150. löggjafarþing — 125. fundur,  23. júní 2020.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[21:19]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Og öll þið sem sitjið heima og hlustið af andakt. Margt hefur verið óvenjulegt í lífi okkar allra á síðustu mánuðum og mun trúlega verða enn um sinn. Fólk, heimili og fyrirtæki hafa orðið fyrir skakkaföllum. Enn einu sinni höfum við verið rækilega minnt á að hagkerfi okkar sveiflast örar og meira en önnur. Og það er augljóst hvers vegna. Við byggjum allt okkar á brothættri krónu, óstöðugum auðlindum og of fábreyttu atvinnulífi. Við setjum traust okkar á fáar greinar sem verða hlutfallslega of stórar og þess vegna hriktir í hagkerfinu þegar efnahagsleg áföll ríða yfir.

Þetta vitum við auðvitað öll, þetta benda erlendar stofnanir á sviði efnahagsmála okkur ítrekað á og margar skýrslur hafa verið ritaðar um efnið. Þegar við erum dýpst í öldudalnum rámar okkur í þetta og við byrjum að tala um nýsköpun, tækni, þróun og fjölbreyttara atvinnulíf, alveg þangað til uppsveiflan byrjar að nýju, þá gleymum við okkur í alsælu þenslunnar þar til allt fer niður aftur og timburmennirnir koma.

Við í Viðreisn höfum þess vegna skýra stefnu sem getur tekist á við þennan vanda og dregið verulega úr neikvæðum áhrifum á fólk, heimili og fyrirtæki í landinu. Kjarninn í þeirri stefnu er að auka alþjóðlegt samstarf með aðild Íslands að Evrópusambandinu, taka upp evru í stað krónu, jafna aðstöðumun í atvinnulífinu, m.a. með tímabindingu aflaheimilda og að markaðurinn ráði verði þeirra. Það þarf bæta neytendavernd og endurskoða samkeppnislög með það fyrir augum að þau verði skilvirk, gæti að hag smærri fyrirtækja og neytenda, um leið og stærri fyrirtæki hafi eðlilegt svigrúm á markaði án þess að samþjöppun verði of mikil og einokun verði til.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, hæstv. forsætisráðherra, hefur lítinn eða hreint engan áhuga á þessari framtíðarsýn. Þar má ekki á milli sjá hver flokkanna þriggja er andsnúnastur þessum sjónarmiðum Viðreisnar, a.m.k. ef horft er til verka ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu.

Herra forseti. Fátt er okkur mikilvægara um þessar mundir en að horfa til langs tíma. Við þurfum að uppfæra kerfin okkar, ekki umbylta þeim. Við þurfum kerfisbreytingar sem skapa grundvöll til fjölbreyttra tækifæra í lífi og starfi sem byggja á jöfnum rétti og valfrelsi. Allt verður þetta að byggja á velgengni í efnahagsmálum og góðum starfsskilyrðum. Við verðum að leggja grunn að öflugri og fjölbreyttri atvinnustarfsemi sem skapar þjóðarbúinu tekjur og fólki tækifæri til starfa sem gefa af sér góðar tekjur. Okkur er nauðsynlegt að efla alþjóðageirann, hugvitsdrifnar útflutningsgreinar, sem stuðla að sjálfbærum og góðum hagvexti til langs tíma.

Eina leiðin til þess er að taka djarfar og stórar ákvarðanir um að menntun, vísindi, rannsóknir, þróun og nýsköpun verði höfuðþáttur í efnahags- og atvinnustefnu okkar og fái nauðsynlegt fjármagn til langs tíma. Allir verða að geta treyst á að umgjörðin haldi, ekki bara í eitt eða tvö ár, heldur a.m.k. til 10 ára í senn. Nýsköpun er nefnilega langhlaup en ekki spretthlaup eins og sumir virðast halda. Þegar lagt er af stað í langhlaup verður hlauparinn að vita hvar hlaupaleiðin liggur og verður að geta treyst því að henni verði ekki breytt í miðju hlaupi.

Herra forseti. Eitt af því sem ríkisstjórnin hefur gert er að leggja aukið fé í þennan málaflokk. Og það er vel, því ber að hrósa. Gallinn er hins vegar sá að þetta eru skammtímaráðstafanir sem viðbrögð við efnahagslegum áhrifum kórónaveirunnar. Í stað þess að hefja langhlaup ætlar ríkisstjórnin að taka spretthlaup sem mun því miður skila takmörkuðum árangri og skilar ekki þeim nauðsynlegu breytingum í atvinnulífinu sem við þörfnumst svo sárlega. Hér vill Viðreisn fara aðrar leiðir og hefur barist fyrir þeim, en því miður fyrir daufum eyrum.

Herra forseti. Eitt er öruggt: Tíminn líður og framtíðin kemur. Við eigum að búa okkur undir hana af framsýni og skynsemi. Leiðarljós okkar í Viðreisn er eins og alltaf að láta almannahagsmuni ráða för en ekki sérhagsmuni. Þegar öllu er á botninn hvolft er besta leiðin til að spá fyrir um framtíðina að skapa hana sjálf.