150. löggjafarþing — 122. fundur,  23. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[00:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Mig langar að nefna nokkur orð úr ræðu hv. þm. Sigríðar Á. Andersen sem rammaði ágætlega inn svo margt af því sem hefur verið gagnrýnt varðandi borgarlínu eða áform um hana. Hv. þingmaður talar eðlilega út frá stöðu sinni sem 1. þm. Reykvíkinga suður. Það eru ákveðin atriði í máli hennar sem skipta miklu máli og ekki síst í þeirri gagnrýni sem við höfum haft uppi um málið. Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp þennan kafla:

„Það liggur fyrir og kemur fram í þessum sáttmála“ — sáttmálanum um framkvæmdina, samgöngusáttmálanum — „að stefnt er að því að tvöfalda hlutdeild almenningssamgangna úr 4% í 8%. Þetta er miðað við 2011, þá var miðað við 4%. En það er enn þann dag í dag 4%, hlutdeild almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu eða á Íslandi er 4% eða í þeim almenningssamgöngum sem hér um ræðir. Það er borin von að hún verði komin upp í 8%. Og þó svo að við næðum almenningssamgöngum upp í 8% er fráleitt að ætla að útdeila af almannafé 50 milljörðum til almenningssamgangna þegar þátttaka almennings í þeim samgöngum er ekki meiri en þessi.“

Ég vek athygli á því að þó svo að það næðist að tvöfalda notkun á almenningssamgöngum frá því sem nú er þá væri þingmaðurinn þessarar skoðunar. Og áfram heldur hv. þingmaður, með leyfi forseta:

„Ég hef það fyrir víst að fyrir nokkrum árum þegar borgarfulltrúar voru að kynna sér þessi mál, í árdaga þessara hugmynda, og fóru til sérfræðinga í Þýskalandi, ég held í Freiburg, þar sem er fræg borgarlína, þar sem menn kynntu þessar hugmyndir og voru að leita ráða, voru þeir spurðir: Hvað eru margir sem nota almenningssamgöngur? Það voru 2%–3% þá. Menn göptu og skilaboðin til Íslendinga voru þau að reyna ekki að hugleiða fyrirbæri eins og borgarlínu, sama hvernig það væri útfært, reyna ekki að hugleiða slíkt fyrirbæri fyrr en búið væri að ná almenningssamgöngum almennt upp í 40%. Allt annað er draumsýn, er alger skortur á raunveruleikatengingu.

Þetta þurfum við Reykvíkingar nú að una við, að ríkið hafi samið við Reykjavíkurborg um áframhaldandi framkvæmdastopp í Reykjavík með tilheyrandi skerðingu á lífsgæðum Reykvíkinga, með tilheyrandi öryggisbrestum í umferðinni.“

Þetta eru býsna stór orð, mikilvæg orð sem ramma ágætlega inn þá útópíu sem notkun á þessari höfuðborgarlínu eða borgarlínu, eða hvað þetta á að kallast, kemur til með að vera. Varnaðarorðin koma ekki eingöngu innan lands, þau koma líka erlendis frá miðað við sögu þingmannsins sem er í þingskjölum.

Það er rétt að það er látið líta svo út að framkvæmdum í nágrannasveitarfélögunum sé flýtt en áætlanir voru uppi um þessar framkvæmdir og í raun búið að samþykkja fjármuni til að flýta þeim. Það er einhver smáblekking í þessu í það minnsta.

Áhættan af borgarlínunni eða rekstri hennar virðist samt áfram vera hjá sveitarfélögunum og ríkinu, miðað við það sem fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans. Þar segir að ekki sé ljóst hver kostnaðarskiptingin verði og hvatt til þess að lögin séu skýr þannig að það sé á hreinu þegar kemur að skiptingu milli ríkis og sveitarfélaga um samgönguframkvæmdir í þéttbýli. En það að ætla sér að ná almenningssamgöngum upp með þeirri aðferð sem notuð hefur verið á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. að þrengja nógu mikið að einkabílnum þannig að fólk nenni ekki að nota hann og nýti sér í staðinn almenningssamgöngur, er vitanlega algjörlega galin leið því að á sama tíma fjölgar þeim sem nota einkabílinn mjög hratt. Þetta nær ekki einu sinni að halda í við það, þessi notkun. Það er algjör útópía að ætla að úthýsa einkabílnum og þó að það sé greinilega markmið meiri hlutans í borginni er það eitthvað sem mun ekki eiga sér stað. Það er sorglegt að ríkisstjórnarflokkarnir ætli sér að taka þátt í þeirri aðför og virðast þeir vera á einu máli, nema hv. þm. Sigríður Á. Andersen, um að þetta sé besta leiðin, að ausa fjármunum í borgarlínu.