150. löggjafarþing — 125. fundur,  23. júní 2020.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[20:20]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Kæru landsmenn. Ég ætla að tala hér um skjól og skálkaskjól. En fyrst af öllu vil ég af öllu hjarta þakka þeim fjölmörgu sem hafa staðið hina löngu og ströngu Covid-vakt fyrir okkur hin. Ykkar er sannarlega heiðurinn.

Það er heilmikil áskorun að aðskilja aðgerðir og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar frá upphafi kjörtímabils við ástandið vegna kórónuveirufaraldursins. Efnahagsamdrátturinn var þegar hafinn áður en veiran gerði vart við sig. Faraldurinn hefur hins vegar hjálpað ríkisstjórninni við að breiða yfir þær ógöngur sem efnahagurinn var kominn í.

Við búum við aðstæður sem hægt er að lýsa einhvern veginn svona: Þrír stjórnmálaflokkar rugluðu saman reitum í von um að viðhalda því sem var. Gulrótin var umtalsverð aukning ríkisútgjalda í hitt og þetta. Það var allt frekar ómarkvisst enda ríkisstjórnin mynduð um allt annað en skýra framtíðarsýn í breytilegum heimi. Hugmyndafræði fortíðar var sett í heiðurssæti. Baksýnisspegillinn var mikið notaður og það er aldrei vísir að góðum og öruggum akstri.

Svo bankaði Covid-19 upp á og í kjölfarið varð krafan um markvissar aðgerðir af hálfu stjórnvalda sífellt háværari. Og þótt margt hafi verið unnið er staðan engu að síður sú að það er meira um orð en efndir. Þannig greindi Ríkisútvarpið frá því í gær að enn hefði ekkert fyrirtæki fengið brúarlán eða stuðningslán, nokkuð sem var fyrir ríflega þremur mánuðum kynnt sem ein áhrifamesta aðgerð ríkisstjórnarinnar í Covid-faraldrinum. Brúarlán svokölluð hafa verið lykilatriði í viðspyrnu marga nágrannalanda okkar sem náðu að klára málið á tilskildum tíma og koma fyrirtækjum þannig til hjálpar. Kannski er það tiltekna úrræði of seint á ferðinni hér en vonandi kemur eitthvað annað tímanlega í staðinn.

Ríkisstjórnarrútan mallaði áður í hlutlausum enda hlustuðu bílstjórarnir þrír ekkert á háværar viðvörunarraddir, ekki síst okkar í Viðreisn, varðandi þau teikn sem voru á lofti um mikla kulnun í efnahagslífinu löngu áður en Covid lét á sér kræla. Þegar ekki dugði lengur að þykjast hvorki heyra né sjá voru viðbrögðin svolítið þau að stíga hraustlega á bensíngjöfina en gleyma að setja í gír.

Það er þó ekki svo að ríkisstjórnin hafi setið algerlega auðum höndum og við í Viðreisn höfum sem fyrr lagt góðum málum lið og munum gera áfram. En það er þó svo að dýrmætur tími hefur farið hjá ríkisstjórninni í vörn fyrir sérhagsmunina. Ríkisstjórnarflokkarnir þrír verjast t.d. fimlega þeirri sjálfsögðu kröfu að veiðiréttur sé ekki afhentur varanlega heldur með tímabundnum samningum. Og það undirstrikað þannig í stjórnarskrá að sjávarauðlindin er eign íslenskrar þjóðar.

Forseti. Núna, örfáum dögum fyrir þinglok, bíða tugir mála frá ríkisstjórninni afgreiðslu þingsins. Allt of mörg þessara mála eru þess eðlis að hafa fengið ónóga umfjöllun og vinnslu í meðferð þingsins. Það hversu lengi tiltekin mál hafa beðið afgreiðslu er ekki mælikvarði á gæði. Of mörg þessara mála eiga það svo sammerkt að ganga á réttindi fólks, grundvallarréttindi á borð við eignarrétt, neytendavernd og persónuvernd. Vonandi eru hert og ómannúðleg lög dómsmálaráðherra um útlendinga komin í saltkistuna eftir þunga gagnrýni stjórnarandstöðunnar rétt eins og upplýsingafrumvarp forsætisráðherra sem óbreytt hefði gert fjölmiðlum nánast ókleift að nálgast upplýsingar í krafti þeirra laga. En bara það að þessar tilraunir hafi verið gerðar af hálfu ríkisstjórnarinnar er áhyggjuefni og undirstrikar mikilvægi þess að stjórnarandstaðan sé alltaf á varðbergi.

Herra forseti. Covid-19 veiran hefur þannig reynst ríkisstjórninni ákveðið skálkaskjól þegar kemur að því að keyra illa undirbúin mál í gegnum þingið á methraða. En það er líka áhugavert að skoða hvaða mál eru ekki á listanum langa. Þar má nefna ýmis frelsismál sem voru kynnt til sögunnar á sínum tíma með vel pródúseruðum kynningarfundum eða herferðum á samfélagsmiðlum. Ég nefni mál á borð við aukið frelsi fólks til að ráða eigin nafngift, aukið frelsi á leigubílamarkaði með tilheyrandi fjölbreytni og vali fyrir notendur, frelsi fyrir lítil brugghús að selja eigin framleiðslu og frelsi til að kaupa áfengi í íslenskum netverslunum, ekki bara erlendum. Einnig frelsi til að kaupa lausasölulyf í almennum verslunum. Eina slíka málið sem náði í gegnum þétta vörn þingmanna stjórnarmeirihlutans var mál um neyslurými fyrir fólk með fíknivanda sem hæstv. heilbrigðisráðherra náði í höfn með dyggum stuðningi stjórnarandstöðunnar.

Þá er ónefndur málalisti umhverfisráðherra sem lenti heldur betur undir niðurskurðarhnífnum, líklega hefur ekki verið talinn tími fyrir fyrirsjáanleg átök milli stjórnarflokkanna þar. Það er án efa rétt mat en það er óskandi að umhverfismálin verði meira áberandi á dagskrá ríkisstjórnarinnar næsta vetur.

Góðir áheyrendur. Heimsbyggðin hefur tekist á við fjölmargar áskoranir í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. Þegar óvissa og átök eru áberandi eiga mannréttindi og frelsi því miður oft undir högg að sækja. Það segir sitt um alvarleika kórónuveirufaraldursins að gamalgróin lýðræðisríki hafa mörg hver gripið til aðgerða sem einhvern tíma hefðu þótt óhugsandi, a.m.k. á friðartímum. En það er líka staðreynd að í mörgum vestrænum og rótgrónum lýðræðisríkjum er fólk á borð við okkur orðið helst til værukært og leggur litla áherslu á að standa vörð um grundvallarmannréttindi. Það er ekki góð þróun.

Okkur ber ekki aðeins skylda til að vernda réttindi og hagsmuni þeirra sem fylgja lögum og reglum og skera sig ekki úr fjöldanum. Annað hlutverk samfélagsins og sannarlega engu ómerkilegra er að vernda hag þeirra sem falla ekki í hópinn. Sama af hvaða ástæðum það er. Kannski með því að brjóta gegn viðurkenndum reglum. Kannski bara með því að vera á einhvern hátt öðruvísi. Hið eiginlega skjól felst í því að við stöndum alltaf vörð um áunnið persónufrelsi. Gefum það ekki eftir baráttulaust, sama í hversu smáu það er. Um þetta hlýtur hin endanlega sátt samfélags að ríkja. Ekki aðeins þegar vegið er að okkar frelsi, heldur líka þegar vegið er að frelsi annarra. Við getum nefnilega auðveldlega verið í þeirra sporum á morgun. Það er í okkar hendi. — Ég þakka áheyrnina. Gleðilegt sumar.