150. löggjafarþing — 122. fundur,  23. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[01:02]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Við höfum rætt nokkuð hér undanfarandi hvað hægt sé að gera með 50 milljarða. Hvað fæst fyrir þessa tölu? Það hefur m.a. verið bent á að þetta er u.þ.b. 60% af byggingarkostnaði fyrirhugaðs Landspítala sem er verið að reisa á röngum stað. Þetta myndi líka borga rekstur Ríkisútvarpsins, þ.e. þann hluta sem ríkið leggur til, í u.þ.b. tíu, ellefu ár. Fyrir brot af þessari upphæð væri hægt að rafvæða Sundahöfn þannig að þar gætu stór skip, stór skemmtiferðaskip líka, legið við bryggju og fengið rafmagn úr landi og þyrftu ekki að ausa svörtum mekki yfir næsta nágrenni sitt inn við Sund.

Herra forseti. Ég held að það sé algerlega nauðsynlegt fyrir okkur nú á þessum tímum að hugleiða það hvernig við ætlum að forgangsraða peningum. Það er alveg víst að þegar við komum hér saman aftur í október í haust og förum að sýsla við fjárlög verður öll sú vinna, frá því núna og fram að október, óskaplega erfið vegna þess að það þarf að taka á fyrsta þættinum í því að fara að byggja aftur upp fjárhag landsins, fjárhag ríkissjóðs. Við þær aðstæður er náttúrlega ótrúlega bíræfið og ótrúlega óábyrgt að ætla sér að láta lausa úr ríkissjóði 50 milljarða kr. í verkefni sem enginn veit í raun hvernig á að virka og hvernig á að fúnkera.

Það er líka annað, herra forseti, sem ég hef vakið athygli á áður en það er að þegar þessar vagnar, sem manni skilst að séu ansi stórir og miklir um sig, nálgast miðborgina munu þeir aka hér um húsagötur, um íbúðargötur. Það er í sjálfu sér mjög alvarlegt mál. En það er annað sem er alvarlegt í þessari stöðu. Það er að vegna þess að við erum einmitt að byggja sjúkrahús á röngum stað er búið að þrengja svo að Hringbrautinni þar í grennd að það er ekki fyrirsjáanlegt annað en að Hringbrautin á þessum slóðum verði áfram bara tvær akreinar í hvora átt. Ef menn ætla að taka hluta af þessu undir borgarlínu, þ.e. aðra akreinina af tveimur, mun bílaröðin sem núna er óþolandi strax upp úr hálffjögur til austurs verða martröð líkust.

Það er svo margt í þessu máli sem ekki bara orkar tvímælis heldur er með þeim hætti að ef menn hugsa sig um örskamma stund þá sér hver maður, sem hugsar á annað borð aðeins fram í tímann, að þetta er feigðarflan, herra forseti. Það er feigðarflan að gera þetta með þessum hætti. Það er eiginlega ekkert sem okkur Miðflokksmönnum og -konum er verr við en að þurfa að koma aftur eftir einhvern tíma og segja: Við bentum reyndar á þetta strax í byrjun. Okkur þykir það ekkert sérlega skemmtilegt, herra forseti, en það hefur gerst aftur og aftur. Það er hægt að lesa upp þó nokkurn lista af málum þar sem svo er. Ég veit ekki af hverju menn skirrast við. Menn vilja ekki hlusta. Það er ekkert nýtt í þessum sal, meira að segja meðan farsóttin gekk yfir vildi ríkisstjórnarmeirihlutinn ekki hlusta á góð ráð þó að þau gerðu þau að sínum eftir einhvern tíma. (Forseti hringir.) En ég sé að nú er tíma mínum lokið, herra forseti, að sinni og bið hæstv. forseta að skrá mig aftur á mælendaskrá.