150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[13:18]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni andsvarið. Ég ætla að leyfa mér að svara spurningunni um kostnaðargreininguna síðast því að ég áttaði mig ekki alveg á henni og bið hv. þingmann að endurtaka hana ef ég fer villur vegar. En fyrst spyr hv. þingmaður varðandi skipulagsvaldið: Hvar á það að liggja? Skipulagsvaldið liggur hjá sveitarfélögunum samkvæmt landslögum en hér er verið að ramma inn samkomulag og í samkomulaginu er gerð grein fyrir framkvæmdum sem sveitarfélög takmarka, þau skuldbinda sig til að útfæra skipulagsmál með ákveðnum hætti á grundvelli samkomulags. Það gerir enginn 120 milljarða samkomulag án þess að skuldbinda sig að einhverju leyti hvað skipulagsmál varðar.

Hv. þingmaður kom inn á orð mín „fjárlög ráða“. Í því samhengi vil ég halda til haga endurskoðunarákvæðum samgöngusáttmálans þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Ef viðræður þykja að mati aðila gefa tilefni til endurskoðunar skulu þeir ákvarða aðgerðir og viðbrögð sem þörf er á til að tryggja framvindu og framkvæmd samkomulagsins í samræmi við markmið þess, þar með talið 3. gr. samkomulagsins um að framkvæmdaáætlun nái fram að ganga eins og kostur er.“

Varðandi ófyrirséðar utanaðkomandi aðstæður skal markmið viðræðna vera það að tryggja að framkvæmdaáætlun nái fram að ganga eins og kostur er. Ég hef aldrei séð samningsaðila binda sig svona niður hvað niðurstöðu samkomulags eða viðræðna varðar.

Hv. þingmaður spyr líka: Hvað eru stokkar annað en mislæg gatnamót? Það er alveg sjónarmið að leggja til jafns mislæg gatnamót og þessa stokka. En ég er hræddur um að kostnaður við þessa stokka verði mjög hár. Ég held að mesti umhverfisábatinn sem í boði er í þessu öllu væri það ef við settum strax fulla fjárveitingu inn í það að uppfæra ljósastýringarkerfi höfuðborgarsvæðisins og minnkuðum þar með þann tíma sem bílar eru stopp á gatnamótum um 20–40%.