150. löggjafarþing — 125. fundur,  23. júní 2020.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[21:05]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Kæru landsmenn. Heimsfaraldur kórónuveiru gengur enn yfir þótt áhrif hans hér á Íslandi fari þverrandi. Heilbrigðisstarfsfólkið okkar lyfti grettistaki í baráttunni og sömuleiðis sýndu aðrir hópar í framlínunni fram á mikilvægi starfa sinna og framlags til samfélagsins.

Góðum árangri okkar má þó einna helst þakka fólkinu sem byggir þessa fallegu eyju, en við höfum sýnt það og sannað að þegar við stöndum frammi fyrir flóknum áskorunum þá erum við útsjónarsöm og kærleiksrík, við þrjóskumst áfram í átt að lausnum og við stöndum saman. Okkur er annt um hvert annað og við erum til staðar fyrir hvert annað.

Það er fegurðin sem birtist í okkar litla samfélagi þegar erfiðleikar steðja að en Covid-19 faraldurinn hefur líka varpað ljósi á dekkri hliðar samfélagsins og beint sjónum okkar að því fjölbreytilega misrétti sem hagkerfið og þjóðfélagsgerð okkar hafa skapað, misrétti sem eyðileggur líf fólks, sviptir það tækifærum og ógnar þeirri kærleiksríku samstöðu sem er lím samfélags okkar.

Góðir landsmenn. Á tímum sem þessum opnast möguleikar á róttækum breytingum til hins betra eða — ef við neitum að þróast í takt við breytta tíma — til hins verra.

Sagan okkar, sögurnar okkar og listin hlaða niður vörður í atburðarás framtíðarinnar. Við getum kosið að hlusta á varnaðarorð og læra af fortíðinni til þess að skapa betri framtíð. Til þess þurfum við að þora að láta okkur dreyma stórt. Við þurfum að þora að teygja okkur í átt að útópíunni og velja aðra kosti en þá sem engu vilja breyta. Til þess þurfum við að þora að horfast í augu við okkar innri hræðslu við breytingar, horfast í augu við afturhaldsöflin og veita þeim viðnám.

Heimsfaraldur kórónuveiru hefur sýnt okkur að hið áður ómögulega er vissulega mögulegt. Fyrir aðeins þremur mánuðum hefði verið óvenjulegt fyrir marga að „hitta“ fólk í gegnum myndsímtöl og fjarfundi, en nú er það alvanalegt. Það þurfti heimsfaraldur til þess að ýta okkur tíu ár fram í tímann og það verður ekki aftur snúið. Þetta nýja samskiptaform er komið til að vera.

Fólk áttar sig kannski ekki á því, en við búum nú þegar í vísindaskáldskap síðustu aldar. Gervihnettir, snjallsímar og myndsímtöl voru allt hugmyndir rithöfunda áður en verkfræðingar tóku við keflinu.

Rithöfundar hafa líka spáð fyrir um þróun samfélagsins okkar til góðs og ills. Hverjum hefði t.d. dottið í hug fyrir örfáum árum að valdamesti maður heims myndi eyða forsetatíð sinni í að sannfæra heimsbyggðina um að stríð sé friður, að svart sé hvítt og hvítt sé svart? Að helstu valdatæki valdhafanna yrðu að endurskrifa sífellt söguna sér í hag eins og George Orwell spáði fyrir um í tímamótaverki sínu 1984? Hefði fólk fyrri ára getað sagt sér að við myndum sjálf taka fullan þátt í eftirlitssamfélagi með sjálfum okkur og færa valdhöfum ógrynni upplýsinga um skoðanir okkar, tilfinningar og sögu? Þróunin er varhugaverð og okkur ber að nálgast hana með gagnrýnum hug.

Forseti. Vetrinum sem leið má í mörgu líkja við dystópíska vísindaskáldsögu. En sögunni er ekki lokið og endirinn er galopinn.

Við Píratar vitum að samfélagsgerðin okkar er ekki náttúrulögmál. Kerfin okkar eru mannanna verk og sannarlega ekki meitluð í stein.

Það er ekki náttúrulögmál að um 20 þúsund manneskjur þurfi að lifa í spennitreyju skerðinga og örorkubóta eða þúsundir barna búi við fátækt.

Það er ekki náttúrulögmál að eldra fólk, fólkið sem byggði upp þá innviði sem við njótum góðs af, þurfi að lifa við fjárhagsáhyggjur.

Það er ekki náttúrulögmál að fyrirtæki sem komast undan skattgreiðslum með bókhaldsbrellum og skattaskjólstilfærslum fái að halda því áfram óáreitt og hljóti síðan aðgang að sameiginlegum sjóðum okkar allra þegar illa árar.

Forgangsröðunin er eitthvað á þá leið að eltast við bótasvindlara með umfangsmikilli upplýsingasöfnun og stífu eftirliti með bótaþegum, en svelta svo þær eftirlitsstofnanir sem eiga að fylgjast með fyrirtækjum og fjármagnseigendum, með peningaþvætti, með stórfelldum skattundanskotum. Þessi meðvitaða vangeta kom bersýnilega í ljós þegar Ísland var fært á gráan lista FATF síðastliðið haust, þar sem við dúsum enn. Þetta þarf ekki að vera svona og þetta á ekki að vera svona.

Góðir landsmenn. Það er val að útiloka suma og hampa öðrum. Það er val að umhverfissóðar þurfi ekki að gjalda fyrir að eyðileggja náttúruna. Það er val að byggja samfélagssáttmálann á úreltu, dönsku plaggi sem festir í sessi þann valdastrúktúr sem mótar samfélagið okkar. Það er val að hunsa þjóðaratkvæðagreiðslu. Allt er þetta val sem ríkisstjórnin stendur vörð um, en einnig er þetta val sem þú, kjósandi góður, hefur tækifæri til þess að breyta.

Við Píratar treystum fólkinu í landinu til þess að vinna samfélagi sínu lið. Þess vegna tölum við fyrir skilyrðislausum atvinnuleysisbótum í stað ríkisstyrktra uppsagna, vegna þess að við sjáum fjárfestinguna sem felst í því að auka svigrúm og frelsi fólks með því að afnema skerðingar og tryggja skilyrðislausa grunnframfærslu allra landsmanna. Við viljum innleiða hagkerfi þar sem allt sprettur upp og blómstrar út frá þörfum og ástríðu fólksins í landinu, hagkerfi sem vex utan um og grípur okkur, í staðinn fyrir að koma sem valdboð að ofan. Velsældarhagkerfi þar sem linnulaus hagvaxtarkrafa fær að víkja fyrir sjálfbæru og hamingjusömu samfélagi.

Við höfum alla burði til þess að skapa ríkt samfélag þar sem enginn þarf að líða skort. Við getum valið framtíð þar sem við vinnum saman að réttlátu og sjálfbæru samfélagi fyrir alla með framsýni og bjartsýni að leiðarljósi.

Kæra þjóð. Framtíðin er í okkar höndum, skrifum betri sögu saman.