150. löggjafarþing — 125. fundur,  23. júní 2020.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[21:37]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Sólin kemur hversu löng sem vetrarnóttin er, sagði skáldið. Við höldum nú út í blessað sumarið sem er afar kærkomið eftir langan vetur. Vetur sem fer án nokkurs vafa í sögubækurnar fyrir margra hluta sakir. Hér urðu válynd veður sem reyndu mjög á grunnvirki landsins, svo sem samgöngur, fjarskipti og dreifikerfi raforku. Þegar við bættust jarðhræringar og tjón af völdum snjóflóða fyrir vestan fannst flestum nóg komið. En lengi skal manninn reyna og þegar Covid-19 heimsfaraldurinn skall á af fullum þunga með samkomubanni og verulegum takmörkunum á ferðafrelsi fólks varð ljóst að nú þyrfti aðgerðir af áður óþekktri stærðargráðu. Það var mikil gæfa að hér á landi voru stjórnvöld sem sáu strax að vandinn var tvíþættur; annars vegar sá sem snýr að lýðheilsu fólks og svo hinn sem snýr að efnahagslegum afleiðingum þess að samfélagið nánast stöðvast um tíma.

Það sýnir styrk þessarar ríkisstjórnar að hún treysti okkar besta fagfólki í sóttvörnum til að leiða þá baráttu. Á sviði efnahagsmála var ráðist í umfangsmestu aðgerðir sem sögur fara af til varnar fólki og fyrirtækjum. Við leggjum höfuðáherslu á að verja hvert starf sem mögulegt er að verja en við vitum líka að áfallið er af þeirri stærðargráðu að þrátt fyrir umfangsmestu efnahagsaðgerðir sögunnar þá er höggið þungt. Fram undan eru miklar áskoranir og það mun taka langan tíma, jafnvel einhver ár, að vinna til baka það sem tapaðist. Við þurfum öll að taka á okkur einhverjar byrðar af þessum sökum. Þrátt fyrir góða aðstoð þurfum við líka að axla ábyrgð á okkur sjálfum eins og kostur er því að ef okkur auðnast að standa saman, hafa kompásinn rétt stilltan og hvika ekki af réttri leið munum við ná til lands að nýju, sterkari en áður. Og jákvæð teikn eru á lofti.

Síðustu vikur hafa augu heimspressunnar beinst að Íslandi og lofsamlega hefur verið fjallað um árangur Íslands í Covid-19. Nú síðast var heilmikil umfjöllun á CNN þar sem kostir landsins sem áfangastaðar eftir heimsfaraldurinn voru tíundaðir. Þetta skiptir gríðarlegu máli og við eigum alla möguleika á að vinna okkur hratt upp úr lægðinni með þessu áframhaldi. Tek ég því undir þakkir til allra þeirra sem lögðu mikið af mörkum á erfiðum tímum. Við héldum nýverið upp á þjóðhátíðardaginn á þessum skrýtnu tímum og var einkar ánægjulegt að sjá hversu hugmyndaríkt fólk var við að halda upp á hann með götuhátíðum og garðveislum hvers konar. Já, það er alltaf ærið tilefni að halda upp á sjálfstæði þjóðarinnar sem er svo fjarri því að vera sjálfgefið. Að vera sjálfstæð þjóð í traustu alþjóðlegu samstarfi er okkar gæfa. Þannig getum við nú, ef við viljum, ráðist í tugmilljarða framkvæmdir á Suðurnesjum í tengslum við aðild okkar að NATO.

Ég nefndi grunnvirki samfélagsins í upphafi sem reyndi mikið á í vetur. Við erum að styrkja alla þessa þætti og ég hef til dæmis löngum sagt að öflugar samgöngur séu mesta velferðarmálið. Samtímis hjálpar það auðvitað mikið þegar önnur lönd eru tilbúin að leggjast með okkur á árarnar. Atvinnuleysi er nú eftir Covid-19 með því mesta sem mælst hefur á Suðurnesjum og það er með öllu óásættanlegt. Í því ljósi er einboðið að við grípum með báðum höndum öll tækifæri sem bjóðast til öflugrar viðspyrnu.

Góðir Íslendingar. Við vorum lánsöm að hér voru ábyrg stjórnvöld þegar mest á reyndi og ríkisstjórnarflokkarnir reynslumiklir og rótgrónir. Þeir gátu veitt forystu og kjölfestu í senn. Við bjuggum að ríkissjóði sem var í sterkri stöðu. Verkefninu er þó hvergi nærri lokið og óvissan verður áfram mikil. Stjórnmálamenn skulda þjóðinni að hafa augun á stóra samhenginu og að setja þjóðarhag ofar öllu öðru karpi um keisarans skegg. Stöndum saman með hugvitið að vopni, nýsköpun, auðlindanýtingu og öfluga uppbyggingu um allt land. Við verðum tilbúin þegar landið fer að rísa á ný og þá verður reynslan okkar gull. Við höfum alltaf tekið storminn fyrst í fangið og sett vindinn svo í bakið. Njótum sumarsins saman, njótum alls þess besta sem landið hefur upp á að bjóða og munum að Ísland er kannski ekki fullkomið en það er svo sannarlega það besta sem völ er á.