150. löggjafarþing — 122. fundur,  23. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[01:50]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég var í síðustu ræðu að fjalla um umsögn frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi og því langar mig í þessari ræðu að árétta hvað sveitarfélög á svæðinu leggja ríka áherslu á það sem kom fram í ræðu minni þar sem ég ræddi um ástandið á Skógarstrandarvegi sem tengir saman Dali og Snæfellsnes. Svo ég grípi hér niður í það, með leyfi forseta:

„Má segja að hin sterku bönd á milli þessara byggðarlaga í gegnum aldirnar séu smátt og smátt að hverfa, en með bættum vegasamgöngum í gegnum Skógarströnd yrðu blásið nýju lífi í þau gömlu tengsl og aftur komið á þeim samgangi og samvinnu sem einkenndu svæðið svo lengi. Þessi þróun er því alvarleg og mikilvægt að sporna við henni með átaki í bættum vegasamgöngum á Skógarströnd eins og lögð er áhersla á af Stykkishólmsbæ.

Síðustu áratugi hefur Skógarstrandarvegur sætt afgangi á samgönguáætlunum, en árið 2007 þegar Skógarstrandarvegur var settur á samgönguáætlun vöknuðu vonir um áform og samstarf sveitarfélaga og vaxandi samgang á milli Snæfellsness og Dalabyggðar. Með nýjum samgönguráðherra á þessum tíma var vegurinn hins vegar tekin af dagskrá án nokkurs rökstuðnings. Bættar samgöngur í gegnum Skógarströnd munu efla byggðir í kringum svæðið og leiða til aukinnar samvinnu milli sveitarfélaga og jafnvel sameiningar sveitarfélaga.“ — Sú umræða hefur átt sér stað á þessu svæði en það er þó grundvallaratriði að samgöngur séu í lagi. — „Án bættra samganga um Skógarströnd er í raun óraunhæfur kostur að ræða um sameiningar sveitarfélaga á Snæfellnesi og Dalabyggðar. Um þessar mundir eru sveitarfélög að líta í kringum sig eftir vænlegum sameiningarkostum og það er ljóst að góðar samgöngur eru meðal mikilvægustu atriðanna þegar verið er að skoða hvort sameining sé raunhæfur kostur.“

Svo segir áfram:

„Í núgildandi stefnumótandi byggðaáætlun er m.a. lögð áhersla á að takast á við fækkun íbúa á einstökum svæðum, einhæft atvinnulíf og tryggja að tæknibreytingar og þróun eigi sér jafnframt stað í hinum dreifðari byggðum landsins […] Endurbætur á umræddum stofnvegi myndu þannig vera í skýru samræmi við þær áherslur sem fram koma í stefnumótandi byggðaáætlun og til þess fallnar að efla byggð á Skógarströnd sem og á nærliggjandi svæðum.

Tækifæri til sóknar í byggðarlögum sem búa við viðvarandi fólksfækkun, líkt og í Dalabyggð, Reykhólum og Ströndum, eru helst talin vera í ferðaþjónustu, að byggja eigi á því sem fyrir er í landbúnaði, en bættar samgöngur og þar með möguleikar á aukinni fjölbreytni í atvinnulífi eru forsendur eflingar svæðisins. […] Þá kemur fram að markmið samgönguáætlunar sé að auka búsetugæði með því að bæta samgöngur innan og milli skilgreindra vinnusóknarsvæða og stækka þau þar sem hægt er.“

Að lokum segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Á haustþingi Sambands sveitarfélaga á Vesturlandi 2019 var samþykkt samhljóða af öllum sveitarfélögum á Vesturlandi eftirfarandi ályktun um Skógarstrandarveg:

Undanfarin þrjú ár hafa verið gerðar minni háttar lagfæringar á veginum um Skógarströnd. Hönnun og úrbætur á veginum eru brýnar. Mikilvægt er að án tafa verði samþykkt tímasett verkáætlun framkvæmda.“ — Og lögð á það brýn áhersla.