150. löggjafarþing — 122. fundur,  23. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[00:20]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég var búinn að biðja um orðið til að ræða aðeins um Sundabraut en steingleymdi að ég átti eftir að klára að fara yfir verkefnin sem til stendur að ráðast í samhliða þessari borgarlínuframkvæmd. Eins og ég hef rakið er borgarlína nokkurs konar lausnargjald til að ríkið fái að setja peninga í aðrar samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu eftir framkvæmdastopp í áratug. Ég var búinn að nefna umferðarstýringuna, þ.e. umferðarljósakerfið, og útskýra að það gengi náttúrlega ekki upp ef menn ætluðu á sama tíma í borgarlínuna sem hefur forgang á öllum umferðarljósum, ruglar þar af leiðandi allt kerfið og kemur í veg fyrir svokallað snjallskipulag á umferðarljósum. Svo er það Sæbrautarstokkur. Ég benti á það að jafnvel hann tengist — hverju? Jú, fyrsta áfanga borgarlínu. Og Miklabraut í stokk er liður í að tengja Landspítala við borgarlínu. Arnarnesveginn hafði ég nefnt. Svo kemur bara borgarlína, Hamraborg–Lindir er einn af áföngum hennar. Gatnamót við Bústaðaveg, ég held að ég hafi verið kominn þangað í upptalningunni, herra forseti. Það er mjög áhugavert dæmi því að jafnvel í þessari helstu framkvæmd til samgöngubóta í Reykjavík, sem hluta af samgöngusáttmálanum, virðist einhver misskilningur vera í gangi af hálfu hæstv. samgönguráðherra. Borgin hefur ekki uppi nein áform um að ráðast í mislæg gatnamót með þeim hætti sem ríkið hafði séð fyrir sér. Hæstv. fjármálaráðherra heldur því reyndar fram að hann sé þeirrar skoðunar að þarna eigi að koma mislæg gatnamót. En það er spurning hvort búið sé að útskýra þetta fyrir borginni.

Svo er það aftur Miklabraut og stokkurinn, í þessu tilviki frá Snorrabraut yfir Kringlumýrarbraut, Reykjanesbraut, Álftanesvegur–Lækjargata. Þetta er í Hafnarfirði. Sveitarfélögin í kringum Reykjavík fá þannig eitt verkefni hvert gegn því að fallast á borgarlínuævintýrið. Hafnarfjarðarvegurinn í Garðabæ í stokk. Það er moldvörpulífið sem hv. þm. Sigríður Á. Andersen talaði um. Loks borgarlína um Keldur og Blikastaðaland. Aftur er það borgarlína.

Þessi meginverkefni samgöngusáttmálans eru ýmist augljósar samgönguúrbætur sem hefði átt að vera búið að ráðast í fyrir löngu eða þau tengjast borgarlínu á einn eða annan hátt. Það er þá enn ein áminningin um til hvers þetta allt saman er gert og hverjir ráða ferðinni, eins og kom svo glögglega fram í bréfinu sem ég rakti hér áðan, sem borgin sendi hæstv. samgönguráðherra þar sem hún útskýrði hvernig ráðherrann ætti að breyta lögum til að borgin gæti innheimt meiri skatta og gjöld.

En það eru til miklu betri leiðir, herra forseti, og ein af þeim mikilvægustu er lausn sem hefur setið á hakanum áratugum saman. Gestur Ólafsson skipulagsfræðingur benti á að þessi leið hefði átt að komast til framkvæmda fyrir 40 árum. Það er Sundabrautin, herra forseti, sem átti að verða efni ræðu minnar hefði ég ekki gleymt í fyrri ræðum að fara yfir þessi atriði úr samgöngusáttmálanum. Það var ágætt að ná því áður en ég fer að fjalla um Sundabrautina því að það setur forgangsröðunina í ágætissamhengi. Sundabrautin kemur þá fyrir í næstu ræðu. Ég bið því hæstv. forseta að setja mig á mælendaskrá.