150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[13:22]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni andsvarið. Ég held að ekki hafi verið nein spurning í seinna andsvari hv. þingmanns en ég vildi bara koma inn á atriði sem hann byrjaði á og sneri að því að ljósastýringar væru í forgangi. Ég er hér með útprentun framkvæmdaáætlunarinnar. Raunar er ég fyrir einhver mistök bara með fyrstu tíu árin af fimmtán. Það breytir ekki neinu því að mig minnir að seinni fimm árin dragi upp sömu mynd hvað varðar umferðarstýringar, aukið umferðarflæði og öryggisaðgerðir.

Fárveitingarnar í þessu plani eru það sem væri kallað afturþungar. Þær eru umtalsvert lægri per ár á fyrstu fimm árunum en á árum sex til tíu. Það bendir ekki til að sérstakur fókus sé á að þetta verði í forgangi. Ekkert í gögnum málsins, eins og það liggur fyrir núna, bendir til þess. Nú bíðum við eftir því, og ég reikna með að það verði einhverja næstu daga, að það komi skýrsla varðandi ljósastýringarmálið (Forseti hringir.) allt saman frá erlendum aðilum. Í sjálfu sér bíð ég spenntur eftir að taka umræðu um það þegar hún er komin fram. En það er alveg ljóst af framkvæmdaáætluninni (Forseti hringir.) sem liggur hér fyrir að ljósastýring er ekki í forgangi.