150. löggjafarþing — 122. fundur,  23. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[01:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég var byrjaður að fjalla um Sundabraut, eitthvert mikilvægasta og mest aðkallandi samgöngumannvirki landsins. Það á sér langa sögu og ég var rétt að byrja að rekja hana, sem er mikilvægt að mínu mati til þess að við áttum okkur á því hvar verkefnið er statt í dag og hvers vegna. Ég benti á að samkvæmt áætlun væri heildarkostnaður Sundabrautar, á verðlagi ársins 2015, 36 milljarðar kr. Áætlaður kostnaður borgarlínu er 80 milljarðar kr. og svo vitum við að það fer algerlega úr böndunum. En í öllu falli, ef við lítum bara til áætlaðs kostnaðar, er borgarlína meira en tvöfalt dýrari en sjálf Sundabrautin, svo að ekki sé minnst á rekstrarkostnaðinn sem svo fylgir lagningu borgarlínu sem er tekin fram yfir þessa mikilvægu framkvæmd sem myndi skila raunverulegum þjóðhagslegum ávinningi og raunverulegum áhrifum til batnaðar á umferðinni á höfuðborgarsvæðinu.

Ég var kominn að því þegar menn voru að gera sig tilbúna til að fara af stað með Sundabraut og held áfram þar sem frá var horfið, með leyfi forseta:

„Tveimur mánuðum áður hafði borgarráð Reykjavíkur samþykkt að Sundabraut yrði lögð í göngum frá Gufunesi í Laugarnes, með fyrirvara um niðurstöðu umhverfismats. Í bígerð var að ráðast í hönnun og framkvæmdir við 1. áfanga, sem átti að taka 5–6 ár, en síðan kom bankahrunið um haustið 2008 og Sundabrautinni var þá ýtt til hliðar. Hún var, og er, áfram inni í aðalskipulagi Reykjavíkur“ — þegar þarna er komið við sögu — „til ársins 2040. Ekki jukust líkurnar árið 2012, um að framkvæmdin færi í gang. Þá gerðu ríki og borg með sér samkomulag, þar sem gengið var út frá því að engar vegaframkvæmdir yrðu í Reykjavík næstu tíu árin …“ — Þetta er framkvæmdastoppið svokallaða, frú forseti, sem við höfum nefnt nokkrum sinnum í þessari umræðu og ráðist var gegn því að ríkið borgaði til að styrkja rekstur strætós.

Og áfram:

„Í samningnum var ákvæði um að endurskoða framkvæmdastoppið á tveggja ára fresti.

Málið var tekið upp í borgarstjórn og borgarráði í október 2013. Þá lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um að hafnar yrðu viðræður við ríkið um framtíð Sundabrautar og/eða Sundaganga. Markmið með viðræðunum yrði að kostnaðargreina verkefnið, vinna arðsemismat, finna leiðir til fjármögnunar, gera áfangaskiptingu og tímasetja framkvæmdina. „Arðsemismat taki tillit til þess að með Sundabraut fæst tenging við stór svæði innan borgarmarkanna sem lítið er verið að nýta (Geldinganes og Álfsnes) og sem verða þróunarsvæði til uppbyggingar með vegtengingu við önnur svæði borgarinnar,“ sagði m.a. í tillögu borgarfulltrúanna.“

Þetta voru borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem á þessum tíma var ekki hrifinn af borgarlínu en gerði sér grein fyrir mikilvægi Sundabrautar og raunar má enn segja það sama um oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

En þarna er kannski ákveðið lykilatriði, að bent var á mikilvægi Sundabrautarinnar, m.a. vegna ókominnar byggðar, vegna framtíðarbyggingarlands borgarinnar, en nú erum við hins vegar með borgaryfirvöld sem virðast einfaldlega ekki vilja að borgin fái að vaxa, halda henni í spennitreyju stefnunnar sem kölluð er þétting byggðar og er náskyldur ættingi borgaralínuverkefnisins.

Áfram skulum við halda með sögu Sundabrautarinnar svo við áttum okkur betur á stöðunni núna. Ég ætla aftur að vitna beint í þessa fróðlegu grein, vel skrifuðu. En mér sýnist á öllu, frú forseti, að það verði að bíða næstu ræðu og því bið ég hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.