morgni til koma úr Breiðholti, Árbæ og Grafarvogi hefðu þá fjórar upp í sex akreinar til að fara til vesturs að morgni og fjórar til sex akreinar til að fara í austur að kvöldi og þar kvíslast náttúrlega þessi umferð, eins og forseti veit, upp Breiðholtsbraut áfram upp Ártúnsbrekku í Árbæ og til vinstri upp í Grafarvog, beint áfram upp í Grafarholt. Þetta, herra forseti, væri einfaldasta lausnin á því að laga þennan umferðarhnút í Reykjavík. Það sem er kannski heillandi við þessa hugmynd er að hægt er að gera tilraun með þetta í tíu eða 12 mánuði, sex mánuði þess vegna, og það myndi ekki kosta mjög mikið. Það þarf að snúa nokkrum skiltum og auðvitað þyrfti, eins og er fyrsta ráðlegging allra sérfræðinga, og borgarstjóri hefur ekki gert mikið með það, að koma upp alvöruljósastýringu í Reykjavík. Það eitt og sér myndi auka afkastagetu gatnakerfisins í Reykjavík um 15%, þar um bil.

Menn hafa kannski tekið eftir því um daginn, þegar Covid-veiran var í hámarki hér, og menn fóru lítið um, að þá minnkaði umferð í Reykjavík um 15%. Það var allt annað líf að keyra hér um bæinn, eins og forseti veit og þá segir maður: Ef hægt er að ná sama árangri og þá varðandi umferð með því að stýra ljósum betur, hvers vegna gera menn það þá ekki? Einföld leið líka, kostar ekki mikið og myndi skila sér margfalt.

Ég sé, forseti, að því miður er enn einu sinni þannig komið að ég er rétt að fara af stað að ræða frekar það sem ég ætlaði að fara yfir hér, en þá er tími minn búinn. Ég bið hæstv. forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.