150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[13:51]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla að leggja svolítið fleiri orð í belg um frumvarpið sem hér liggur fyrir en við ræðum heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Fulltrúi Miðflokksins í fjárlaganefnd, hv. þm. Birgir Þórarinsson, skilaði ítarlegu séráliti varðandi frumvarpið þar sem hann fagnaði því að hugsanlega væri kominn farvegur og farsæl lausn við að byggja upp samgöngur á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar. Þar er margt ófrágengið og mörg verk óunnin og löngu tímabært að hefja framkvæmdir við að koma samgöngum á höfuðborgarsvæðinu til betri vegar. Við í Miðflokknum fögnum því að komin sé hreyfing á það mál og löngu tímabært. Hins vegar teljum við að áform um borgarlínu séu vanhugsuð, að verkefnið sé gífurlega kostnaðarsamt og leiði alls ekki til þeirrar hagkvæmni sem eðlilegt sé að gera kröfur um.

Við teljum að þarna sé fé skattborgaranna illa varið, herra forseti. Það er mergurinn málsins. Við erum hér að gagnrýna þessar hugmyndir með réttmætum hætti, höfum fundið að ýmsum þáttum varðandi borgarlínu og ekki að ósekju, virðist vera. Þarna á að fara í tugmilljarða framkvæmdir við loftkastala á kostnað skattgreiðenda og það er ekki einungis þessi stofnkostnaður, sem að margra mati er verulega vanmetinn, heldur gæti rekstur þessara vagna einnig orðið klafi á sveitarfélögunum og jafnvel ríkinu. Hugmyndir og útfærslur eru af skornum skammti, eins og kom berlega fram í grein í Kjarnanum sem Þórarinn Hjaltason umferðarverkfræðingur ritaði. Þar lýsti hann hugmyndum um borgarlínu og framsetningu á vefsíðu verkefnisins, borgarlinan.is, sem áróðurskenndri.

Herra forseti. Það er ekki gott, ef við erum að ræða hér á þingi um fjárútlát ríkisins til hinna ýmsu verkefna, að við séum að hlaupa eftir einhverjum áróðri, að það sé einhver hugmynd sem byggist á óljósum hugmyndum og sett fram með áróðurskenndum hætti, að við séum að hlaupa þar til gagnrýnislítið. Því tel ég þá umræðu sem við í Miðflokknum höfum leitt hér á þingi mjög svo tímabæra. Sem betur fer hafa nokkrir tekið undir og sem betur fer hafa þeir sem best þekkja, verkfræðingar og þeir sem hafa vit á, látið í sér heyra síðustu daga. Ég fagna umræðu um þetta og ég held að allir ættu að fagna þeirri umræðu því að þar gætu komið fram ábendingar sem gætu leitt til þess að fundin verði betri eða farsælli lausn á þessu máli. Staðreyndin er sú að við viljum öll, ég hef a.m.k. ekki heyrt neinn andmæla því, að hér séu öflugar almenningssamgöngur. Það hefur enginn komið hér og talað á móti þeim almennt.

Minni hluti fjárlaganefndar telur óforsvaranlegt að ráðstafa tugum milljarða í þennan hluta verkefnisins og sérstaklega minnist hann á að þar liggi engin rekstraráætlun fyrir. Það er að sjálfsögðu mjög einkennilegt, herra forseti. Þeir sem standa í rekstri, í verslunarrekstri eða öðrum fyrirtækjarekstri í einkageiranum, sem eru mýmargir sem betur fer, fara ekki út í rekstur nema þeir reyni að gera sér grein fyrir því fyrir fram hverjar tekjurnar verða og hver útgjöldin verða og hvort þeir muni hafa arð eða laun fyrir sig með því að fara út í slíkan rekstur. Það er ekki nokkur sjoppueigandi sem ekki er búinn að leggja þetta niður fyrir sér áður en hann ræðst út í þá fjárfestingu að kaupa slíkan rekstur. Það er ótrúlegt að við séum að fara út í rekstur á svona viðamiklu kerfi — og þeir kalla þetta hátæknilegt og hafa ýmis slík orð um þetta, þeir sem eru að kynna okkur borgarlínuna; verkefnið er mjög viðamikið og metnaðarfullt í þeirra huga og á að standast samkeppni við það sem best gerist erlendis — án þess að hafa lagt það niður fyrir okkur hverjar tekjurnar gætu orðið og ekki síður útgjöldin.

Við vitum reyndar nokkurn veginn hverjar tekjurnar gætu orðið vegna þess að það eru 4% sem nota almenningssamgöngur. Það má kannski ímynda sér að hægt sé að auka það upp í 5% eða jafnvel 6% og hugsanlega 8%, og þá er hægt að setja það niður fyrir sér hversu miklar tekjur koma af þeirri notkun, hversu stóra vagna þarf, hversu marga, hversu tíðar ferðirnar verða o.s.frv., miðað við gefnar forsendur upp á notkunina. En það hefur enginn áhyggjur af því. Hver eru útgjöldin? Hvað kostar að reka þetta? Hvað kosta þessir vagnar? Hver er viðhaldskostnaður við þessa vagna, hver er launakostnaðurinn, viðhaldskostnaðurinn, endurnýjunarkostnaðurinn o.s.frv.? Og hvað með viðhaldið á kerfinu sjálfu, þ.e. gatnakerfinu, þessum rauðu dreglum sem eiga að vera undirlag undir þessa vagna? Það hefur enginn áhyggjur af því. Af hverju hafa menn ekki áhyggjur af því? Við erum gæslumenn ríkissjóðs og mér finnst að við eigum að taka það alvarlega. Mér finnst að við eigum ekki að samþykkja að fara út í svona viðamiklar framkvæmdir þegar ekki liggja fyrir jafnmikilvæg atriði og það hvernig reksturinn verður.

Meðan menn fóru í andsvör á fyrri stigum umræðu um samgönguáætlun sögðu nokkrir hv. þingmenn: Hvað kemur okkur við með reksturinn? Hvað kemur ykkur það við? Er það ykkar vandamál? Er það okkar vandamál? Já, segi ég. Það er okkar vandamál, það er vandamál allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit ekki betur en að ríkissjóður hafi lagt heilmikið fé til almenningssamgangna síðasta áratug þannig að auðvitað kemur okkur þetta við. Eiga menn bara að vera svona léttúðugir að það sé bara rokið í einhverjar framkvæmdir án þess að hugsa verkið til enda? Hvað tekur við þegar þetta er búið? Þá þarf að reka þetta. Og við höldum áfram að reka eldra kerfið, strætisvagnakerfið sem nú er, því að það á að veita straumum fólks, þessara 4% sem nota almenningssamgöngur, að borgarlínunni þannig að þeir verða áfram í rekstri. Hvað kostar það? Hverjar eru tekjur og hver eru gjöld? Við höfum áhyggjur af þessu og okkur finnst það réttmætt. Okkur finnst skattgreiðendur eiga það inni hjá okkur að við veltum þessu upp og tölum um þetta og eyðum tíma í þetta hér á Alþingi í staðinn fyrir að stökkva á einhverja hugmynd, afgreiða hana og skeyta ekkert um hvað verður þegar framkvæmdir eru búnar.