150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[13:15]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að í meginatriðum séum við sammála um mjög stóra þætti þessa máls. En af því að hv. þingmaður spurði um Sundabraut, hvort hún væri ekki loksins komin á dagskrá núna, þá er það rétt, en hún hefur auðvitað verið á dagskrá frá því snemma árið 2000, þannig að þetta hafi verið mikil þrautaganga. Ég held að ef það verður formúlerað framhaldsnefndarálit þá væri ástæða til að árétta sérstaklega þau atriði sem snúa að Sundabrautinni.

Það er auðvitað rétt að við erum að losna undan því framkvæmdastoppi sem hefur verið á stofnbrautum höfuðborgarsvæðisins. En ég hef sett það í samhengi við að það sé hálfgert lausnargjald sem ríkissjóður þarf að borga í formi borgarlínu til að komast áfram með stofnbrautir á höfuðborgarsvæðinu.

Varðandi rekstrarkostnaðinn, og afsakið hvað ég tala hratt, vil ég bara að það sé áréttað þannig að það sé enginn misskilningur þar um að framúrkeyrsla í fjárfestingum komi ekki úr ríkissjóði og ríkissjóður komi ekki að rekstri félagsins. Það kemur býsna skýrt fram í nefndaráliti í samgönguáætlun en það er ekki alveg eins skýrt hérna.

Þegar kemur að kostnaðaráætlunum skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli hvort heildarfjárveitingar ríkissjóðs til verkefnisins séu (Forseti hringir.) heildarþak eða hvort ríkið ætlar að taka þátt í framúrkeyrslunni þegar þar að kemur. Það er ekki skýrt eins og þetta liggur núna.