150. löggjafarþing — 125. fundur,  23. júní 2020.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[21:32]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti, góðir landsmenn. Aldurssamsetning þjóðarinnar tekur örum breytingum. Hlutfall aldraðra hefur hækkað vegna lengri ævi og færri fæðinga hér á landi, eins og víðar á Vesturlöndum. Spár gera ráð fyrir að hlutfall fólks eldra en 67 ára muni hækka úr 12% í 19% árið 2040 og verði aldraðir þá orðnir um 76.000. Þessar staðreyndir kalla á virka stefnumótun í málefnum eldra fólks.

Umræða um framfærslu litast mjög af skerðingum á greiðslum almannatrygginga, rammgerðu kerfi hins opinbera, sem einkennist af skerðingum greiðslna til þeirra sem hafa tekjur af atvinnu, lífeyri eða ávöxtun fjármuna. Með almannatryggingum er leitast við að strengja öryggisnet undir þá sem höllum fæti standa. Reynslan sýnir að skerðingar á bótum almannatrygginga hafa gengið úr hófi fram. Dæmin eru skýr. Samanlögð skerðing og skattlagning tekna á tekjubilinu 25.000–570.000 kr. getur numið yfir 80%. Með þessu er fólki nánast gert ókleift að bæta hag sinn með aukinni vinnu í krafti sjálfsbjargarviðleitni sem hverjum manni er eðlislæg. Fyrir þessa hópa er ekki ómaksins virði að afla tekna með atvinnu gagnvart svo harkalegri skattlagningu. Slíkar skerðingar vegna atvinnutekna ganga gegn sjónarmiðum um lýðheilsu í ljósi þess að aukin lífsgæði fylgi virkri þátttöku í atvinnulífi og samfélagi. Miðflokkurinn vill draga markvisst úr þessum skerðingum og auka lífsgæði aldraðra og öryrkja.

Góðir Íslendingar. Undanfarið hefur Miðflokkurinn tekið umræðu um málefni borgarlínu. Ekki er vanþörf á miðað við það fjármagn sem í verkefnið á að leggja, en ekki síður vegna áróðurskenndrar framsetningar kynningarefnis þess. Á höfuðborgarsvæðinu hefur verið framkvæmdastopp í fjöldamörg ár og það hafa allir sem þurfa að komast leiðar sinnar um svæðið orðið illþyrmilega varir við. Þessar umferðarteppur koma ekki til af tilviljun. Það er ekki tilviljun. Nei, þær eru fyrir fram ákveðnar og um það var samið af meiri hlutanum í Reykjavík til að fá aukið fé úr ríkissjóði til að gera tilraun með að auka hlut almenningssamgangna, tilraun sem hófst árið 2011 og árangurinn er enginn. Enginn. Hlutur almenningssamgangna var 4% þegar tilraunin hófst og 9 milljörðum síðar er hlutur almenningssamgangna enn 4%. Þetta heitir á mannamáli að tilraunin hafi mistekist.

En eru menn búnir að læra af reynslunni? Nei, það á að bæta verulega í og nú að veðja öllu fénu á svokallaða borgarlínu. Fé sem er reyndar ekki til eftir efnahagsáfall vegna veirunnar. Áformað er að rýma fyrir sérakreinum fyrir hraðvagnakerfi, sem eru sérlega langir almenningsvagnar sem fá forgang á öllum gatnamótum. Og hvernig sjá menn fyrir sér að fjölskyldubíllinn komist leiðar sinnar þegar þetta kerfi er komið á? Munu umferðarteppur með tilheyrandi töfum heyra sögunni til þegar tvær akreinar á helstu stofnbrautum eru teknar frá fyrir þessa hraðvagna? Og hvað kosta herlegheitin? Nýjustu tölur segja að ævintýrið muni kosta a.m.k. 80 milljarða þrátt fyrir að vera óútfært og hvergi neitt sem hönd er á festandi. Og á þennan vagn stekkur ríkið í þeim tilgangi, að því er virðist, að losna undan áralöngu framkvæmdastoppi á svæðinu vegna sérvisku og þvermóðsku meiri hlutans í borgarstjórn Reykjavíkur.

Miðflokkurinn er ekki tilbúinn að samþykkja svo hátt lausnargjald. Miðflokkurinn telur ekki verjandi að ætla áformum um borgarlínu svo mikilvægan sess að ríki og sveitarfélög verji tæplega 50 milljörðum fram til ársins 2033 til ófullburða verkefnis og bendir á að unnt sé að ná þeim sömu markmiðum sem að er stefnt með borgarlínu með hagkvæmari hætti, nokkrum milljörðum að áliti samgönguverkfræðings. Nei, herra forseti. Okkur ber skylda til að fara vel með skattfé almennings.

Góðir áheyrendur. Njótið sumarsins.