150. löggjafarþing — 122. fundur,  23. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[01:24]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Virðulegur forseti. Samgöngumál og umferðin í Reykjavík eru í mjög alvarlegu horfi. Þetta þekkja allir borgarbúar. Þeir sitja fastir í umferðarteppu og þetta rýrir lífskjör, skapar hættu, eykur mengun og hefur slæm áhrif á loftslagið. Þetta er meðal annars afleiðing af því framkvæmdastoppi sem hér hefur staðið yfir undanfarin ár, allt of lengi, samfara því tilraunaverkefni sem hefur verið varðandi almenningssamgöngur, að reyna að auka notkun fólks á strætó með milljarðsstuðningi á ári líklega síðustu níu eða tíu ár án þess að það hafi borið umtalsverðan árangur.

Það blasa við brýn og nauðsynleg verkefni til að bæta úr umferðarmálum í höfuðborginni. Þetta eru mjög brýn verkefni og þau eru því marki brennd að þau eru nauðsynleg vegna þess að þau eru til þess fallin að gera umferðina greiðari, auka öryggi, draga úr mengun og sóun. Það er alveg nauðsynlegt að Miklabrautin verði hindrunarlaus, svo að ég nefni það fyrst. Það er alveg nauðsynlegt að ráðist verði í Sundabraut og ég minni á að það var lykilástæða fyrir fólkið á Kjalarnesi þegar það samþykkti samruna við Reykjavík í eitt sveitarfélag. Þannig stendur á að fjárhagur borgarinnar undir stjórn núverandi meiri hluta, og að sjálfsögðu líka vegna áhrifa veirunnar, er afar bágur. Í umsögn Reykjavíkurborgar við frumvörp til laga til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru kemur fram, með leyfi forseta:

„Í aðgerðapakka 2 eða næsta aðgerðapakka vantar nauðsynlega að gera greiningar á fjármálum sveitarfélaga og koma með raunhæfar aðgerðir til að tryggja að þau geti staðið undir lögbundnum verkefnum sínum gagnvart íbúum og atvinnulífi.“

Áfram segir:

„Ef aðeins hefði verið um að ræða skammvinnan vanda, 3 til 6 mánaða niðursveiflu með skjótu bataferli, hefði mögulega dugað að ríkið styddi við lausn fjármögnunarvandans með lánveitingum á hagkvæmum kjörum. Vandinn snýst hins vegar ekki aðeins um skammtíma fjármögnunarvanda heldur stefnir í algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára.“

Þetta er yfirlýsing í umsögn Reykjavíkurborgar sem liggur hér fyrir. Það stefnir í algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára, algerlega ósjálfbæran til margra ára.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Þessa ósjálfbærni er ekki hægt að leysa með hækkun leyfilegrar skattlagningar eða þjónustugjalda eða með stórfelldum niðurskurði í útgjöldum borgarinnar sem varða að langmestu leyti leik- og grunnskóla og velferðarþjónustu. Hefðbundnar aðferðir eru ekki í boði. Þá er ekki hægt að leysa þetta með stórfelldum lánveitingum þar sem veltufé frá rekstri mun ekki til margra ára framundan standa undir afborgunum. Þetta eru meginrökin fyrir því að ríkið komi með beinan óendurkræfan stuðning til sveitarfélaganna sem tryggir að þau geti staðið undir þjónustuskyldum sínum við íbúana og heimilin og staðið með atvinnulífinu a.m.k. að því marki sem Alþingi hefur samþykkt með lögum.“

Sveitarfélag sem er í svona stöðu sem það lýsir sjálft sem algerlega ósjálfbærum rekstri til margra ára er náttúrlega ekki í færum til að ráðast í eina eða neina borgarlínu. Þetta mál er fullkomlega óraunhæft (Gripið fram í: Nei, nei, nei.) og varla umræðuvert, leyfi ég mér að segja.

Ég bið um að verða settur aftur á mælendaskrá til að geta fjallað ítarlegar um þetta.