150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[14:43]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni svarið. Ég held að hv. þingmaður komi fram með mjög áhugaverða vangaveltu varðandi bölmóðinn og þessa almennu tilfinningu og ímynd almenningssamgangna. Það skýrir kannski að einhverju marki hvernig málefni borgarlínu hafa verið sett fram. Hér í umræðunni um samgönguáætlun hefur töluvert verið rætt um að þau séu mikið keyrð áfram á ímyndarlegum forsendum. Ég kom inn á það í einni af ræðum mínum og ég get ekki lýst því öðruvísi en að mér finnist alveg geggjað að á morgun eigi að kynna niðurstöðu þess hvernig stólarnir í biðskýlunum verða hannaðir en ekki er til rekstraráætlun fyrir „prójektið“. Ég hef talið þetta allt unnið í dálítið öfugri röð miðað við hver lógísk framvinda mála sem þessara er.

Sennilega hittir hv. þingmaður naglann á höfuðið þegar hann segir að þetta snúist mikið um „PR“ og ímynd almenningssamgangna. Þá velti ég fyrir mér hvort þingmaðurinn telji að þau ímyndarlegu áhrif breytist við það eitt að til verði þetta aukalag almenningssamgangna, borgarlína. Auðvitað eiga hverfisstrætóarnir að fæða borgarlínu þannig að margir hverjir þurfa bæði að fara í strætó sem keyrir hægt og fer sjaldan og treysta síðan á að hitta á strætóinn sem fer hratt og oft. Telur þingmaðurinn mögulega að tækifæri fælist í því að fara sér aðeins hægar við uppbygginguna og setja þá kannski heldur meiri kraft í að útskýra hversu gott veðrið er hérna og almenn ímyndarmál almenningssamgangna? Ég sé ekki að það sé í eðli sínu að fara að breytast við þær framkvæmdir upp á 50 milljarða sem er verið að reyna að ramma inn núna.

Mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns hvað þetta varðar, hvort þetta snúist kannski á endanum fyrst og fremst (Forseti hringir.) um „PR“ og ímyndina.