150. löggjafarþing — 122. fundur,  23. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[01:29]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég er að velta fyrir mér rekstraráætlun borgarlínu og hef verið að leita að henni. Mér var falið það verkefni fyrr í kvöld. Það er verðugt verkefni vegna þess að ekki er til svo smár rekstur á sviði einkafyrirtækja að ekki þurfi að gera rekstraráætlun. Í fyrri ræðu minni tók ég dæmi um lítinn verslunarrekstur, rekstur á sjoppu. Enginn fer í sjoppurekstur án þess að gera rekstraráætlun til að gera sér grein fyrir því hverjar tekjurnar og útgjöldin gætu verið. Við erum að fara í borgarlínu þar sem ekkert slíkt er uppi á borðinu. Mönnum dettur ekki í hug að reikna út hvað rekstur á því fyrirbæri muni kosta og hverjar tekjurnar gætu verið.

Öll hugmyndin í dag virðist ganga út á að afla fjár til að fara af stað með þessa hugmynd, með lævísum hætti, eins og Þórarinn Hjaltason orðar það svo skemmtilega í grein sinni í Kjarnanum, og áróðri til að ginna ríki og nágrannasveitarfélög til að taka þátt í verkefninu. Þau fallast á það að því er virðist til að losna úr þeirri herkví sem þau hafa verið að minnsta kosti áratug í, að því leyti að engar framkvæmdir hafa farið fram á stofnbrautum eða mislægum gatnamótum allan þann tíma með þeim afleiðingum að umferðin er stopp. Þau eru auðvitað guðs lifandi fegin ef þau þurfa lítið að leggja af mörkum til að fá þessar framkvæmdir á framkvæmdaáætlun með samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Þau skrifa því undir og ríkið borgar brúsann, frú forseti.

Á bls. 35 í skýrslu verkefnishópsins, sem ég vitnaði til í síðustu ræðu minni, er talað um gjöld til að standa straum af uppbyggingunni, með leyfi forseta:

„Verkefnishópurinn leggur jafnframt til að innheimt verði ný gjöld af umferð innan höfuðborgarsvæðisins, annaðhvort í formi veggjalda af tilteknum framkvæmdum, svo sem stokkum og brúm, eða í formi notkunargjalda, t.d. svokallaðra tafa- og mengunargjalda.“

Það er gamla orðalagið. Í dag heita þau flýti- og umferðargjöld en eru þarna kölluð tafa- og mengunargjöld sem tekið gætu mið af annatíma, útblæstri ökutækja og fleiru. Gjöldunum yrði ætlað að mæta hluta af fjárþörf til samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Ég les áfram, með leyfi forseta:

„Hvað varðar auknar tekjur til uppbyggingar innviða borgarlínu leggur verkefnishópurinn loks til að sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu verði tryggðar nauðsynlegar heimildir í lögum til töku innviðagjalda til að fjármagna þeirra hlut í fyrirhuguðum verkefnum …“

Notendur eiga sem sagt að borga stóran hluta af stofnframkvæmdum við borgarlínu en það er engin rekstraráætlun. Ég fletti upp hversu nauðsynleg rekstraráætlun væri og hér segir um það, með leyfi forseta:

„Lykilinn að því að koma fyrirtæki á fót er áætlanagerð og fyrsta og mikilvægasta skrefið í henni er að gera góða viðskiptaáætlun fyrir fyrirtækið sem þú hyggst stofna […] Fjárhagsáætlanir samanstanda annars vegar af tekju- og kostnaðaráætlun sem er rekstraráætlun fyrirtækisins […] Í rekstraráætlun þarf að setja niður hvernig gjöld greiðast úr fyrirtækinu og hvernig tekjur koma inn.“

Þetta er svo einfalt. Af hverju liggur ekki fyrir rekstraráætlun, frú forseti? Af hverju ekki? Af hverju skyldi það vera? Vegna þess að það er fyrirséð að reksturinn verður klafi á sveitarfélögunum um ókomna tíð.