150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[12:06]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Á höfuðborgarsvæðinu hefur verið framkvæmda- og samgöngustopp í fjöldamörg ár. Það hafa allir sem þurfa að komast leiðar sinnar um svæðið orðið illþyrmilega varir við. Umferðarteppurnar koma ekki til af tilviljun, herra forseti. Þær eru fyrir fram ákveðnar og um þær samið af meiri hlutanum í Reykjavík til þess að fá aukið fé til að gera tilraun til að auka hlut almenningssamgangna, tilraun sem hófst 2011 og árangurinn er enginn. Hlutur almenningssamgangna var 4% þegar tilraunin hófst og 9 milljörðum síðar er hlutur þeirra enn 4%. Þetta heitir á mannamáli að tilraunin hafi mistekist.

En eru menn búnir að læra af reynslunni? Nei, menn ætla að bæta verulega um betur og veðja öllu sínu fé á svokallaða borgarlínu. Áformað er að rýma um fyrir sérakreinum fyrir hraðvagnakerfi sem eru sérlega langir almenningsvagnar sem fá forgang á gatnamótum. Hvernig sjá menn fyrir sér að fjölskyldubíllinn komist leiðar sinnar þegar það kerfi er komið á? Munu umferðarteppur með tilheyrandi töfum heyra sögunni til þegar tvær akreinar hafa verið teknar frá fyrir þessa hraðvagna?

Og hvað kosta herlegheitin? Nýjustu tölur segja að ævintýrið muni kosta 70–80 milljarða þrátt fyrir að vera að miklu leyti óútfært. Þetta eru nágrannasveitarfélög Reykjavíkur og ríkið tilbúin að greiða til að þoka áfram framkvæmdum á helstu stofnbrautum í næsta nágrenni við Reykjavík þótt að sönnu sé ríkið þar í aðalhlutverki og greiði brúsann að mestu leyti.

Þrátt fyrir mikla leit að rekstraráætlunum þá hirða þeir ekki um að gera þær. Hvernig á að reka þetta þegar þetta er risið? Ekki er til sá aumi sjoppueigandi sem gerir ekki áætlun um það hvernig tekjurnar verða og hver útgjöldin verða. Ekki er til sá aumi sjoppueigandi í einkarekstri sem hugsar ekki örlítið fram í tímann. En hér er það óþarfi, draumurinn er aðalatriðið, draumurinn um að allir ferðist með almenningssamgöngum, í strætó. Draumurinn er öllu öðru yfirsterkari. Engar rekstraráætlanir. Menn eru tilbúnir að stökkva á þann vagn og gera það, ríkið, borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík í forystu og nágrannasveitarfélögin. Og hvert verður gjaldið? Eru menn sammála um þetta?

Þetta er auðvitað sérstaklega erfitt mál fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Talsmaður Sjálfstæðisflokksins hér á þingi, hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, mælir því bót í mörgum ræðum í þessari umræðu. En hvað er annars staðar að frétta af Sjálfstæðismönnum? Þeir skrifa, við lesum greinar eftir þá, við hlustum á ræður eftir aðra. En vinstri menn eru staðráðnir í að framkvæma þennan draum þrátt fyrir allan þann kostnað sem honum tilheyrir og mun fylgja. Umræðan hefur verið mjög lífleg síðustu daga og margar greinar hafa birst í blöðum og á netinu og Sjálfstæðismenn hafa verið þar framarlega í flokki, ritstjórnargrein í Morgunblaðinu í gær, sem dæmi, ræða hv. þm. Sigríðar Á. Andersen hér á þinginu síðastliðinn fimmtudag, þar sem hún sagði að þetta væri algerlega óútfært fyrirbæri, grein eftir oddvita Sjálfstæðismanna í Reykjavík, Eyþór Arnalds, í Morgunblaðinu í gær. Sjálfstæðisflokkurinn er algerlega klofinn í þessu máli en þetta á að gera, út í þetta ævintýri ætla menn að ana. Miðflokkurinn mun ekki samþykkja þessi útgjöld.