150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[12:17]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Í lokaræðu minni um samgönguáætlun langar mig fyrst og fremst að fjalla um skipulagsleg smáatriði, stöðu borgarlínu og það hvernig regluverkið hefur komið okkur í þessa snúnu stöðu. Við þingmenn verðum að sýna ábyrgð við meðferð opinberra fjármuna en því miður virðast oft, sérstaklega kristallast það í þessu máli, fáir vera vinir skattgreiðenda hér inni. Það er ótrúlegt þegar daginn út og inn er tosast á um milljón hér, tíu milljónir þar, upphæðir sem væru tekin heljarslagsmálum til mikilvægra verkefna hér og hvar um landið eða í málaflokkum stjórnvalda, þá finnist mörgum þingmönnum ekkert mál að taka ákvörðun um 50 milljarða fjárfestingu í lítt útfærðri hugmynd um borgarlínu sem allar líkur eru á að verði raunverulegt tap á þegar rekstur hefst. Það verður einhvern veginn að ná að forma regluverk skipulags- og framkvæmdamála þannig að framkvæmdir komist áfram. Það verður að forma regluverkið þannig að stofnbrautauppbygging verði ekki tekin í gíslingu og að ríkissjóður þurfi ekki að borga tugmilljarða lausnargjald, eins og í þessu tilviki, þegar tekist hefur að gera ástand samgöngumála nær óbærilegt á höfuðborgarsvæðinu. Í því samhengi verður að hafa í huga nú þegar lagt er af stað undir þessu samkomulagi svokallaðs samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins að römmuð er inn heildarfjárfesting upp á 120 milljarða plús allar þær framúrkeyrslur sem verða. Þetta tókst stjórnvöldum að gera á einhvern hátt án þess að tryggja að ein einustu mislægu gatnamót kæmust til framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu. Þetta tókst stjórnvöldum að ramma inn án þess að tryggt væri að mikilvægt verkefni eins og Sundabraut kæmist áfram.

Ýmsir hafa gert athugasemdir við umræðu okkar þingmanna Miðflokksins síðustu daga. Ég held að aldrei hafi verið mikilvægara en einmitt núna að tala opinskátt um hvernig við förum með skattfé almennings, hvernig við nálgumst þá hugmynd að bæta enn í skattlagningu eins og þá sem snýr að mögulegum umferðar- og tafagjöldum í þessu verkefni og öðrum sem á eftir að ræða fyrir þinglok ef fram heldur sem horfir. Við verðum að umgangast sjálfsaflafé fólks og fyrirtækja með virðingu. Það er ekki gert í þessu máli þegar það er gert af jafn mikilli, ég leyfi mér að segja, léttúð og raunin er hjá sumum þingmönnum. Við sjáum það bara hjá þingmönnum þeirra flokka sem styðja þetta mál. Fæstir þeirra hafa tekið þátt í umræðunni, þeir eru nokkrir, sárafáir. Það er verið að ráðstafa 50 milljörðum í borgarlínu sem, ef sagan er skoðuð, eru sáralitlar líkur á að nái fram þeim áhrifum sem stuðningsmannalið þeirrar hugmyndar treystir á, sáralitlar. Og að ekki komi fleiri því til varnar að gera kröfu um að kostnaðaráætlanir séu vitrænar, að menn viti hvernig þeir ætla að reka þetta, að þetta endi ekki allt í fanginu á ríkissjóði í lokin, ég segi fyrir mig að mér finnst það algjörlega óþolandi. Það er auðvitað þannig að næsta samgöngumál sem er til umræðu í þinginu er frumvarp um stofnun opinbers hlutafélags þar sem ætlunin er að ramma inn þennan rekstur sem fram undan er og uppbyggingu á grundvelli þessa samkomulags og fjárveitinga því tengdu. Ef engar girðingar verða reistar fyrir frekari sókn þessa fyrirbæris sem borgarlínuverkefnið er í ríkissjóð, ef ekki verður áréttað á viðunandi hátt að stofnbrautauppbygging höfuðborgarsvæðisins komist áfram með forsvaranlegum hætti þá þykir mér einboðið að fara verði af mikilli nákvæmni og mikilli einurð yfir þau efnisatriði sem fela í sér áhættu fyrir ríkissjóð og þar sem hætta er á að markmið Vegagerðarinnar og stjórnvalda og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis nái ekki fram að ganga vegna þvermóðsku einhvers tiltekins sveitarfélags.

Ég óska okkur alls hins besta í þessu máli og vona að þetta fari vel en lýsi að endingu yfir mikilli ánægju með flesta þætti samgönguáætlunar eins og hún liggur fyrir í þingsályktunartillögunni. Og eins og kom fram í minnihlutaáliti mínu og hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar þá tökum við undir þau sjónarmið sem koma fram í meirihlutaálitinu í öllum meginatriðum. Fyrir utan borgarlínuna.