150. löggjafarþing — 122. fundur,  23. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[01:55]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Frú forseti. Það er svolítið sérkennilegt að vera að ræða hér um samgönguáætlun þegar það blasir við að stærsta fjárfestingarverkefnið, borgarlínan, fellur á öllum prófum. Það sýnist vera leitun að lakari tillögu og eru þær nú margar slæmar. Þetta stenst engar kröfur. Það stenst engar kröfur sem gera verður um fjármögnun og aðra slíka þætti. Ég nefni að hér er í fyrsta lagi ekki til fullnægjandi skilgreining á verkefninu. Það er nú það fyrsta. Í annan stað er ekki til fullnægjandi kostnaðaráætlun, í þriðja lagi ekki fullnægjandi vikmörk og áhættugreining, hvað gæti farið úrskeiðis og valdið umframkostnaði. Það er engin arðsemisgreining, frú forseti. Það er engin rekstraráætlun, hún er ekki til. Það er ekkert um það hver eigi að bera hallann af þessari starfsemi sem auðvitað blasir við að er algerlega vonlaust að reka með ábata í fjárhagslegu tilliti, ekki nokkur minnsti möguleiki. Það er útilokað að notkunin á þessu fyrirbæri, eins og það hefur verið kallað hér af hv. þingmanni Sjálfstæðisflokksins, verði slík að þetta fái staðið undir sér. Komið hafa fram og kvatt sér hljóðs opinberlega ýmsir sérfræðingar, verkfræðingar og kunnáttumenn. Einn þeirra segir að hægt sé að ná þessum markmiðum um almenningssamgöngur með því að verja til þess nokkrum milljörðum. Forysta Sjálfstæðisflokksins ætlar að standa fyrir því að setja í það 50 milljarða af almannafé úr ríkissjóði. Svo eiga sveitarfélögin að vera þátttakendur.

Við höfum fyrir framan okkur umsagnir við önnur þingmál þar sem er lýst bágri stöðu sveitarfélaganna. Þau eru nánast á hnjánum eftir Covid-faraldurinn. Í umsögn Reykjavíkurborgar sjálfrar segir að það stefni í algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára. Er þetta sveitarfélag að fara í einhverja borgarlínu? Hvaða burði hefur það til að fara í einhverja borgarlínu sem er borin von að geti borið sig? Við erum búin að fara yfir hagfræðilega greiningu þar sem er sýnt fram á það í ritgerð til lokaprófs í hagfræði að verkefnið sé ekki þjóðhagslega hagkvæmt. Hvað þarf til að leiða fólki það fyrir sjónir að þetta er algjört óráð og firra? Hvað þarf? Hvernig stendur á því að þeir sem eru áhugasamir um þetta verkefni koma ekki og ræða það? Og ef við höfum eitthvað rangt fyrir okkur eða eitthvað er missagt, af hverju koma þeir þá ekki og leggja t.d. fram þessa rekstraráætlun sem nú stendur yfir leit að? Af hverju koma þeir ekki bara og segja að hún sé til og allir geti kynnt sér hana? Auðvitað væri löngu búið að því ef hún væri til. Af hverju kemur ekki einhver hér og segir að til sé fullnægjandi mat á kostnaði og allt það? Af hverju kemur ekki einhver og segir að arðsemismat og arðsemisgreining sé til? Það gerist ekki. Umhverfisverkfræðingur segir að hægt sé að ná þessum markmiðum með því að verja í það nokkrum milljörðum en ekki milljarðatugum af almannafé. Af hverju kemur ekki einhver og segir okkur af hverju það er ekki rétt sem hann heldur fram? Það er af því að þeir geta það ekki.

Frú forseti. Þetta mál er svo lélegt að það tekur engu tali og það er náttúrlega bara eins og hver önnur firra eiginlega að vera að eyða í það tíma.