150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[13:31]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Hvað gerir blankur borgarstjóri sem situr í fjárhagslegum rústum höfuðborgar Íslands og sárvantar pening til að uppfylla kosningaloforð sín, sem vel að merkja eru líklega sverustu kosningaloforð sem gefin hafa verið fyrir nokkrar kosningar á Íslandi, ekki bara einu sinni heldur tvisvar? Kosningaloforðin voru sett upp á miklar glærusýningar þar sem sjá mátti einhver farartæki sem líktust helst lestarvögnum. Fólk í sólskini sást stíga upp í farartækin og sjá mátti glitta í lestarteina undir þeim. Þegar blanki borgarstjórinn sér að hann á ekki séns á að standa við þau kosningaloforð, hvað gerir hann þá, herra forseti? Hann hringir í vin. Hver er vinur borgarstjórans í þessu tilfelli? Hver er sá sem ætlar að taka að sér að fjármagna þessi villtu kosningaloforð borgarstjórans í Reykjavík, sem var reyndar felldur tvisvar en reistur upp jafnharðan af bitlingaglöðu fólki? Jú, það er Sjálfstæðisflokkurinn sem ætlar að fjármagna þessi kosningaloforð.

Herra forseti. Til er bandarískt orð um þetta. Sjálfstæðisflokkurinn, með fjármálaráðherra í broddi fylkingar, ætlar að vera sykurpabbi borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík í þessu máli og allt er lagt undir. Lagt er undir að selja dýrmætustu eign höfuðborgarsvæðisins sem er Keldnalandið, afsala sér skipulagsvaldi yfir því á allan hátt, og það er gengist undir það að leggja til 50 milljarða kr. úr ríkissjóði bara í framkvæmdirnar á næstu árum, og til hvers? Til að uppfylla kosningaloforð borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík.

Utan um þetta allt saman á að setja opinbert hlutafélag. Og ég verð að segja, herra forseti, að strax þar hringja viðvörunarbjöllur. Nú á að taka enn eitt málefnið, rífa það frá kjörnum fulltrúum og setja það bak við luktar dyr opinbers hlutafélags, sem vel að merkja, herra forseti, hefur reynst afleitlega á Íslandi til þessa. Ég þarf ekki að nefna nema tvö dæmi, RÚV og Póstinn. Inni í opinberum hlutafélögum, herra forseti, lokast upplýsingar, þær verða ekki aðgengilegar. Nú liggur fyrir þinginu, ef mér skjöplast ekki, fyrirspurn um uppreiknaðan framkvæmdakostnað nýjasta opinbera hlutafélagsins sem er uppbygging nýs Landspítala. Ekki hefur fengist svar við þeirri fyrirspurn svo mér sé kunnugt um. Ég held að það sé ekki á leiðinni. Sporin hræða ekki bara, þau skelfa þegar þetta er tekið upp. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór ágætlega yfir það valdaframsal sem er í þessu máli frá kjörnum fulltrúum til hins sameinaða hlutafélags og fór mjög gaumgæfilega yfir það hvernig öll þau tök sem stjórnmálamenn hafa á þeim áætlunum og þeim gerðum sem þeir eru að stuðla að hér fara til einhverra embættismanna sem þarna verða væntanlega ráðnir.

Nokkur atriði í samkomulaginu sem gert var síðasta haust vekja athygli mína. Undir liðnum um markmið er fyrsti punkturinn að stuðla að greiðum, skilvirkum, hagkvæmum og öruggum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta. En það er ekki verið að vinna alveg eftir þessu. Það er t.d. ekki verið að vinna eftir þessu ákvæði hvað varðar flugvöllinn í Vatnsmýri, herra forseti. Það er verið að þrengja að honum þangað til hann verður úr sögunni og það er ekki gott. Einnig er sagt um markmið að eitt af því sem muni stuðla að því að ná loftslagsmarkmiðum stjórnvalda um sjálfbært, kolefnishlutlaust borgarsamfélag sé deilihagkerfi í samgöngum. Ég verð að spyrja, herra forseti: Hvernig á deilihagkerfi í samgöngum að stuðla að kolefnishlutlausu samfélagi? Deilihagkerfi í samgöngum er, eftir því sem ég best veit, apparat sem er kallað Uber í útlöndum. Ef það kæmist á hér þá myndi bílum sem venjulega stunda leiguakstur fjölga um heil ósköp. Hvernig á fjölgun ökutækja hér að stuðla að kolefnishlutleysi? Þetta þykir mér ekki góð tíðindi. Beint framlag ríkisins verður 2 milljarðar á ári í 15 ár, 30 milljarðar í beint framlag.

Allt í einu stakk upp kollinum í morgun, herra forseti, af því að hér hefur verið rætt um stofnkostnað borgarlínu og það fer ekki mikið fyrir rekstraráætlunum, agnarlítil frétt í Morgunblaðinu þar sem segir að árlegur kostnaður við borgarlínureksturinn verði 3 milljarðar kr. Loksins kom talan upp á yfirborðið. Rekstrartala Strætós er samkvæmt sömu frétt 7 milljarðar. Það er engin tilraun gerð í þessari frétt, enda kannski ekki pláss, til að útskýra hvernig, í hvað, hvar og hvernig. Það sem við vitum er að í næstu 15 ár hið minnsta verða rekin tvö samgöngukerfi í Reykjavík, Strætó eins og hann er og borgarlína. Það hefur gengið furðuerfiðlega að fá á hreint hvað borgarlínan er raunverulega. Í upphaflegu glærusýningunum, leiktjöldunum, minnti uppsetningin á léttlest en nú er komið í ljós, sem betur fer, að þetta er ekki léttlest, enda ekki pláss fyrir hana. En það sem hræðir hins vegar er að menn segja að þetta eigi að verða til þess að flýta för þeirra sem nota almenningssamgöngur vegna þess að lagðir verði rauðir dreglar um alla borg í forgangsakstri fyrir þessa vagna. Ég held að nú sé loks komið í ljós að vagnarnir verða líklega á við tvo strætisvagna að stærð og taka þá til sín drjúgt pláss og láta frá sér drjúgt af útblæstri. Hugsanlegt er að þeir verði rafknúnir. Það þýðir að vetnið og metanið sem við erum að framleiða og eigum ofgnótt af, kemst ekki í vinnu þarna heldur, sem er mikill skaði. Þarna hefði verið upplagt tækifæri til þess. Það verður ekki notað.

Það blasir við í þessu samkomulagi að það er gert milli tveggja aðila, þess sem þiggur og þess sem borgar. Það er eins og aðilinn sem þiggur hafi verið í aðalhlutverki af því að hér er bara slegið upp að setja eigi tvær götur í stokk, Miklubraut á stórum parti og Sæbraut af öllum stöðum. Það er nú drjúgt pláss í kringum Sæbrautina. En nei, hún skal í stokk líka og ríkið borgar. Ég verð að taka undir áhyggjur sem komu fram í orðum þess ágæta þingmanns sem tók til máls á undan mér og ekki bara hans heldur líka prófessors Jónasar Elíassonar sem varar mjög við því að framkvæmdir við stokk við Miklubraut, við Klambratún og þar í grennd, verði afskaplega erfiðar. Það þarf að lesa sig niður í gegnum ótal lög af lögnum og í grunninn er þetta auðvitað mýri, herra forseti. Það verður þrautin þyngri að koma fyrir stokk við þær aðstæður og þær kostnaðartölur sem nefndar hafa verið held ég að séu mjög óraunhæfar. En það er bara í takt við það sem er hér í þessu að mörgu leyti, að kostnaðartölur eru mjög á reiki.

Það sem einnig vantar inn í samkomulagið er ákvæði um Sundabraut. Það kom fram í ágætu andsvari hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson áðan þar sem hún spurði ágætan þingmann sem kemur akandi frá Akranesi á hverjum degi hvort það væri bara ekki munur að keyra Miklubraut í stokk. En ef Sundabraut væri komin myndi þessi hv. þingmaður væntanlega ekki keyra Miklubraut, hann myndi keyra Sundabraut og koma upp einhvers staðar í Laugarnesinu. Það er að vísu búið að eyðileggja það mjög mikið því búið er að selja landtökusvæði Sundabrautar hérna megin, þ.e. Holtamegin, í hendur fjárplógsmanna sem eru búnir að byggja þar svo þétt að þar kemst enginn á milli nema fuglinn fljúgandi, eins og var sagt í kvæðinu um Búkollu.

En það er greinilegt á öllu að hér á ríkið að taka til og hjálpa þessari ágætu höfuðborg okkar sem er í hengjandi vandræðum fjárhagslega. Síðan á að leggja nýtt land undir umferðarmannvirki og ég hélt reyndar að það væri eitthvað sem við ætluðum ekki að gera núna en jú, þá á að leggja nýtt land undir borgarlínu í gegnum Keldnaholt og Blikastaðaland. Það hélt ég, herra forseti, að við hefðum ekki ætlað að gera. Ég hélt við hefðum ætlað að reyna að samtvinna borgarlínu þeim meginumferðarstoðum og stofnbrautum sem við höfum á svæðinu en svo er ekki.

Ég orðaði það í ræðu hér held ég í gær, hugsanlega tvisvar, að það er vandséð hvernig borgarlína á að virka, t.d. áfangi nr. 1, sem er 13 km langur og nær frá Höfða í norðri að Hamraborg í Kópavogi í suðri með hringkeyrslu í kringum höfuðborgarsvæðið, alls 13 km. Þessi angi borgarlínu á að stoppa á 20 eða 25 stöðum á leiðinni á þessum 13 km og þá segi ég aftur, herra forseti: Sá sem ætlar sér að komast með fljótum hætti þessa leið verður alveg örugglega fyrir vonbrigðum þurfandi að keyra þessa 13 km sem farþegi ef hann er á leið frá Höfða og suður í Hamraborg.

Herra forseti. Þetta óttast ég mest og mér eiginlega brá mest við þetta í þeim ágætu umræðum sem hér hafa átt sér stað undanfarið um samgönguáætlanirnar tvær. Ýmislegt kom upp sem menn höfðu kannski ekki alveg gert sér grein fyrir áður og eitt kom fram í síðustu viku þegar sett var upp mikil sýning í Ráðhúsi Reykjavíkur um borgarlínuna og hennar ágæti. Það er einmitt úr þeirri kynningu sem þessi mynd mín af ferðalaginu frá Höfða til Hamraborgar í Kópavogi er fengin. Á þessari leið eiga þessir vagnar, sem ég held að ég sé ekki að skrökva að séu jafn tröllauknir og ég hef lýst, að keyra niður Hverfisgötu, Lækjargötu og Skothúsveg. Ég spyr mig, herra forseti: Hvernig eiga þessir risavöxnu bílar að komast þessa leið? Nú er búið að byggja Hverfisgötu upp loksins með þokkalegum hætti. Þarna er fólk að flytja inn, fólk með börn, og þarna verður stöðug umferð þessara ferlíkja fram og aftur götuna frá morgni til kvölds. Það, herra forseti, er áhyggjuefni.

Ég ætla að taka af öll tvímæli um það að við Miðflokksfólkið erum ekki andstæðingar almenningssamgangna, síður en svo. Eitt af meginkosningamálum flokksins fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar var að gjaldfrítt yrði í strætó. Með því yrði gerð tilraun til þess að sjá hvað slíkt hefði í för með sér, slík tilhliðrun á gjöldum, vegna þess að við erum, þ.e. ríkissjóður, á níu árum búin að eyða 9 milljörðum til að koma nýtingu almenningssamgöngufarartækja á höfuðborgarsvæðinu úr 4% í 4%. Við erum búin að eyða 9 milljörðum á níu árum í engan árangur. Það er þetta, herra forseti, sem ég óttast. Nú á, ef ég skil rétt, að koma þessari prósentu upp í 12% sem er mjög virðingarvert. Til þess á að verja þessum peningum, 15 milljörðum, 30 milljörðum frá ríkinu og söluandvirði Keldnalands, alls 45 milljörðum. En þetta er miðað við það að áætlanir um uppbygginguna og kostnað við hana standist. Ég verð að segja, herra forseti, miðað við það sem sést hefur hingað til af kostnaðarforsendum og rekstrarforsendum, að ég óttast mjög að þær áætlanir muni ekki standast. Ég óttast mjög að samkomulagið sé ekki nógu vel varðað og ríkissjóður ekki nógu vel varinn í því. Ég óttast það mjög. Ég endurtek að það er kannski það versta af öllu vondu að setja þetta samkomulag og þetta fyrirtæki og þennan rekstur í opinbert hlutafélag.

Þetta er kannski bara eitt dæmi enn um það að stjórnmálamenn þori ekki að stjórna. Þeir þora ekki að taka ákvarðanir, þeir selja ákvarðanavaldið í hendur einhverra sem þurfa ekki með sambærilegum hætti og stjórnmálamenn að standa frammi fyrir því að bera ábyrgð á sínum gerðum. Hvað sem um stjórnmálamenn má segja þá fara þeir þó í starfsmannaviðtal á fjögurra ára fresti, ekki satt? Kjósendum, sem við vinnum jú fyrir, gefst kostur á að segja hug sinn um það hvort við séum á vetur setjandi eður ei. Það er ekkert slíkt fyrir stjórnendur í opinbera hlutafélaginu um almenningssamgöngur í Reykjavík. Það mun litlu skipta hver árangurinn verður eða hvernig hann verður, hvort það verður framúrkeyrsla eða hvað. Engin breyting verður á högum þeirra við það. Hins vegar sitja allir skattgreiðendur á Íslandi uppi með þann kostnað sem verður, með þann kostnaðarauka, sem hugsanlega verður óbættur.

Með þessum orðum, herra forseti, lýk ég fyrstu ræðu minni í þessari umræðu en ég hef grun um að þær gætu orðið fleiri.