150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[13:23]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að spyrja hv. þingmann um hug hans til opinberra hlutafélaga almennt vegna þess að hann talaði töluvert um þau hér og mögulegar hrakfarir í því öllu. Þær virðast nú kannski fyrst og fremst lúta að því að Reykjavíkurborg kunni ekki að fara með peninga og eitthvað hlýtur það að létta af áhyggjum hans að vita að samkomulagið er við sex sveitarfélög, þar af fimm sem stýrt er af Sjálfstæðisflokknum og gjarnan hefur verið samhugur í stefnu þessara tveggja flokka í samgöngumálunum.

En ég vildi spyrja almennt um hlutafélögin vegna þess að ef hv. þingmaður er að lýsa áhyggjum af því hvernig opinber hlutafélög takast almennt á við að halda utan um svona verkefni þá deili ég þeim tiltekna hluta með honum. Ég vísa þar ekki síst í það sem við þekkjum bæði úr störfum okkar í umhverfis- og samgöngunefnd sem eru hrakfarir Íslandspósts undanfarin ár og þar með hrakfarir íslenskra skattgreiðenda.

Ég velti því upp, burt séð frá þessu tiltekna máli sem er heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu til að heiðra þetta samkomulag sex stórra sveitarfélaga og ríkisins, hvort opinber hlutafélög séu rétti kosturinn hér. Það er ljóst að til þess félagaforms var stofnað til að auka sveigjanleika í rekstri og auka gegnsæi. Dæmin hafa einhvern veginn a.m.k. of mörg verið á annan veg. Ef hv. þingmaður treystir sér til að víkja frá þessu tiltekna efnisatriði og fókusera á utanumhaldið þá hef ég nefnilega áhuga á því að við ræðum ábyrgð okkar þingmanna þegar kemur að opinberum hlutafélögum vegna þess að þótt hið eiginlega hlutafélag, oft 100%, í þessu tilfelli 75%, sé hjá fjármálaráðherra, situr hann í umboði okkar og við höfum vald til að mæta á aðalfundi, spyrja spurninga og fylgjast með. Við höfum ekki sinnt því um önnur opinber (Forseti hringir.) hlutafélög þannig að ég hefði áhuga á að heyra þær hugleiðingar um opinber hlutafélög almennt í því ljósi.