150. löggjafarþing — 122. fundur,  23. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[00:36]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Í þessari ræðu ætla ég aðeins að fara yfir atriði sem snúa að því hvernig mál þróuðust með þeim hætti í sögulegu samhengi að ríkið fann sig í þeirri stöðu að vera hér um bil tilneytt að losa um framkvæmdastopp á höfuðborgarsvæðinu með greiðslu hálfgerðs lausnargjalds. Í því felst að borgin hleypi af stað framkvæmdum á stofnbrautakerfinu, breikkun gatna, mögulegum mislægum gatnamótum og flæðisbætandi aðgerðum. Slíkar aðgerðir höfðu verið tafðar árum saman og meira að segja gerður samningur, sem oft hefur verið rætt um í umræðunni, um svokallað framkvæmdastopp. Í hartnær tíu ár var gert samkomulag um að engar stórframkvæmdir yrðu á höfuðborgarsvæðinu gegn því að milljarður á ári yrði lagður til með rekstri Strætó.

Í þessu samhengi vil ég nefna fordæmið sem sett er með þessum hætti. Reglulega hefur það gerst í samskiptum sveitarfélaga og Vegagerðarinnar að sveitarfélögin hafa lagt til aðra leið en Vegagerðin hefur viljað fara. Vegagerðin hefur haldið því til streitu, alltaf að því er ég best veit, að verði dýrari vegkostur valinn en sá sem Vegagerðin leggur til sem besta kost verði, á grundvelli vegalaga, skuli gerð krafa um að sveitarfélagið beri þann viðbótarkostnað. Í raunveruleikanum endar þetta auðvitað með því að sveitarfélög fallast á veglínuna sem Vegagerðin telur besta út frá fjárhagslegum mælikvörðum, út frá umferðaröryggi og út frá flæði. Þannig hefur þetta unnist áfram árum og áratugum saman.

Nú erum við í tveimur tilvikum í þeirri stöðu að í samskiptum Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar er komið eitthvert ógnarvald. Skipulagsvaldi Reykjavíkurborgar er beitt með þeim hætti að stjórnvöld, samgönguyfirvöld hverju sinni, virðast ekki eiga neinar lausnir til að koma skynsamlegum málum áfram. Þetta á við varðandi lagningu Sundabrautar sem hefur verið þvælst fyrir með öllum tiltækum ráðum, sett byggð þar sem hagkvæmasta vegtenging var áætluð og fleira slíkt. Allt ber þetta að sama brunni. Það á að stoppa verkefnið með öllum tiltækum ráðum.

Hitt málið sem samgönguyfirvöld samþykkja að lokum, að því er virðist, — en um það snýst deilan hér í þingsal — er að borga eins konar lausnargjald fyrir að losna úr framkvæmdastoppinu sem er búið að valda þeim miklu umferðartöfum sem eru að gera íbúa höfuðborgarsvæðisins og gesti algerlega brjálaða á köflum, eðlilega, því að þær eru með þeim hætti að óforsvaranlegt er. Þær eru miklu meiri en umferðaræðarnar gefa tilefni til að ætla miðað við fjölda bíla því að í ofanálag virðist ljósastýringu og öðrum tafaaðgerðum vera beitt, þrengingum gatna og þar fram eftir götunum, til að gera ástandið eins slæmt og mögulegt er.

Í þessu samhengi vil ég benda sérstaklega á að við á Alþingi komum okkur ekki í þá stöðu, og komum ríkissjóði ekki þá stöðu, að sveitarfélög geti tekið mikilvæg samgöngumál eins og uppbyggingu stofnbrautakerfis höfuðborgarsvæðisins í gíslingu þannig að Vegagerðin, samgönguráðuneytið eða samgönguráðherra hverju sinni finni sig nauðbeygð til að fara í framkvæmdir sem aldrei hefðu verið samþykktar að öðrum kosti. Ég leyfi mér að fullyrða að 50 milljarða framkvæmdir vegna borgarlínu hefðu aldrei komist á það stig sem raunin er núna nema af því að stjórnvöld töldu það einu leiðina (Forseti hringir.) til að losna úr þeirri gíslingu sem uppbygging stofnbrautakerfisins hafði verið haldið í (Forseti hringir.) kjörtímabilum saman.