150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[13:30]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Ætli ég væri ekki í þessu samhengi einhvers lags steinbítur eftir sprengingarnar sem þurfti til að komast undir Hvalfjörð og klappirnar þar neðan sjávar.

Ég vil halda því til haga að í öllum mínum ræðum um samgönguáætlun, sem voru auðvitað allt of fáar, nefndi ég ekki moldvörpusjónarmið hv. þm. Sigríðar Á. Andersen sem voru einmitt (Gripið fram í.) bráðsniðug. Nei, ég kom reyndar inn á það í ræðu minni hérna áðan. Það sem ég hef áhyggjur af varðandi stokkana er eðli framkvæmda í þéttbýli, kostnaðaráætlun verkefnis eins og þessa, sem sagt stokkagerðar á Miklubraut til dæmis, að flækjustigið verði alveg gríðarlegt og kostnaðaráætlanir verði á endanum svolítið í takti við hlutfallið sem við þekkjum úr braggaverkefninu og þar er ég bara að reyna að tala sem vinur skattgreiðenda. Ég hef miklar áhyggjur af þessu, (Forseti hringir.) að þetta sé ofboðslega flókið verkefni sem þarna er verið að takast á hendur og þar á auðvitað eftir að taka til þess hver á landið sem skapast, (Forseti hringir.) hver nýtur tekna af því og þar fram eftir götunum. Það eru smáatriði en moldvörpurnar eiga það örugglega ekki.