150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[14:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir mér fréttir ef það er ekki áhersla á að nútímavæða ljósastýringar. Skilningur minn er sá að það sé í fullum gangi. Reyndar frétti ég af því fyrir tilviljun, bara sem óbreyttur borgari, vegna þess að ég fékk hugmynd um hvernig væri hægt að búa til app til að hjálpa til við það og sendi erindi á einhvern aðila hjá Reykjavíkurborg. Viðkomandi sagði mér að þau væru að skoða lausnir sem væru byggðar á allt annarri hugmynd en minni. Ég féll þá frá hugmynd minni enda mun frumstæðari og ekkert svo góð þegar betur var að gáð. Þannig virka nú hugmyndir, tíu af hundraði eru stundum betri en níu af tíu.

Alla vega skil ég það svo að áhersla sé á að nútímavæða ljósakerfið í Reykjavík, gera það tölvustýrt þannig að t.d. sé hægt að greina umferð. Og það á að gera alls konar tilraunir á því hvernig hægt er að bæta það. Ég get alveg trúað því að hægt sé að liðka fyrir umferð um 20%. Ég geri nú ráð fyrir því að þar sé svolítið skotið út í loftið en það kæmi mér ekkert á óvart.

Nú datt úr mér seinni spurning hv. þingmanns (BergÓ: Það var 4%.) Já, hvað valdi því að okkur hafi ekki tekist að hækka mikið hlutfall farþega í strætó. Ég held satt best að segja að það sé áratugalangur bölmóður yfir því að strætó sé algerlega glataður kostur. Ég held að það sé langstærsti þátturinn í því hvers vegna erfitt hefur reynst að fá fólk til að nota strætó — sem er reyndar heldur ekki alveg 100% satt, fullt af fólki er að prófa að nota strætó og hefur verið prófa hann meira í gegnum tíðina. Það er alla vega mín reynsla.

Sömuleiðis er annað sem ég held að hafi sálfræðileg áhrif. Landið okkar heitir Ísland og Íslendingar virðast upp til hópa halda að veðráttan hér sé alveg ægilega vond. Hún er það ekki. Veðrið í Reykjavík er ekkert sérstaklega slæmt. Það kemur einstaka óveður eins og annars staðar. Eins og annars staðar er jú klaki og snjór stundum á veturna en ekki alltaf. Vindurinn hér er ekkert merkilegri en í Manitoba. Ég held það sé bölmóðurinn, ég held að það sé (Forseti hringir.) viðhorfið að strætó sé ómögulegur (Forseti hringir.) vegna þess að við búum hér á Íslandi og að þetta sé allt of dýrt og ómögulegt. Ég held bara að mest af þessu sé (Forseti hringir.) einfaldlega ekki efnislega rétt.