150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[14:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir innblásna ræðu og töluvert mikinn fróðleik um strætó. Ég man reyndar vel eftir því að það var mjög spennandi að koma norðan af landi og fara í strætó í Reykjavík, sem mig minnir að hafi verið þá ljósgrænn með brúnum gervileðursætum, fyrst þegar maður fór í þetta. En þetta var mjög spennandi tæki, gríðarleg spennandi. Ég er mjög hissa á því ef það er þannig að fólk líti á strætisvagna eða almenningssamgöngur sem einskis virði. Það er mjög undarlegt. Ef fólk hefur einhverja óbeit á strætisvögnum eða almenningssamgöngum finnst mér líka mjög sérstakt því að það er alls ekki málið, alla vega vona ég að það hafi ekki skilist þannig af mínum ræðum um þetta mál til þessa. Ég er alls ekki á móti því.

Ég hef hins vegar miklar áhyggjur af því, og mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það séu óþarfa áhyggjur, að þessi framkvæmd sem borgarlína er og öll sú hugmynd hafi hugsanlega ekki neinn endapunkt varðandi kostnað. Ég er að reyna að átta mig á því hvað borgarlínan kostar þegar upp er staðið. Hvað kostar að reka borgarlínu? Hverjir munu reka borgarlínu? Hverjir munu borga umframkeyrsluna af framkvæmdinni? Það eru þessir hlutir og margir aðrir sem ég hef verið að velta upp. Það er bara vegna þess að ég hef áhyggjur af því að ríkissjóður muni þurfa að koma þarna að með einhverjum hætti. Í ljósi þess að tekjur ríkissjóðs hafa minnkað töluvert mikið, það er mikill halli á ríkissjóði núna, hef ég áhyggjur af því að fjármunirnir verði ekki til staðar eða þá að fjármunir verði skuldbundnir í þetta og það komi niður á annarri þjónustu ríkisins vegna þess að við notum ekki sömu fjármunina oft. Ég held að við gerum okkur öll grein fyrir því.

En ég er sammála þingmanninum. Ég hef áhyggjur af því ef fólk hefur óbeit eða andstyggð á eða þykir strætó einskis virði. (Forseti hringir.) Þetta er samgöngumáti sem er mjög mikilvægur.