150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[14:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var einn af þeim sem nefndu ókeypis í strætó, í einni af mínum frábæru ræðum. Ég nefndi hins vegar í því samhengi að ég vildi hafa ókeypis í strætó tímabundið til að kenna fólki að nota hann, freista þess að fá fólk til að fara í strætó þannig að það sæi hann sem valkost. Ekki vegna þess að hann væri svo ómerkilegur eða eitthvað slíkt. Það er kannski hægt að taka ákvörðun um að fara í svo stóra framkvæmd sem hér um ræðir þegar við vitum að fólk er tilbúið að nota þetta system, ef má orða það þannig.

Mér finnst skipta gríðarlega miklu máli hvort hlutur ríkissjóðs — ég ætla ekki að hafa vit fyrir sveitarfélögunum, þau verða bara að bera sinn kostnað sjálf — verði 50 milljarðar eða 200 milljarðar. Við höfum bent á svipað dæmi frá Noregi þar sem áætlað var að kílómetrinn myndi kosta, held ég, 1,2 milljarða en kostaði 3 til 4 milljarða og niðurstaðan varð ekki 50 milljarðar heldur yfir 200 milljarðar í Noregi. Mér finnst þetta bara allt of mikil áhætta fyrir ríkissjóð að taka. Ég er mjög undrandi á því að þingmenn séu tilbúnir að taka slíka áhættu án þess að hafa hugmynd um hvað svona stór framkvæmd muni kosta á endanum. Auðvitað eru einhver vikmörk í þessu. Auðvitað vitum við að það getur farið eitthvað til og frá en að það séu tugir milljarða eða menn hafi ekki neina hugmynd um það er ekki hægt að fallast á.

Ef við getum hins vegar rammað inn áhættu ríkissjóðs í þessu máli, skilið áhættuna eftir, sem mér finnst eðlilegra, hjá þeim sem keyra málið áfram, sem vilja málið áfram, hjá þeim sem munu ráða framkvæmdinni og stýra allri þróun á þessu, sem eru auðvitað sveitarfélögin, er það annað. Þau verða að taka þá áhættu. Okkar á Alþingi er að passa hag ríkissjóðs og passa að þessi framkvæmd sé vel römmuð inn. Mig langar ekki til þess en ég er tilbúinn til þess að taka umræðu í þessum þingsal um alla þá fjármuni sem þarf mögulega að færa annars staðar frá inn í þetta verkefni af því að það fór svo langt fram úr áætlun, af því að menn voru ekki að vanda sig nógu mikið. Af því að mönnum var sama um hvað þetta ætti að kosta.