150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[12:47]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Við ræðum hér mál sem er nátengt samgönguáætlun sem rædd hefur verið hér ítarlega undanfarna daga. Það snýr að því að stofnað verði opinbert hlutafélag sem ætlað er að halda utan um framkvæmdir sem snúa að svokölluðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, sem á m.a. að fjármagnast í gegnum fjárveitingar samgönguáætlunar með tafagjöldum svokölluðum eða flýtigjöldum, eftir því við hvern samningsaðila er talað, og síðan sölu og umbreytingu ríkiseigna, í þessu tilviki Keldnalandinu og eftir atvikum hafa verið nefndir möguleikar á sölu ríkiseigna eins og Íslandsbanka og mögulega fleiri ríkiseigna ef þörf verður á.

Ef við reynum að ná utan um stóru myndina í málinu fyrst þá hverfist það allt saman um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Þeir sem hafa fylgst með umræðunni um samgönguáætlun, sem var næsta mál á undan þessu, velkjast ekki í vafa um það — a.m.k. við þingmenn Miðflokksins og ýmsir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og eflaust margir, hærra hlutfall eftir því hversu vel þingmenn hafa sett sig inn í málin — að kostnaðaráætlanir sem fyrir liggja, jafn lausbeislaðar og þær eru, verði ekki raunveruleg niðurstaða heildarkostnaðar þegar upp verður staðið. Ég held að litlar líkur séu á því að sú eyrnamerkta upphæð sem tilgreind er í samgöngusáttmálanum til borgarlínu upp á 49,7 milljarða haldi þegar á reynir, því miður. Í þeim efnum hræða sporin. Skipulagsvald sveitarfélaganna er með þeim hætti að það er hægt að gera framkvæmdir dýrari en þær þurfa að vera. En það er líka hægt að ná fram hagræði í framkvæmdum ef vilji er til að leita hagkvæmra lausna, hvort sem um er að ræða útfærslu vegstæðis, hljóðmanir og annað slíkt. Skipulagsvaldið er lykilatriði til að stýra því hvort hagkvæmni næst fram eða hvort verkefni fara verulega fram úr þeim fjárveitingum sem upphaflega voru ætlaðar til þeirra.

Ég nefni í þessu samhengi verkefni sem var framkvæmt fyrir 12–14 árum síðan, ef ég man rétt. Það er breikkun Reykjanesbrautar neðan við Hnoðraholtið svokallaða og hljóðvarnir sem þar eru, sem eru eins og virkisveggur sem ökumenn keyra meðfram þegar keyrt er neðan við Hnoðraholt. Þarna var tekin ákvörðun um það á grundvelli krafna og samkomulags við sveitarfélagið, í þessu tilviki Garðabæ, að fara í verulega dýrari útfærslu en Vegagerðin taldi skynsamlega. Ég nefni þetta í því samhengi að ábyrgð sveitarfélaganna á þessari framtíðaruppbyggingu er mikil hvað kostnaðarhliðina varðar. Við í þingflokki Miðflokksins höfum talað á þeim nótum að nauðsynlegt sé að tryggja girðingar í lögum um stofnun þessa opinbera hlutafélags þannig að ekki verði opinn krani fjárveitinga þegar kemur að framúrkeyrslu framkvæmdaverkefna. Við höfum lagt mikla áherslu á að það sé alveg ljóst að þetta félag, verði það stofnað, muni ekki sjá um rekstur borgarlínunnar, komist hún á koppinn. Hættan er sú að þá fyrst byrji tapreksturinn að hlaðast upp. Það kom fram í fjölmiðlum nú síðast í morgun, haft eftir forstöðumanni verkefnastofu höfuðborgarinnar um borgarlínu, að sá rekstrarkostnaður sem liggur fyrir árlega til aukningar er 2 milljarðar á ári en allt er óljóst varðandi mögulegan tekjuauka. Að fenginni reynslu ætla ég að leyfa mér hér og nú að setja fram þá spá að þessi 2 milljarða kostnaðarauki sé undirskot miðað við það sem við þekkjum í dag. Ég er ekki með gögnin hjá mér en heildarrekstrarkostnaður Strætó á höfuðborgarsvæðinu er annaðhvort 7 eða 9 milljarðar. Að við bætist kostnaður upp á 2 milljarða er ég hræddur um að sé hófleg spá og sett fram að einhverju marki til þess að fegra myndina í núverandi stöðu.

Í frumvarpinu eins og það liggur fyrir og í nefndaráliti meiri hluta er málið allt of opið. Það er ekki tekið á skipulagsmálum með þeim hætti að ég, svo ég tali fyrir mig, telji forsvaranlegt að klára málið eins og það liggur fyrir, einfaldlega vegna þess hvernig svör fulltrúa tiltekinna aðila þessa samkomulags hafa legið varðandi t.d. mislæg gatnamót, Sundabraut og fleiri vegi. Ég tel því mjög mikilvægt að við setjum inn í þetta mál kvaðir, nái það með einum eða öðrum hætti fram að ganga, sem snúa að vörðum, á ensku er það kallað „milestones“, þegar aðilar meta með sambærilegum hætti hvaða framvinda hefur náðst. Ég held að við verðum að setja inn ákveðnar vörður t.d. um að Keldnalandið verði ekki fært inn í hlutafélagið, ohf.-ið, verði það stofnað, nema til að mynda að skipulagsmál Sundabrautar verði þannig að hægt sé að komast áfram með verkið, að mislæg gatnamót verði með þeim hætti að forsvaranlegt sé og fleira mætti nefna. Arnarnesvegurinn. Það þarf að tryggja að hann komist til framkvæmda og þær lagfæringar klárist sem nauðsynlegar eru. Þetta þykir mér einfaldlega allt of opið í málinu öllu.

Það er ekki hægt að horfa bara strípað á þetta sem verkefni, frumvarp um það að stofna þetta ohf.-félag án þess að horfa á heildarmyndina því að hlutverk þessa ohf.-félags er auðvitað óhefðbundið. Því er ekki ætlað að standa í rekstri til framtíðar og þar fram eftir götunum. En vissulega er rekstur og fjárfesting í kringum þau verkefni sem félaginu er ætlað að standa að. Annað sem þarf að ramma inn í frumvarpinu er að hnykkt sé á því sem kemur fram í meirihlutaáliti umhverfis- og samgöngunefndar um samgönguáætlun, sem umræður kláruðust um fyrr í dag. Þar er hnykkt á því sérstaklega að almenningssamgöngur innan sveitarfélaga séu á ábyrgð sveitarfélaganna, ekki ríkisins. Ég hef áhyggjur af því að þegar og ef rekstur borgarlínu kemst á legg, á þeim forsendum sem fyrirsvarsmenn þess verkefnis tala nú fyrir, verði töluvert árlegt tap af þeim rekstri sem þarf með einum eða öðrum hætti að brúa. Það kæmi mér mjög á óvart ef sveitarfélögin, þegar þar að kemur, óski ekki aðstoðar ríkissjóðs. Það kæmi mér mjög á óvart. Það er nú bara þannig að einhverjir, þó að þeir séu ekki tilgreindir hérna, aðilar samkomulagsins sem er ætlað að ramma inn með þessu opinbera hlutafélagi, hafa beinlínis sagt að nauðsynlegt verði að taka upp viðræður um rekstrarhluta verkefnisins þegar það er komið á koppinn.

Ég tel mjög mikilvægt að við finnum leið til þess að skrifa þetta inn og við pössum okkur á því að einhverjir vinir skattgreiðandans láti í sér heyra við vinnslu þessa máls og tryggi, svo það sé orðað kurteislega, að það sem féll milli skips og bryggju í textagerð samkomulagsins verði reynt að lagfæra, annaðhvort í breytingartillögu við málið sjálft eða í áhersluatriðum í framhaldsnefndaráliti þar sem lagðar verði línur til að mynda um framtíðarhluthafasamkomulag, sem verður væntanlega gert í samhengi við stofnun félagsins, komist það á koppinn.

En það eru atriði sem jafnframt hafa komið til skoðunar og er nauðsynlegt að fara í gegnum hér. Það er t.d. atriði sem snýr að því hvernig málið, eins og það er lagt fram í frumvarpinu sem er ætlað að ramma inn þennan höfuðborgarsamning, harmóneri við og standist lög um opinberar framkvæmdir. Með fljótum lestri á gögnum nefndasviðs þá sá ég ekki minnisblað um að þetta atriði hefði verið skoðað sérstaklega. En það má þó vera. Það verður bara að skoða það sérstaklega hér í umræðunni. En ef einhver áhöld eru um að þessi nálgun standist með tilliti til þeirra laga setur það auðvitað málið sem slíkt í uppnám. Það er óforsvaranlegt annað en að leiða það atriði í jörðu á hvorn mátann sem það fellur. Ef niðurstaðan er sú að þessi nálgun standist ekki þá verða menn að finna aðrar leiðir að því að ná fram þessu markmiði, ef það er ætlunin, aðrar leiðir en að stofna þetta félag með þeim hætti sem nú er lagt til.

Til viðbótar þessu þarf að liggja fyrir þannig að ljóst sé gagnvart hlutafélaginu og öllum ljóst að fjárveitingar til félagsins sem koma inn í gegnum samgönguáætlun þarfnist staðfestingar Alþingis á hverju ári í fjárlögum. Þá skiptir ekki máli þó að skrifað hafi verið inn í þessa viljayfirlýsingu stjórnvalda og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að greiðsluflæði gangi fram með ákveðnum hætti. Það verði á endanum fjárlögin sem ráði, rétt eins og í öðrum málum. Hjá því verður ekkert komist.

Ég ítreka áhyggjur mínar hvað fjárstreymið varðar. Þær snúa að mjög miklu leyti að því að það verði sótt í ríkissjóð þegar hvert og eitt verkefni fer að sigla fram úr. Ef sjónarmiðið er að fari eitt verkefni fram úr áætlun þá verði skorið af öðrum eða aðrir hlutar borgarlínu komist ekki til framkvæmda, af því að það verði hámark á heildarútgjöldum ríkissjóðs, er mikilvægt að það komi skýrt fram. Það verði ekki bara í einhverju spjalli á nefndarfundi heldur liggi það alveg fyrir til að undirstrika ábyrgð sveitarfélaganna gagnvart skipulagsvaldi sínu. Við þekkjum það hversu mikil áhrif skipulagsákvörðun sveitarfélags getur haft á heildarkostnað framkvæmda. Það á jafnt við hér á höfuðborgarsvæðinu og um landið allt. En tölur sem eiga við um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu eru í allt öðru samhengi en þær sem við þekkjum hvað samgönguframkvæmdir úti á landi varðar.

Að þessu sögðu vil ég nefna það sérstaklega að ég held að gagnrýnin sem hefur komið fram á að þetta sé gert í formi opinbers hlutafélags sé réttmæt. Ég tel, miðað við þær upplýsingar sem ég hef úr nefndarstarfinu, að það væri skynsamlegt að málið gengi til nefndar á milli umræðna þar sem þetta atriði yrði skoðað sérstaklega, hvort það sé ekki skynsamlegra að útfæra félagið, verði það stofnað, sem ehf. eða hf., en ekki sem opinbert hlutafélag. Ég held að margra hluta vegna væri það skynsamlegt, en hið minnsta að það verði meðvituð ákvörðun að gera það eins og hér er gert. Það verði rökstutt almennilega og sett fram sannfærandi rök fyrir því vegna þess að það er ekki hefðbundið fyrirkomulag opinbers hlutafélags að það sé í sameign ríkis og sveitarfélaga eins og í þessu tilviki. Það má vera að það sé rangt hjá mér en ég þekki ekki önnur dæmi slíks fyrirkomulags. En ef svo er væri ágætt að upplýsingar um það kæmu fram. En ég held að það sé ekkert slíkt dæmi í því kerfi sem við búum við. Ég geri athugasemdir við þessa útfærslu og tel að það þurfi býsna góðan rökstuðning til að fara þessa, ja, hvað er hægt að segja, skapandi leið með lög um opinber hlutafélög.

Ætli það sé ekki rétt að ég geri tillögu um það við forseta að málið gangi til nefndar á milli umræðna. Einhver þarf að gera það. Eflaust mun einhver leggja það til annar en ég síðar í umræðunni en því er þá alla vega komið til skila.

Aftur að þeim atriðum sem snúa að framúrkeyrslunni. Í fyrsta lagi eru miklar hættur í framkvæmdahlutanum. Það er bara hægt að vísa í það að sporin hræða. Sagan segir okkur að einföldustu verk eins og að endurgera lítinn bragga úti í Skerjafirði fara margfalt fram úr áætlun. Þá krossar maður sig bara þegar á að fara að leggja Miklubraut í stokk á löngum kafla, eins og hv. þm. Sigríður Á. Andersen lýsti því í ræðu síðastliðinn fimmtudag um samgönguáætlun, að breyta vegfarendum um þetta svæði höfuðborgarinnar í einhvers lags moldvörpur. Ef það verkefni verður einfalt í fjárhagslegu utanumhaldi er margt breytt í því umhverfi sem við þekkjum svo vel.

Ég held að við verðum að reisa girðingar til varnar ríkissjóði í þessu máli. Við þurfum að setja inn vörður sem tryggja það að ákveðnum skipulagsmarkmiðum sé náð fram. Það stendur ekki til boða þegar verið er að ramma inn framkvæmdapakka upp á 120 milljarða, plús mögulega framúrkeyrslu, að sjónarmið t.d. Vegagerðarinnar um mislæg gatnamót eigi sér ekki viðreisnar von innan þessa apparats ef til að mynda þau sjónarmið sem komið hafa frá Reykjavíkurborg ráða. Þau eru ekki neitt dulbúin, það liggur bara fyrir að áhugi Reykjavíkurborgar á því að heimila mislæg gatnamót innan borgarinnar er mjög takmarkaður, svo vægt sé til orða tekið. Mjög takmarkaður.

Ég held því að við verðum að skrifa slíka þætti inn í þetta frumvarp. Það getur verið bráðabirgðaákvæði sem fellur þá þegar skilyrðin eru uppfyllt í skipulagsmálum. En það verður að vera einhver hvati til þess gagnvart sveitarfélögunum að verkefnum sé ýtt áfram hvað stofnbrautaframkvæmdir varðar. Ég get alveg sagt það fyrir mína parta að af þeim hef ég áhyggjur inni í þessum pakka öllum. Vissulega hef ég áhyggjur af ljósastýringu sömuleiðis. Ég hef engar áhyggjur af gangstígum og hjólastígum. Það mun allt vinna sig áfram og örugglega ganga ágætlega á meðan ekki er farið í þá vegferð að reyna að þvælast fyrir stofnbrautalagfæringu með því að koma hjólastígum fyrir á strategískum stöðum með það í huga.

En það sem ég hef áhyggjur af eru stofnbrautaframkvæmdirnar. Í þessu samkomulagi sem verið er að reyna að ná utan um með stofnun þessa hlutafélags, frá 26. september 2019, eru tilgreindar tilteknar framkvæmdir undir 5. lið sem ber nafnið Flýting framkvæmda. Þar er talað um umferðarstýringu, Sæbrautarstokk, Miklubrautarstokk, Arnarnesveginn, borgarlínu, annan Miklubrautarstokk, það er mikið af stokkum, verkefni á Reykjanesbraut og Hafnarfjarðarvegi, borgarlínu um Keldur og Blikastaðaland, gatnamót við Bústaðaveg. Hvergi í öllu þessu samkomulagi, upp á sennilega einar sjö síður, eru mislæg gatnamót nefnd einu orði. Ég er hræddur um að þegar kemur að því að slást um þær útfærslur sem valdar verða verði fulltrúar Vegagerðarinnar í mjög veikri stöðu til að knýja á um að bestu lausnir verði í boði fyrir umferðarflæðið sem nauðsynlega þarf að fara þarna um og flæða frjálst í báðar áttir á Reykjanesbrautinni.