150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[14:48]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Í fyrstu ræðu minni um þetta mál fór ég yfir eðli þessa opinbera hlutafélags sem verið er að stofna. Ég held að ég hafi ekki verið búinn að nefna borgarlínu á nafn, enda snýst þetta um miklu meira en bara borgarlínuna. Þetta snýst um prinsipp þess sem verið er að gera hér með því að stofna í raun nýtt ríki í ríkinu, opinbert hlutafélag með ótrúleg völd, félag sem fer með samgönguverkefni á höfuðborgarsvæðinu, tekur með öðrum orðum valdið frá kjósendum, frá almenningi, á sviði samgöngumála og færir það inn í hið nýja ríki þar sem enginn er kosinn. Þetta ríki mun líka halda utan um fjármögnun þessara samgönguverkefna. Það sem almennt á heima á Alþingi og ekki annars staðar, fjármögnun verkefna, nema að því leyti sem það tilheyrir sveitarfélögum, verður á hendi þessa nýja ríkis. Það mun sjá um að hrinda uppbyggingunni í framkvæmd og sjá um framkvæmdina sjálfa. Það mun hafa yfirumsjón með áætlunargerð og áhættustýringu. Og nú er orðið býsna fátt eftir fyrir kjósandann eða stjórnmálamennina, fulltrúa þeirra, að gera á sviði samgöngumála.

En nýja ríkið á líka að fá vald til að reka á eftir sveitarfélögum sem þá verða nokkurs konar nýlendur nýríkisins. Ef sveitarfélögin fylgja ekki stefnunni eftir, réttri stefnu, eins og hún er túlkuð af þessu ríki, þá á það að fylgja því eftir að þau breyti um stefnu. Ríkið mun líka sjá um innheimtu gjalda, hafa vald til að leggja gjöld á almenning, svokölluð tafagjöld sem nú er farið að reyna að endurskíra flýtigjöld af því að hitt orðið var of lýsandi fyrir hvað við væri átt. Ríkið mun líka reka sérstakt fasteignafélag, það verður hluti af þessu félagi, fara í fasteignabrask með eina verðmætustu lóð landsins. Jafnvel hefur verið nefnt að aðrar eignir ríkisins, eins og Íslandsbanki, renni inn í þetta nýja ríki. Því verður heimilt að stofna dótturfélög, fjölga sér, ef talin er þörf á því, stofna ný undirríki. Þegar frá var horfið var ég einmitt kominn að greininni um fasteignafélagið, 7. gr., þar sem þessu er lýst mjög afdráttarlaust. Ég held því að ég leyfi mér að lesa nokkrar línur beint upp úr frumvarpinu. Undir fyrirsögninni Yfirtaka og þróun lands segir, með leyfi forseta:

„Félagið skal með sérstökum samningi við ráðherra taka við landi í eigu ríkisins ásamt þeim réttindum og skyldum sem því tengjast og telst það hluti af hlutafjárframlagi ríkisins. Í samningnum skal m.a. ákvarða afmörkun lands og skilyrði afhendingar þess til félagsins. Allur ábati af þróun og sölu landsins skal renna óskertur til verkefnisins um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Félagið skal annast þróun landsins í samvinnu við skipulagsyfirvöld með það að markmiði að hámarka virði landsins og uppbyggingarmöguleika þess eins og kostur er.“

Hér hef ég ekki tíma til að rekja sögu sambærilegra samninga. Þeir eru reyndar engir sambærilegir en þegar ríkið afhenti land undir Reykjavíkurflugvelli með ákveðnum skilyrðum þá gekk það ekki eftir að staðið væri við þau, að því er virðist.

Þá erum við komin að 8. gr., herra forseti, og ekki batnar það. Hún snýst um heimild til lántöku o.fl., eins og segir í fyrirsögn:

„Félaginu er heimilt að taka lán umfram það sem fjármagnað er með framlögum til félagsins, rúmist það innan heildarfjárfestingar og sé metið hagkvæmt fyrir framgang uppbyggingar á samgönguinnviðum og annarra verkefna félagsins. Lántaka er háð því skilyrði að ríkissjóður veiti félaginu lán eða veiti ríkisábyrgð verði lán tekið frá öðrum aðila.“

Þetta nýja ríki er svo vel í sveit sett að það hefur heimild til að taka lán umfram það sem lagt er inn í félagið, umfram möguleikana á að skattpína almenning hér á höfuðborgarsvæðinu enn meira en verið hefur, og þau lán skulu vera ríkistryggð með einum eða öðrum hætti af íslenska ríkinu.

Og 9. gr., um slit félagsins:

„Félaginu skal slitið þegar það hefur lokið verkefnum að fullu …“

Hvenær ætli verkefnum verði að fullu lokið? Hvenær ætli verði búið að ljúka við, og nú nefni ég það, borgarlínu? Má ekki heita öruggt að í ljósi reynslu annarra borga af slíkum verkefnum fari það ekki aðeins langt fram úr kostnaðaráætlun heldur muni engin tímamörk standast? Hér getur ástandið jafnvel orðið þannig eftir áratugi, og ég minni á að það var verið að tala um 15 ár. Það getur hæglega allt farið úr böndunum og ekki verið hægt að slíta félaginu því að annaðhvort sé ekki búið að klára verkefnin eða, sem kannski er ekki síður líklegt, búið að finna ný verkefni, stækkun borgarlínu eða eitthvað slíkt.

Svo kemur afar áhugaverð setning sem útskýrir kannski fyrir okkur til hvers refirnir eru skornir, hafi menn ekki verið búnir að átta sig á því. Í frumvarpinu segir:

„Fram að stofnun félagsins annast verkefnisstofa um borgarlínu í samstarfi við Vegagerðina undirbúning verkefnisins um uppbyggingu á samgönguinnviðum.“

Hafi einhver efast um hvert væri aðalatriðið og til hvers þetta væri allt gert, hvers vegna ríkið er að skrapa saman til að standa við kosningaloforð Samfylkingarinnar með því að afhenda land, með því að gefa heimildir til nýrrar skattlagningar, nýrrar gjaldtöku, afhenda jafnvel Íslandsbanka, þá sjáum við það hér því að fram að stofnun félagsins á verkefnisstofa borgarlínu að fara með hlutverk þess.

Í greinargerð er svo fjallað um tilefni lagasetningarinnar. Sá kafli byrjar á að útskýra að tilefni lagasetningarinnar sé að uppfylla þær skuldbindingar sem koma fram í samgöngusáttmálanum um að sameiginlegt félag verði stofnað á vegum ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Samgöngusáttmálinn — þessi ótrúlegi sáttmáli sem var kallaður samningur, sem mátti ekki kalla samning af því að það var eitthvað viðkvæmt, en er hins vegar farið með sem samning því að nú leggur ríkisstjórnin ofurkapp á að framfylgja þeim samningi eða sáttmála, eins og þau kölluðu það á nokkuð villandi hátt, til þess að geta fjármagnað kosningaloforð meiri hlutans í Reykjavík, og það án þess að til staðar sé rekstraráætlun sem er auðvitað algjörlega óskiljanlegt og með hreinustu ólíkindum. Ég held að það sé fullt tilefni fyrir Ríkisendurskoðun að skoða þetta mál. Það getur ekki verið að ráðherrar geti anað út í svona vitleysu, að því er virðist í blindni, þar sem með einum eða öðrum hætti er verið að skuldbinda almenning, taka af almenningi lýðræðislegt vald, setja fjármagn í verkefni án þess að menn hafi hugmynd um hvernig rekstraráætlunin muni líta út eða hafa a.m.k. ekki þorað að sýna hana. Við vitum þó að reksturinn verður miklu dýrari, líklega margfalt dýrari, en núverandi strætókerfi því að til stendur að reka tvöfalt strætókerfi á höfuðborgarsvæðinu. Áfram verður haldið með hefðbundinn strætó sem þá verður einhvers konar hverfisstrætó og verður fyrir vikið óhagkvæmari eins og meira að segja fyrrnefnd verkefnisstofa borgarlínu viðurkennir og spáir því að kostnaðurinn við strætó, bara þann hluta, muni aukast um 2 milljarða á ári. Fram að þessu hefur einungis þriðjungur af tekjum strætó komið af sölu farmiða eða fargjöldum. Nú á að auka þann kostnað um 2 milljarða á ári. Og hvaðan eiga þeir peningar að koma? Við vitum það ekki, ekki frekar en við vitum nokkurn skapaðan hlut um rekstraráætlun, hvað þá hvað muni kosta að reka borgarlínu. (Forseti hringir.)

Ég er rétt að komast af stað og bið hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.