150. löggjafarþing — 123. fundur,  23. júní 2020.

lán Íbúðalánasjóðs sem bera uppgreiðslugjald.

905. mál
[11:51]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég vil byrja á að segja að þær tölulegu upplýsingar sem ég er með varðandi þetta mál eru frá árinu 2019 og allt svarið litast af þeim breytingum sem voru reyndar gerðar í lok síðasta árs þar sem Íbúðalánasjóði var skipt upp í tvo starfsþætti, þar sem markmiðið var að aðskilja sérstaklega eldri lánastarfsemi og fjárstýringu frá annarri starfsemi sjóðsins. Samhliða var hinn hlutinn sameinaður Mannvirkjastofnun og stofnuð var Húsnæðis- og mannvirkjastofnun annars vegar og undir það starfssvið fellur sá hluti starfsemi Íbúðalánasjóðs sem starfræktur er í samræmi við hlutverk sjóðsins í kjölfar breytinga á lögum um húsnæðismál sem gerðar voru í mótun húsnæðisstefnu, úthlutun stofnframlaga o.s.frv. Síðan skiptist þetta í ÍL-sjóð en undir starfssvið hans fellur sá hluti Íbúðalánasjóðs sem snýr að útgáfu skuldabréfa sjóðsins, eldri lánastarfsemi, fjárstýringu eigna og öðrum þáttum. Samhliða fluttist sá hluti yfir til fjármálaráðuneytisins, sem sagt ÍL-sjóður sem slíkur, en HMS, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, heyrir enn þá undir félags- og barnamálaráðherra samkvæmt forsetaúrskurði.

Varðandi fyrirspurnirnar, þ.e. hversu mörg virk lán Íbúðalánasjóðs bera uppgreiðslugjald, var í hálfsársuppgjöri Íbúðalánasjóðs 2019, sem er fyrir um ári, 5.641 lán sem bar þetta uppgreiðslugjald. Ég veit ekki hver staðan á því er í dag vegna þess að þetta er í raun komið yfir til fjármálaráðuneytisins. 30. júní var heildarupphæð þessara lána 71,6 milljarðar. Það sama gildir um þetta, eðlilega hefur það breyst vegna þess að væntanlega hafa uppgreiðslur haldið áfram á þessum lánum eftir að þetta fluttist yfir til fjármálaráðuneytisins.

Síðan er spurt: Á hvaða árabili voru slík lán í boði?

Þau voru veitt frá árinu 2005 og útgáfu þeirra var hætt þegar lög um neytendalán tóku gildi 1. nóvember 2013. Þetta eru allt saman lán sem gefin voru út á árunum 2005–2013. Öll lán sem hafa verið veitt eftir þann tíma bera ekki þessi ákvæði og lán sem er verið að veita í dag frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gera það ekki heldur.

Síðan er fyrirspurn um hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir skilmálabreytingu þannig að það verði hagstæðara fyrir skuldara framangreindra lána að greiða þau upp.

Ég kom inn á það í inngangi mínum áðan að ráðherra getur beitt sér fyrir því en sjóðurinn, ÍL-sjóður, er í raun undir yfirstjórn fjármálaráðherra. Hann fluttist þar yfir ásamt öllum þeim fjármunum sem fylgdu þessum uppgreiðslum líka. Sjóðurinn var auðvitað fjármagnaður með skuldabréfum, m.a. frá lífeyrissjóðum sem lánuðu síðan til einstaklinga. Þetta fluttist allt yfir til ÍL-sjóðs og það er fjármálaráðherra sem fer með réttindi, skyldur, eignir og skuldbindingar þessa sjóðs eins og hann er. Það þótti eðlileg ráðstöfun þegar frumvarpið var samþykkt þar sem fyrst og fremst væri um umsýslu þessara hluta að ræða en ekki eiginlegt verkefni nýrrar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eins og kom fram í lögum sem samþykkt voru frá Alþingi í lok síðasta árs. Þar af leiðandi hefur félagsmálaráðherra ekki heimildir til að hlutast til um meðferð þessara eigna af því að þær eru á hendi fjármálaráðherra.

Ég vona engu að síður að þær tölulegu upplýsingar sem ég fór hér yfir og eru frá árinu 2019 svari að einhverju leyti fyrirspurn hv. þingmanns.