150. löggjafarþing — 123. fundur,  23. júní 2020.

lán Íbúðalánasjóðs sem bera uppgreiðslugjald.

905. mál
[11:58]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ráðherra tekur við hvatningarorðum hv. þingmanna hvað þetta snertir og mun taka það upp. En þegar þetta fluttist yfir þá fluttist einnig gríðarlegt magn af lausafé; ÍL-sjóðurinn eins og hann var, útlánin, þessi 5.600 útlán, síðan skuldabréf, sem voru væntanlega að mestu leyti við lífeyrissjóði sem var fjármögnunin, og lausafé sem þessu tengdist. Þannig að í raun er ákvörðunin um með hvaða hætti því lausafé væri varið, hvort það myndi renna að einhverju leyti til að afnema uppgreiðslugjöldin — það ætti að vera svigrúm til þess til skamms tíma, en ljóst er að ríkið myndi taka það á sig til lengri tíma.

Ég ítreka enn að þau 5.640 lán sem þarna eru miðast við hálfsársuppgjör 2019, bara svo að það sé aftur tekið fram, vegna þess að í raun hefur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ekki nákvæmar upplýsingar um hver staðan er um mitt ár 2020 og er mjög líklegt að það hafi að einhverju leyti lækkað þótt erfitt sé að greina það nákvæmlega hversu mikið það hefur verið, ef það hefur eitthvað lækkað. Þar af leiðandi hafi líka heildarupphæðin sem þarna um ræðir eitthvað lækkað. Að öðru leyti vil ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og eins innlegg frá samflokksmanni hans hvað málið snertir.