150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[13:16]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hægt að gera athugasemd við margt í þessari ræðu, við verðum að pikka smávegis út hérna. Mig langaði til að fá það algjörlega á hreint frá hv. þingmanni hvar skipulagsvaldið á að vera, fyrst fjallað var um það, pínulítið fjálglega, í ræðunni. Miðað við þær kostnaðar- og ábatagreiningar sem við erum með eru þessi verkefni, miðað við þá sviðsmynd sem verið er að fara út í, tæpir 5 milljarðar á ári — 4,6 kannski eða eitthvað svoleiðis, það má raunar reikna það nákvæmlega út, og það er án umhverfisáhrifanna og umhverfiskostnaðar sem er mjög líklega enn meiri ábati miðað við 2 milljarða í rekstrarkostnað. Þar er vissulega ákveðið vandamál sem hv. þingmaður bendir á og varðar tekjur sveitarfélaganna. Allur ábatinn lendir væntanlega meira hjá ríkinu en ekki í tekjum sveitarfélagsins sem slíkum sem gætu notað þann ábata í rekstur á sveitarfélaginu. Það er eitthvað sem vantar almennt séð fyrir sveitarfélögin, að endurskoða tekjustofna sveitarfélaganna. Það er eitt af því sem þarf að koma aðeins betur fram.

Eitt sem komu fram í ræðu hv. þingmanns var „fjárlög ráða“. Það er mjög skýrt í öllu þessu ferli að þegar allt kemur til alls enda fjárframlög til félagsins í fjármálaáætlun, samgönguáætlun og fjárlögum því að ef farið er út í flýtigjöldin, sem er ekki nauðsynlegt til að standa við skuldbindingar ríkisins, væru það skattar og það færi alltaf í gegnum ríkissjóð til félagsins.

Að lokum: Hvað eru stokkar annað en einmitt risastór mislæg gatnamót? Það er fullt af mislægum gatnamótum í þessum samningi.