150. löggjafarþing — 122. fundur,  23. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[01:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Ég var hér aðeins að fjalla um að það væri misskilningur að borgarlína væri vistvænni en rafmagnsbílar almennt. Varðandi tíðnina á ferðum vagnanna, þessara nýju stóru strætisvagna sem eiga að vera í borgarlínunni, er ólíklegt að vagnarnir verði fullir öllum stundum. Það er mjög líklegt að þeir muni aka tómir, sem er náttúrlega ekki vistvænt. Það er ekki vistvænt að aka tómum vögnum, hvort sem þeir eru knúnir rafmagni eða jarðefnaeldsneyti.

Farþegi sem ferðast með borgarlínunni getur líka ferðast í rafbíl. Það er alveg ljóst, frú forseti, að þróunin með rafbílana gengur hratt fyrir sig og á þeim tíma sem menn horfa til varðandi borgarlínu verður töluverður fjöldi rafmagnsbíla í Reykjavík. Farþegi sem ferðast með borgarlínu getur líka ferðast í rafbíl og valið stystu leið á áfangastað og þannig sparað enn meiri orku, ef við horfum þannig á það. Slit á vegum eykst líka í veldisfalli af öxulþunga. Talið er að ein ferð í borgarlínuvagni slíti vegum þúsundfalt á við eina ferð í léttum rafbíl. Meira slit kallar á meira viðhald gatna og olíunotkun. Þetta hefur Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi þingmaður, greint og farið í saumana á í málum er varða borgarlínu. Hann hefur sett margt athyglisvert fram í þeim efnum.

Mannvirkjagerð fyrir borgarlínuna er gríðarlega orkufrek og veldur miklum útblæstri gróðurhúsalofttegunda ef menn vilja fara út í þá sálma. Mannvirki munu ekki nýtast neinum nema þeim sem koma til með að nýta borgarlínuna og þá er reynslan sú að nýtingin hefur verið slæm og engan veginn nægileg til að standa undir verkefninu. Það er náttúrlega bara sóun í því, frú forseti. Rafbílar geta hins vegar nýtt til fulls þau mannvirki sem eru nú þegar til staðar, gleymum því ekki. Það er mikil þróun í þeim málum. Sjálfkeyrandi bílar eru á næsta leiti og ætlum við þá að fara að binda okkur í verkefni sem kostar á annað hundrað milljarða sem eingöngu er sniðið að þessum strætisvögnum? Ég held, frú forseti, að menn hafi ekki horft nægilega fram á veginn í ljósi þeirrar miklu tæknibyltingar sem er í þessum efnum, með sjálfkeyrandi bílum o.s.frv.

Þeir sem hafa talað fyrir borgarlínu hafa rætt um að borgarlínan auki lífsgæði íbúa. Ég er bara ekki sammála því. Ég held einmitt að borgarlínan komi til með að skerða lífsgæði. Hún verður greidd af íbúum á höfuðborgarsvæðinu og af landsmönnum öllum í gegnum ríkissjóð. Miðað við stofnkostnað þarf meðalheimili að leggja til 1–2 millj. kr. í stofnkostnað, bara stofnkostnaðinn, og þá erum við ekki farin að sjá hver rekstrarkostnaður verður, engar tölur eru til um það. Þá þarf væntanlega að greiða með henni eins og niðurgreiða þarf ferðir strætisvagna. Verði tap á rekstri borgarlínu getur þáttur hvers heimilis í því tapi numið tugum þúsunda til viðbótar um ókomin ár og flest heimili munar um þær upphæðir.

(Forseti hringir.) Það er margt sem er óútrætt í þessum (Forseti hringir.) efnum og ég óska eftir því að verða settur aftur á mælendaskrá.