150. löggjafarþing — 125. fundur,  23. júní 2020.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[19:42]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn nær og fjær. Það eru blendnar tilfinningar sem fylgja því að horfa yfir sviðið á þessum tímum. Annars vegar blasir við okkur mikill samdráttur sem kemur hart niður á efnahag landsins, afkomu fyrirtækja og fjárhag þúsunda fjölskyldna. Áhrifin af því munu vara lengi og eiga líklega enn þá eftir að koma að fullu fram. Á hinn bóginn er bæði atvinnulífið og samfélagið smám saman að komast aftur í eðlilegra horf, skref fyrir skref, með þeirri bjartsýni sem sú þróun hlýtur að vekja með okkur.

Það vita það allir sem fylgjast með stöðunni erlendis að við höfum fram til þessa farið í gegnum Covid-faraldurinn með minna raski á daglegu lífi en velflestar þjóðir í kringum okkur. Stærstan heiður af þeim árangri eiga landsmenn allir, fyrir að hafa tekið ráðgjöf okkar bestu sérfræðinga alvarlega, en stærstu þakkirnar fara til framlínufólks á öllum sviðum.

Nú þurfum við að verja þennan árangur með því að vera áfram ábyrg og skynsöm. Sigur gegn plágunni er ekki í höfn. Við megum ekki fagna of snemma. Eða svo að snúið sé út úr ágætu orðatiltæki: Ekki er sopið Covid, þó að í ausuna sé komið.

Reynslan af opnun landamæranna hefur verið góð fram til þessa. Fyrstu skrefin voru varfærin, enda er varkárni nauðsynleg, bæði til að skapa traust og til að lágmarka hættuna á bakslagi. Varkárni ásamt reglulegri endurskoðun í ljósi nýjustu upplýsinga hafa verið okkar leiðarljós og þau hafa reynst okkur vel. Við eigum mikið undir því að halda áfram á réttri braut og koma hjólunum í gang því að nú er spáð að samdrátturinn vegna Covid muni nema 9% á þessu ári og atvinnuleysi fara í 11%. Reynist spárnar réttar verður því um að ræða meiri samdrátt og meira atvinnuleysi en varð í kjölfar bankahrunsins 2008.

Við höfum gripið til afgerandi ráðstafana til að lágmarka höggið á fólk og fyrirtæki og stuðla að kröftugri viðspyrnu. Ég þarf ekki að útskýra þær í löngu máli því nógu langt mál er að telja upp nokkrar þær helstu: Hlutabótaleiðin, greiðsluskjól, laun á uppsagnarfresti, brúarlán, stuðningslán, lokunarstyrkir, frestun opinberra gjalda, jöfnun tekjuskatts á milli ára, barnabótaauki, stuðningur við fólk í atvinnuleit, átak í geðheilbrigðismálum, styrking fjarheilbrigðisþjónustu, frístundastyrkur fyrir tekjulága, sumarúrræði fyrir námsmenn, efling matvælaframleiðslu, markaðsátak í þágu ferðaþjónustu innan lands og erlendis, stórfelldur stuðningur við nýsköpun með auknum framlögum í Tækniþróunarsjóð, hækkun endurgreiðslna vegna rannsókna og þróunar, stofnun Kríu og tímabundinn stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki með því sem við köllum stuðnings-Kríu. Hér er ekki einu sinni allt upp talið en heildarmyndin blasir við: Á örfáum vikum hefur verið brugðist með afgerandi hætti við einum mesta samdrætti í okkar síðari tíma efnahagssögu.

Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa því yfir að við þessar aðstæður, sem er ekki hægt að kalla neitt annað en neyðarástand, hefur það unnið með okkur en ekki gegn okkur að hafa ríkisstjórn sem er skipuð flokkum sem endurspegla breitt svið pólitískrar hugmyndafræði frá hægri til vinstri. Það hefur líka skipt máli við þessar aðstæður að hafa við stjórnvölinn flokka sem allir hafa ákveðna kjölfestu og innri styrk og fara ekki á taugum þó að gefi á bátinn.

Ég nefndi áðan að landsmenn allir ættu heiðurinn af árangri okkar í baráttunni við Covid. Í því sambandi vil ég nefna að landsmenn eiga líka hlut í þeirri viðspyrnu sem er farin að eiga sér stað. Það sem ég á við með því er að á sama tíma og við höfum upplifað harkalegan efnahagslegan samdrátt höfum við upplifað félagslegan uppgang, félagslega vakningu, félagslega sókn. Við höfum séð samhug, jákvæðni og bjartsýni hvert hjá öðru. Ef eitt orð getur fangað kjarnann í því einkenni á samfélagi okkar, sem ég er að reyna að lýsa hér, þá er það líklega orðið „þrautseigja“. Það er enginn vafi í mínum huga að þrautseigja samfélags okkar skiptir sköpum til að ná þeirri viðspyrnu, sem verður stærsta verkefni okkar á næstu mánuðum og misserum.  

Kæru landsmenn. Hér að framan nefndi ég hver hefðu verið leiðarljós okkar í viðbrögðum við Covid. Því verkefni er ekki lokið, en samhliða því þurfum við nú í auknum mæli að beina sjónum okkar að því verkefni að rísa aftur á fætur. Og þá þurfum við ný leiðarljós. Leiðarljós í viðspyrnunni. Leiðarljósið verður að vera að virkja einstaklingsframtakið til að auka aftur tekjur þjóðarbúsins. Ekkert er betur til þess fallið að auka tekjur þjóðarbúsins en athafnafrelsi, frjálst einstaklingsframtak. Við tölum stundum um verðmætasköpun í þessu sambandi, og að ríkið búi ekki til verðmæti heldur einstaklingarnir, en það er ekki alveg nákvæmt orðalag, því það er jú fleira verðmæti en tekjur. Öryggi, menntun og heilbrigði eru dæmi um verðmæti sem við erum flest sammála um að ríkið eigi að taka þátt í að tryggja okkur. En þegar kemur að tekjuöflun þá stenst enginn athafnafrelsi og einstaklingsframtaki snúning. Frelsi og framtak eru orkan sem knýr gangverk tekjuöflunar þjóðarbúsins.

Af því að orkuskipti eru eitt af verkefnum mínum sem ráðherra væri hægt að orða þetta á þann veg, að það verða engin orkuskipti í gangverki tekjuöflunar. Gangverk tekjuöflunar verður aðeins knúið með frelsi og framtaki.   Ríkið getur hugað að vélinni, séð til þess að hún sé í lagi, tryggt henni gott súrefnisflæði. Og það ætlum við að gera, ekki síst með því að leggja þunga áherslu á nýsköpun.

Það sem mun koma okkur upp úr Covid, er hugvit. Við höfum nú þegar stigið stór skref í þeim efnum á grundvelli nýrrar nýsköpunarstefnu og allra þeirra aðgerða sem við höfum farið í. Hið opinbera getur búið til jarðveginn, en til að nýta hann þarf hugvitssama og þrautseiga frumkvöðla. Í viðleitni frumkvöðla reynir einmitt hvað mest á þrautseigjuna, sem ég nefndi áðan að væri einkenni á okkar samfélagi.

Annað nauðsynlegt verkefni er að hagræða í ríkisrekstrinum. Við þurfum að kasta þeirri ranghugmynd að hagræðing feli í sér niðurskurð á þjónustu, verri þjónustu við borgara. Við höfum einfaldlega ekki efni á því að reka stóru kerfin okkar með óbreyttum hætti og það er eitthvað sem var orðið ljóst fyrir Covid. Þarna er verkefni sem við getum ekki velt yfir á komandi kynslóðir. Það væri vond pólitík.

Kæru landsmenn. Ég vil að lokum leyfa mér að vitna í frábær lokaorð í strangheiðarlegu þjóðhátíðarljóði Þórdísar Gísladóttur, með leyfi forseta:

Við skulum hugsa hvert um annað.

Við skulum njóta bjartra dægra.

Við skulum rækta garðinn okkar.