150. löggjafarþing — 122. fundur,  23. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[02:01]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Frú forseti. Ég hef talað hér fyrir minnihlutaáliti okkar hv. þm. Bergþórs Ólasonar og farið vel yfir það í mínum fyrri ræðum. Í örstuttu máli má segja að álitið byggist aðallega á tveimur atriðum, þ.e. það sem skilur á milli okkar í 2. minni hluta og meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar eru aðallega tvö atriði. Við fögnum því að aukið fé sé sett í samgöngur eins og ráðgert er að gera. Við fögnum því ákaflega og tökum undir með meiri hlutanum í ýmsum málum og varðandi marga hluti sem þarna er að finna og þetta hefur verið fært til betri vegar í meðförum nefndarinnar.

Við gerum hins vegar athugasemdir, eins og ég hef farið margoft yfir í ræðum, við borgarlínuna og að fjármagn sé veitt í það verkefni sem við teljum vera vanhugsað og illa ígrundað, t.d. vantar þar rekstraráætlun sem ég hef gert ítarlega leit að í kvöld og nótt og hef ekki enn fundið. En ég skal ekki segja nema ég finni hana einhvern tímann og e.t.v. liggur hún einhvers staðar. En mér finnst það ótrúlegt ef farið er í stærstu framkvæmd Íslandssögunnar sem þessi borgarlína er, 80 milljarðar, að ekki sé búið að huga að því hvernig á að reka þetta. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því, frú forseti.

Síðan gerum við athugasemd við veggjöld, gerum athugasemd við það að ríkisstjórnin sé að leggja fram þrjú stjórnarmál sem öll feli í sér einhvers konar veggjöld á þrjá mismunandi vegu með ólíkri aðkomu í öllum þeim frumvörpum og stjórnarmálum. Það er í samgönguáætlun og í frumvarpi um heimild til að stofna opinbert hlutafélag er gert ráð fyrir gjaldtöku og einnig í frumvarpi til laga um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir. Þetta eru þrjú mál sem öll gera ráð fyrir veggjöldum. Við gerum athugasemdir við það. Ég geri athugasemd við hvernig þetta er unnið. Við hefðum viljað sjá þetta í einu frumvarpi og við gætum rætt það heildstætt hér á þingi hverjar hugmyndir eru um veggjöld yfirleitt í landinu. En þetta er komið lengra en nokkurn grunaði með þessum þremur stjórnarmálum.

Veggjöld eru ekki nýtt fyrirbrigði hér á landi eins og þjóðsögur greina frá. Í safni Jóns Þorkelssonar, sem hann tók saman og gaf út 1899, er saga um veggjöld sem sýnir að Snæfellingar voru greinilega á undan sinni samtíð vegna þess að þar var bóndi á Stað á Snæfellsnesi sem gerði tilraun til að innheimta veggjöld. Eins og segir í þessu kveri gerði hann þessa tilraun:

„Á Stað á Ölduhrygg (Staðastað) bjó í gamla daga bóndi sá, er Grani hét; var hann bæði ágjarn og auðugur. Alfaravegurinn lá um landareign hans eptir endilaungum Ölduhrygg, sem nú er kallað Staðarholt, og verður en í dag fara um þennan veg, er ferðast er vestur undir Jökul eða þaðan inn á Mýrar eða í Dali, enda er vegur sá mjög fjölfarinn, bæði til kauptúnanna Ólafsvíkur og Búða, og til skreiðarkaupa vestur í „pláss“, sem kallað er, en það er Hjallasandur, Keflavík, Ólafsvík og Brimilsvellir. Grani bóndi þessi þóttist nú geta náð miklu fé, ef hann tollaði veginn; bygði hann því afarmikinn torfgarð neðan frá sjó og upp í Langavatn. Hlið hafði hann á garðinum, þar sem vegurinn er, og veitti engum fararleyfi, nema þeim, er greiddu Granatoll. Óljóst er með öllu, hve hár hann hefur verið, en illa undu menn tollgreiðslu þessari, enda launuðu þeir Grana bónda hana, því einhvern morgun fannst hann dauður, hangandi við annan dyrastafinn í garðshliðinu. Hefir sá vegur aldrei verið tollaður síðan.

Það er auðséð á garðrúst þeirri, sem eptir er, að hann hefir verið ákaflega hár og þykkur, og leingd hans hér um bil 300–400 faðmar.“

Og lýk ég svo þessari sögu.