150. löggjafarþing — 122. fundur,  23. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[00:41]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Í þessari stuttu yfirferð um samgönguáætlun hefur borgarlínu óneitanlega oft borið á góma. Fjármögnun hennar er að miklu leyti undir ríkisvaldinu komin enda gera flestir sér grein fyrir því að það að finna pening hjá Reykjavíkurborg er eins og að fara í geitarhús að leita ullar. En þar sem ég nefni geitur er rétt að taka fram að samkvæmt Eddukvæðum ferðaðist þrumuguðinn Þór á vagni sem dreginn var af tveimur höfrum, þeim Tanngrisni og Tanngnjósti. Á ferðum sínum hafði Þór oft hafra sína til kvöldverðar, safnaði svo beinum þeirra saman eftir matinn og vígði þá til lífs á ný með hamri sínum. Vagninum ók hann um himininn og fylgdu honum bæði þrumur og eldingar. En akstur geitavagna er auðvitað óraunhæfur. Ekki einungis er það fáránleg hugmynd heldur yrði slíkt allt of dýrt og illframkvæmanlegt. En það er borgarlínan líka. Hvort tveggja er þó framkvæmanlegt, en um það má deila.

Fórnarkostnaðurinn er hins vegar gríðarlegur, hann er okkar stjórnmálamannanna. Að fara vel með almannafé er okkar stjórnmálamannanna. Það er skylda okkar að fara vel með almannafé. Borgarlínan er bruðl. Hún mun kosta afkomendur okkar mikið og verða mikil byrði á skattgreiðendum og þá á íbúum höfuðborgarsvæðisins sérstaklega.

Enginn veit hve langan tíma það tekur að búa til fyrirbærið borgarlínu. Hitt er öruggt að tilvera þeirra sem búa nálægt framkvæmdasvæðum mun verða ömurleg. Sennilega munu hlutar borgarinnar lokast eða verða erfiðir yfirferðar. Hvernig ætli muni ganga að komast á Landspítalann við Hringbraut? Það er nefnilega góð spurning. Það eru hugmyndir um að leggja Miklubraut í stokk. Við slíka framkvæmd þarf að grafa í gegnum alls konar lagnir sem þar eru. Enginn veit hvað leynist í þeim lögnum en sennilega er þar mikið af tegundinni rattus rattus eins og segir á latínu, eða rottum. Sú stétt sem vinnur við meindýraeyðingu mun örugglega hafa nóg fyrir stafni. Það er verst að íbúar Hlíðanna munu þurfa að búa sig undir árásir nagdýranna.

Hæstv. forseti. Við megum ekki ana að hlutunum. Það er Alþingi sem tekur ábyrgð á þessari framkvæmd, ekki borgarstjóri Reykjavíkur þó að hugmyndin sé frá honum komin. Það gengur ekki að Alþingi hlýði og framkvæmi kosningaloforð Samfylkingarinnar í Reykjavík möglunarlaust.

Það gera sér allir grein fyrir því að lóðir nálægt almenningssamgöngum eru dýrar, en það er forsenda fyrir borgarlínunni að geta selt dýrar lóðir nálægt henni. Skortstefna höfuðborgarsvæðisins á lóðum mun því valda því að verð á húsnæði mun hækka enn meira. Börnin okkar munu þurfa að sætta sig við litlar íbúðir á okurverði. Hagsmunir okkar eru einfaldlega of miklir. Hugsum okkar gang. Föllum frá þessari dellu. Ég vil segja, eins og fleiri þingmenn úr mínum röðum hafa sagt, og get endurtekið það: Sláum þessa borgarlínuhugmynd út af borðinu eins og hún hefur verið lögð fram hér og endurskoðum málið.

Það eru allir sammála um að fara þarf í myndarlegar samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu. Það er enginn ósammála því. En borgarlínumálið, eins og það er lagt fram, er ekki tækt.

Hæstv. forseti. Ég óska þess að verða settur aftur á mælendaskrá.