150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[15:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst bara undarleg nálgun að kalla sífellt eftir því að stjórnmálamenn eigi að ráða meiru í sambandi við áhyggjur af lýðræði. Ef við höfum áhyggjur af skorti á lýðræðislegu umboði þá segir það sig sjálft að við eigum að færa valdið meira í hendurnar á borgurunum. Bara svona til þess að gorta mig aðeins af stefnu Pírata þá er það t.d. stefna Pírata að setja í stjórnarskrá ákvæði þar sem 10% kjósenda geta neytt fram bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvörp sem Alþingi hefur samþykkt og þar sem 2% kjósenda geta lagt fram mál á Alþingi. Það er líka í stefnu Pírata að ef það nást undirskriftir 10% kjósenda þá leggur þingflokkur Pírata fram breytingartillögur við mál þess efnis að koma þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við vorum reiðubúin með slíkar breytingartillögur við þriðja orkupakkann ef það hefðu náðst undirskriftir 10% kjósenda á þeim tíma, sem náðust ekki eins og vonandi er frægt orðið. Sömuleiðis er það í stefnu Pírata að gera sveitarfélögum kleift að halda íbúakosningar svokallaðar, íbúaatkvæðagreiðslur, um einstaka mál við lægri þröskuld en 20% ef þau svo kjósa og það er í stefnu Pírata að kjósa framkvæmdastjóra sveitarfélags beint.

Ég held að Píratar væru almennt mjög opnir fyrir því að skapa einhvers konar ferli til að borgararnir gætu kosið beint stjórnir inn í einstaka þætti sem þættu skipta gríðarlegu máli. Hugsanlega myndu sveitarfélögin í kring vilja greiða atkvæði um samgöngukerfið í Reykjavík. En eftir stendur að ég hef hvergi heyrt það ákall nema óbeint í ræðu hv. þingmanns, sem reyndar kallaði ekki eftir því heldur því að stjórnmálamenn myndu ráða fleiri hlutum og ráða meiru. Mér finnst það svo skrýtin forgangsröðun en þó verðugt umræðuefni. Þess vegna hef ég áhuga á því að heyra aðeins meira úr ranni Miðflokksins um lausnir við vandanum aðrar en þær að valdefla stjórnmálamenn enn þá meira.